15. fundur

Fundargerð

Umhverfisnefnd 2022-2026

22.03.2024

15. fundur

Umhverfisnefnd 2022-2026

haldinn í Þinghúsinu Breiðumýri föstudaginn 22. mars kl. 15:00

Fundarmenn

Árni Pétur Hilmarsson
Sigrún Jónsdóttir
Rúnar Ísleifsson
Arnheiður Rán Almarsdóttir var fjarverandi en í staðinn sat fundinn Garðar Finnsson
Guðrún Sigríður Tryggvadóttir

Starfsmenn

Ingimar Ingimarsson

Fundargerð ritaði: Ingimar Ingimarsson

Dagskrá:

 

3.

Stjórnsýslulundur - Kolefnisjöfnun skrifstofu og áhaldahúss Þingeyjarsveitar - 2403025

 

Skrifstofa og áhaldahús Þingeyjarsveitar óska eftir að fá að kolefnisjafna starfsemi sína.

 

Nefndin fagnar verkefninu og beinir því til teymisstjóra Grænna skrefa að afla sér góðra upplýsinga um hvaða plöntur og staðsetning henta verkefninu.

 

Samþykkt

 

   

1.

Stuðningskerfi í skógrækt og landgræðslu - endurskoðun - 2402066

 

Matvælaráðuneytið óskar eftir ábendingum vegna vinnu við að móta tillögur að endurskoðuðu stuðningskerfi í landgræðslu og skógrækt.

 

Nefndin leggur áherslu á að í endurskoðun á stuðningskerfum í skógrækt og landgræðslu verði horft til þess að slík breyting auki heildarfjármagn til málaflokksins. Breytingin verði til einföldunar, hún auki sveigjanleika og horft verði til landstærðar sveitarfélaga við úthlutanir.

Nefndin telur að Bonn verkefnið sé ágætis viðbót við aðra landgræðslu.

 

Samþykkt

 

   

2.

Vonarskarð - framtíðarskipulag náttúruverndar og innviða innan landslagsheildarinnar í Vonarskarði - 2402073

 

Svæðisráð vestursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs óskar eftir svörum, með rökstuðningi, við fimm tölusettum spurningum um framtíðarskipulag náttúruverndar og innviða innan landslagsheildarinnar í Vonarskarði.

 

Nefndin hefur ákveðið að láta spurningarnar fylgja svörum nefndarinnar.

1. Eru að ykkar mati einhverjir mikilvægir þættir sem ekki hafa fengið umfjöllun í þeim álitum/umsögnum sem borist hafa?

Svar umhverfisnefndar: Nei, það hafa borist umsagnir og sjónarmið frá mjög fjölbreyttri flóru hagsmunaaðila yfir langt tímabil.

2. Gönguleiðir í Vonarskarði: Í dag liggja nokkrar stikaðar gönguleiðir um svæðið, hægt er að sjá þær og upplýsingar um þær, á heimasíðu Vatnajökulsþjóðgarðs (vjp.is). Ætti að fjölga/fækka gönguleiðum um svæðið eða halda óbreyttu ástandi?

Svar umhverfisnefndar: Nefndin telur að ekki þurfi að fjölga eða fækka gönguleiðum en leggur áherslu á það að þær gönguleiðir sem fyrir eru séu vel afmarkaðar og merktar. Svæðið við Snapadal er t.d. mjög viðkvæmt og leggur nefndin sérstaka áherslu á að þar verði vel afmörkuð og merkt gönguleið.

3. Reiðhjólaumferð: Í dag er umferð reiðhjóla óheimil í Vonarskarði. Ætti að leyfa hana eða halda óbreyttu ástandi? Ef hún væri leyfð, hvar ætti hún þá að fara um skarðið?

Svar umhverfisnefndar: Nefndin telur að hjólreiðar eigi að vera leyfilegar um gömlu akleiðina. Hjólreiðar eru umhverfisvænn útivistarmáti sem er sífellt að verða vinsælli. Nefndin telur því enga ástæðu til að hindra þennan ferðamáta á svæðinu.

4. Vélknúin umferð: í dag er vélknúin umferð óheimil í Vonarskarði, nema á frosinni og snævi þakinni jörð í samræmi við almenna skilmála um vetrarakstur. Ætti að leyfa
vélknúna umferð eða halda óbreyttu ástandi? Ef hún væri leyfð, hvar ætti hún þá að fara um skarðið og á hvaða tíma?

Svar umhverfisnefndar: Nefndin leggur til að tilraun verði gerð með umferð vélknúinna ökutækja og taki sú tilraun til fimm ára. Umferð verði leyfð á svæðinu á gömlu akslóðinni eftir 15. ágúst þar til ófært verður ár hvert. Nefndin leggur áherslu á að aðgengi að náttúruperlum landsins sé sem flestum opið, þar sem ekki er gengið á náttúruna sem nefndin telur að verði ekki við opnun umferðar um vel skilgreinda og merkta leið.

5. Hestaumferð: Hestaferðir í gegnum Vonarskarð eru í dag háðar leyfi þjóðgarðsvarðar á vestursvæði. Er ástæða til að breyta því skipulagi? Ætti að merkja reiðleið gegnum skarðið og þá hvar?

Svar umhverfisnefndar: Nefndin gerir ekki athugasemdir við núverandi fyrirkomulag vegna hestaferða.

 

Samþykkt

 

   

Fundi slitið kl. 16:30.

Fyrirvari:
Athugið að afgreiðslur nefnda þarfnast almennt staðfestingar sveitarstjórnar, nema í þeim tilfellum þar sem nefnd hefur verið veitt heimild til fullnaðarafgreiðslu mála í samþykktum sveitarfélagsins.