Umsókn um leyfi til hundahalds: smelltu hér (blaðið má síðan prenta út til útfyllingar)
SAMÞYKKT
um hundahald í Þingeyjarsveit
1. gr.
Alla hunda í Þingeyjarsveit er skylt að skrá. Einstaklingum búsettum í sveitarfélaginu, öðrum en ábúendum lögbýla, er óheimilt að halda hunda nema með sérstöku leyfi sveitarstjórnar og að uppfylltum þeim skilyrðum sem tilgreind eru í samþykkt þessari. Eigendur þarfahunda eru undanþegnir gjaldtöku, nema vegna hundahreinsunar, en að öðru leyti skulu þeir hlíta ákvæðum samþykktar þessarar eftir því sem við á. Þarfahundar eru t.d. smalahundar á lögbýlum, veiðihundar fyrir mink og ref, hundar haldnir vegna fötlunar eiganda og björgunarhundar.
2. gr.
Leyfi til hundahalds er bundið nafni og heimili lögráða einstaklinga og er leyfið ekki framseljanlegt. Skráning fer fram á skrifstofu Þingeyjarsveitar og skulu allir hundar skráðir þannig að eftirfarandi upplýsingar um hvern hund komi fram:
a. Nafn
b. Tegund
c. Kyn
d. Aldur
e. Litur
f. Önnur útlitseinkenni
Eiganda hundsins er við skráninguna afhent merkt plata sem hundurinn skal ávallt bera í ól um háls sér. Ekki er þó skylt að skrá hunda fyrr en þeir hafa náð þriggja mánaða aldri. Sé sótt um leyfi vegna hunds í fjölbýlishúsi - sem er hvert hús þar sem eru fleiri en ein íbúð - skal skriflegt samþykki annarra húsráðenda fylgja umsókn. Húsráðendur geta skriflega afturkallað samþykki sitt ef málefnalegar ástæður liggja þar til grundvallar að mati sveitarstjórnar. Við afturköllun samþykkis fær hundeigandi hæfilegan frest til að finna hundinum annan samastað, þó aldrei lengri en tvo mánuði frá dagsetningu afturköllunarinnar. Hundeiganda er skylt að hafa hund sinn ábyrgðartryggðan hjá viðurkenndu tryggingafélagi.
3. gr.
Leyfishafar skulu fylgja eftirfarandi reglum:
a. Hundurinn skal ekki ganga laus á almannafæri.
b. Hundaeigandi skal gæta þess vel að hundur hans valdi ekki hættu, óþægindum eða óþrifnaði eða raski ró manna. Eiganda er skylt að fjarlægja saur eftir hundinn.
c. Óheimilt er að fara með hund inn í verslanir, þjónustustofnanir, sjúkrahús, skólahúsnæði, dagvistanir og dvalarheimili, hvers konar, félagsheimili, kvikmyndahús, sundlaugar og önnur íþróttahús,hótel og gististaði.
d. Bannað er að fara með hund inn á skipulögð leiksvæði barna.
e. Leyfishafar skulu árlega færa hunda sína til skoðunar og hreinsunar hjá dýralækni.
f. Leyfishafar skulu framvísa ef þess er krafist af sveitarstjóra, kvittun fyrir ábyrgðartryggingu. Einnig vottorð um hreinsun og skoðun, hafi það ekki verið gert af dýralækni á fyrirfram auglýstum hundahreinsunardögum á vegum sveitarfélagsins.
4. gr.
Árlega skal sveitarsjóði greitt gjald fyrir þá hunda sem leyfi er veitt fyrir, samkvæmt gjaldskrá sem birt skal í B-deild Stjórnartíðinda. Gjald þetta miðast við kostnað við framkvæmd þessarar samþykktar.
5. gr.
Við brot á samþykkt þessari skal veita umráðamanni hunds viðvörun og gera honum ljóst að endurtekin brot varða sviptingu leyfis. Við þriðja brot er leyfið fellt úr gildi. Leita má aðstoðar lögreglu þegar þörf krefur vegna brota á samþykkt þessari. Hunda sem ganga lausir má handsama og færa í geymslu. Sama gildir um hættulega hunda og óskráða. Tilkynna skal eigendum um töku (merktra) hunda svo fljótt sem unnt er. Teljist hundur hættulegur að mati dýralæknis og eða eftirlitsmanns er heimilt að lóga hundinum þegar í stað. Aðra hunda má afhenda gegn áföllnum kostnaði, sé leyfi framvísað innan 7 daga frá því að hundur var tekinn í vörslu. Heimilt er að lóga hundinum að þeim fresti liðnum enda hafi eiganda gert það ljóst við tilkynningu um töku hundsins. Sama gildir um hunda sem teknir hafa verið og eigandi er óþekktur eða til hans næst ekki. Að öðru leyti fer um brot á samþykkt þessari samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
6. gr.
Samþykkt þessi sem samin er af sveitarstjórn Þingeyjarsveitar og samþykkt af Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra staðfestist hér með skv. 25 gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og öðlast þegar gildi.
Umhverfisráðuneytinu, 18. mars, 2004
F.h.r. Ingimar Sigurðsson