Um sveitarfélagið

Sveitarfélagið Þingeyjarsveit varð til við sameiningu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar árið 2022. Það er landmesta sveitarfélag landsins, um 12% af flatarmáli Ísland og íbúar þess eru rúmlega 1.400 talsins.

Þingeyjarsveit státar af einstakri náttúrufegurð og miklum auðlindum. Margar af helstu perlum Íslands eru innan hennar, má nefna Mývatn, Goðafoss, Aldeyjarfoss og Öskju. Þingeyjarsveit er heilsueflandi sveitarfélag og sannkölluð útivistarparadís. Fjöllin og víðernið bjóða uppá fjölda afþreyingarmöguleika og leikvöllur útivistargarpans virðist engin takmörk sett. Mikil áhersla er lögð á umhverfismál og sjálfbæra nýtingu auðlinda.

Atvinnulífið er öflugt og fjölbreytt, stærstu atvinnugreinarnar eru ferðaþjónusta og landbúnaður, einnig má nefna matvælaframleiðslu, fræðslu, fiskvinnslu og skógrækt. Sveitarfélagið er ríkt af auðlindum og eru þrjár stórar jarðvarmavirkjanir innan þess, Kröflustöð, Þeistareykjastöð og Gufustöðin í Bjarnarflagi. Öll heimili í Þingeyjarsveit eru ljósleiðaratengd og sveitarfélagið leggur sig fram um að bjóða öllum sem eftir því óska upp á skrifstofurými og er því tilvalinn staður fyrir þá sem vilja starfa án staðsetningar.

Þrír grunnskólar eru í sveitarfélaginu; Stórutjarnaskóli, Þingeyjarskóli og Reykjahlíðarskóli. Við grunnskólana eru tónlistar- og leikskóladeildir. Einnig er einn framhaldsskóli; Framhaldsskólinn á Laugum. Leiklistarstarf og söngur er í miklum blóma, t.d. á Breiðumýri og í Söngfélaginu Sálubót og Karlakórnum Hreim. Íþróttalíf er kröftugt hjá ungmennafélögum á svæðinu. Mjög góð aðstaða er til íþróttaiðkunar í Reykjahlíð og á Laugum þar sem er glæsileg sundlaug. Golfvellir eru á Laugum, í Reykjahlíð og í Fnjóskadal.