Um sveitarfélagið

Sveitarfélagið Þingeyjarsveit

Þingeyjarsveit lituð bláu

Sveitarfélagið Þingeyjarsveit varð til við sameiningu Bárðdælahrepps, Hálshrepps, Ljósavatnshrepps og Reykdælahrepps árið 2002.  Síðan stækkaði sameiningin 2008 þegar Aðaldælahreppur og Þingeyjarsveit sameinuðust.  Sveitarfélagið hélt nafninu Þingeyjarsveit.

Áður hafa orðið sameiningar og skiptingar á sveitarfélögum á þessu svæði.  Helgastaðahreppur var til fram undir aldamótin 1900 en skiptist þá í Aðaldælahrepp og Reykdælahrepp.  Ljósavatnshreppur náði yfir allan Bárðardal en hreppnum var skipt árið 1907 í Bárðdælahrepp og Ljósavatnshrepp. Hálshreppur náði allt til og með Flateyjar en 1907 var hreppnum skipt í Hálshrepp og Flateyjarhrepp og voru hreppamörkin við Eyvindará á Flateyjardal.  Árið 1967 fluttu síðustu ábúendur í Flatey í land en rúmum áratug fyrr voru býlin á Flateyjardalnum farin í eyði eða 1953.  Árið 1972 var Flateyjarhreppur aftur sameinaður Hálshreppi.  Þingeyjarsveit er landfræðilega stórt sveitarfélag, allt frá Flatey suður undir Vatnajökul.  Byggðin hefur dregist saman en auk þess sem byggð var í Flatey og Flateyjardalsheiði þá voru býli á Flateyjardalsheiði og í Náttfaravíkum.  Einnig voru býli á Fljótsheiði og suður af Reykjadal, langt suður af Bárardal og í dölunum fram af Fnjóskadal, Hjaltadal, Timburvalladal og Bleiksmýrardal.  En byggðin hefur líka orðið þéttari á nokkrum stöðum og nýbýli verið byggð út úr stærri jörðum.  Mesta þéttbýlið er á Laugum, þá eru þéttbýliskjarnar við Stórutjarnaskóla, Hafralækjarskóla og Laxárvirkjun.

Í sveitarfélaginu er gróskumikið mannlíf enda atvinnuvegir fjölþættir, s.s. landbúnaður, fræðsla, fiskvinnsla, skógrækt, ferðaþjónusta, matvælaframleiðsla og margt fleira.  Tveir grunnskólar eru í sveitarfélaginu; Stórutjarnaskóli  og Þingeyjarskóli. Við grunnskólanna eru tónlistar- og leikskóladeildir. Einnig er einn framhaldsskóli; Framhaldsskólinn á Laugum. Leiklistarstarf og söngur eru í miklum blóma, t.d. á Breiðumýri og í Söngfélaginu Sálubót og Karlakórnum Hreim.  Íþróttalíf er kröftugt hjá ungmennafélögum á svæðinu; Bjarma, Einingunni, Eflingu, Geisla og Gamni og alvöru. Mjög góð aðstaða til íþróttaiðkana er sérstaklega á Laugum en þar er nýleg og glæsileg sundlaug. Þá er áhugamannagolfvöllur á Laugum sem Efling sér um. 

Sveitarfélagið byggir á gömlum merg en um það leika ferskir vindar framfara og sóknar enda býr sveitarfélagið að mikilli auðlegð í mannauði og  sóknarfærum á sviði ferðamála og matvælaframleiðslu. Einnig býr sveitarfélagið að miklum náttúruauðlindum, t.d. á Þeistareykjum þar sem verið er að byggja Þeistareykjavirkjun. Dýrmætar náttúruperlur eru í sveitarfélaginu eins og Goðafoss og er hann fjölsóttasti ferðamannastaður Þingeyjarsveitar. Þá er Vaglaskógur, Aldeyjarfoss, Þingey og Skjálfandafljótið sem fossar gegnum sveitarfélagið og endurómar sterkum rómi þann mikla kraft sem virkja má í fólki, fossum, fjöllum og fögrum dölum Þingeyjarsveitar.

Áður en til sameiningar kom 2002 voru almennt 5 manna sveitarstjórnir í sveitarfélögunum og oddviti sveitarstjórnar fór með framkvæmdastjórn.  Í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar sitja nú 7 manns og 7 til vara.  Margar nefndir eru á vegum sveitarfélagins, auk sameiginlegra nefnda vegna samvinnu við nágrannasveitarfélögin.  Skrifstofa sveitarfélagsins er í Kjarna á Laugum í Reykjadal þar starfa auk sveitarstjóra 7 manns í heilu og/eða hlutastarfi. Sveitarstjórnarfundir eru haldnir í Kjarna á fimmtudögum kl. 13:00 á tveggja vikna fresti.