Þingeyjarsveit er landfræðilega stórt sveitarfélag og innan þess er fjöldinn allur af fallegum áningarstöðum. Meðal annars má nefna Goðafoss, Þeistareyki, Aldeyjarfoss, Flatey og Vaglaskóg.
Goðafoss
Goðafoss er í Skjálfandafljóti skammt frá bænum Fosshóli í mynni Bárðardals. Goðafoss er einn þekktasti foss landsins og kemur þar til fegurð hans, aðgengi og söguleg tenging. Fossinn er fjölsóttasti ferðamannastaður í Þingeyjarsveit.
Aldeyjarfoss
Aldeyjarfoss er talinn með fegurstu fossum á Íslandi. Fagrar stuðlabergsmyndanir ramma inn fossinn og þar er líka að finna marga skessukatla. Vegur liggur alla leið að fossinum vestan Skjálfandafljóts.
Flatey
Flatey á Skjálfanda er u.þ.b. 2,5 km löng þar sem hún er lengst og um 2 km á breidd þar sem hún er breiðust. Eyjan stendur á mjög virku jarðskjálftabelti. Ljóst er af heimildum að byggð hefur verið samfelld í Flatey allt frá 12. öld til ársins 1967 þegar allir íbúar í eynni, um 50 manns, fluttust brott. Flestir urðu íbúarnir árið 1943, en þá voru um 120 manns í Flatey. Alla tíð voru fiskveiðar aðal bjargræðisvegur eyjamanna, þó landbúnaður, og síðar fleiri atvinnuvegir, væru stundaðir jafnhliða.
Þrátt fyrir að Flatey hafi nú verið í eyði um margra áratugaskeið eru margir sem sækja þangað á sumrin til dvalar og sumir nýta hlunnindi og sækja sjóinn. Theódór Friðriksson (1876-1948), rithöfundur, fæddist í Flatey. Hann skrifaði margar bækur, m.a. ævisögu sína “Í verum I-II”, en hún er áhugaverð fyrir þá sem vilja kynna sér lífskilyrði á þessum slóðum um og upp úr aldamótum 1900.
Vaglaskógur
Vaglaskógur er annar stærsti skógur á landinu og einnig með stórvöxnustu skógum landsins, en þar ná birkitré yfir 13 m. Þar er miðstöð Skógræktar ríkisins á Norðurlandi eystra og stór uppeldisstöð fyrir trjáplöntur. Vaglaskógur er einn af fáum íslenskum skógum þar sem skógarhögg er stundað og eru afurðir þess einkum notaðar í reykinga-og arinvið.
Vaglaskógur er einnig vinsæll áningastaður ferðafólks enda afbragðs útivistarsvæði fyrir alla fjölskylduna.
Yfir sumartímann er rekin verslun í Vaglaskóg þar sem hægt er að kaupa helstu nauðsynjar. Verslunin er staðsett í Vaglaskóg.