286. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn

24.09.2020

286. fundur

haldinn í Seiglu fimmtudaginn 24. september kl. 13:00

Fundarmenn

Arnór Benónýsson, Margrét Bjarnadóttir (í fjarfundi), Árni Pétur Hilmarsson, Ásvaldur Ævar Þormóðsson, Sigurbjörn Árni Arngrímsson, Sigríður Hlynur Helguson Snæbjörnsson og Freydís Anna Ingvarsdóttir.

 

Starfsmenn

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði: Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.

Dagskrá:

 

1.

Sóknaráætlun SSNE 2020-2024 - 2009027

 

Í maí 2019 samþykkti stjórn Eyþings að fara í samstarf við Capacent um gerð nýrrar sóknaráætlunar Norðurlands eystra 2020-2024. Sóknaráætlun er stefnuskjal sem felur í sér stöðumat landshlutans, framtíðarsýn og markmið í tilgreindum málaflokkum ásamt skilgreindum leiðum að markmiðunum. Rebekka Kristín Garðarsdóttir og Ari Páll Pálsson, verkefnastjórar hjá SSNE kynntu sóknaráætlunina fyrir sveitarstjórn í gegnum fjarfundarbúnað á fundinum undir þessum lið.

 

Sveitarstjórn þakkar fyrir kynninguna.

     

2.

Rekstraryfirlit fyrstu átta mánuði ársins 2020 - 1804046

 

Lagt fram rekstraryfirlit sveitarfélagsins fyrstu átta mánuði ársins 2020. Skrifstofustjóri mætti til fundarins undir þessum lið og gerði grein fyrir stöðunni ásamt sveitarstjóra.

Á heildina litið eru tekjur um 7,5% stigum lægri en áætlun gerði ráð fyrir fyrstu átta mánuðina þar af eru útsvarstekjur 8,5% stigum undir og Jöfnunarsjóðurinn 4,5% stigum undir.
Einnig eru heildargjöld lægri eða tæpum 3% stigum undir áætlun. Samkvæmt áætlun var gert ráð fyrir um 12 m.kr. hallarekstri á aðalsjóði sem nú er kominn í um 65 m.kr. halla fyrstu átta mánuði ársins.
Fræðslumálin, sem er stærsti málaflokkurinn er nálægt áætlun, en enn er ósamið við kennara og því má gera ráð fyrir að launaliðurinn fari framúr. Eitt stærsta frávikið frá áætlun er kostnaður vegna snjómoksturs sem er kominn 13,2 m.kr. fram úr ársáætlun og er vegna kostnaðar fyrri hluta ársins.

Sviðsmyndir og næmnigreining á rekstri sveitarfélagsins voru lagðar fram á sveitarstjórnarfundi þann 30. apríl s.l. og samkvæmt því nálgumst við sviðsmynd 3.

     

3.

Endurskoðun Aðalskipulags Þingeyjarsveitar 2010-2022 - 1903011

 

Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 27.08.2020 skipulags- og matslýsingu vegna endurskoðunar Aðalskipulags Þingeyjarsveitar 2010-2022. Skipulagslýsingin fer í kynningu á allra næstu dögum.

 

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra og skipulagsfulltrúa að kanna áframhaldandi samstarf við Alta ehf. um endurskoðun aðalskipulagsins.

     

4.

Hótel Rauðaskriða- Umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi - 2009010

 

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra dags. 8.09.2020 þar sem Harald R. Jóhannesson sækir um rekstrarleyfi, flokkur IV - Gististaður með áfengisveitingum, í Rauðuskriðu 1 í Þingeyjarsveit.

 

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við veitt rekstrarleyfi með fyrirvara um að jákvæðar umsagnir berist frá byggingarfulltrúa og heilbrigðis og eldvarnareftirlitinu, sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 67/2016, um breytingu á lögum nr. 85/2007.

     

5.

Skipulags- og umhverfisnefnd: Fundargerðir - 1804018

 

Lögð fram fundargerð 129. fundar Skipulags- og umhverfisnefndar frá 17.09.2020. Ásvaldur gerðir grein fyrir fundargerðinni sem er í sjö liðum.

 

1. liður fundargerðar; Kross lóð, nafnabreyting.
Sveitarstjórn samþykkir nafnabreytinguna og felur byggingarfulltrúa að annast málsmeðferð vegna hennar eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.

2. liður fundargerðar; Kvíaból land, nafnabreyting.
Sveitarstjórn samþykkir nafnabreytinguna og felur byggingarfulltrúa að annast málsmeðferð vegna hennar eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.

3. liður fundargerðar; Veglína við Ljósavatn, hjáleið í neyðartilvikum.
Sveitarstjórn skorar á Vegagerðina að tryggja hjáleið fyrir neyðarakstur þegar þjóðvegur 1 við Ljósavatn lokast vegna snjóflóðahættu. Síðastliðinn vetur kom ítrekað upp sú staða að þjóðvegur 1 lokaðist vegna snjóflóðahættu án möguleika á hjáleið. Það er óviðunandi út frá öryggi íbúa þar sem m.a. heilbrigðisþjónusta er að miklu leyti orðin á Akureyri.

4. liður fundargerðar; Arnstapi, breyting á deiliskipulagi.
Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi breytingartillögu á deiliskipulagi Arnstapa með áorðnum breytingum í samræmi við svör nefndarinnar við innsendum athugasemdum og felur skipulagsfulltrúa að sjá um málsmeðferð vegna gildistöku tillögunnar í samræmi við lög og reglugerðir.

5. liður fundargerðar; Eyjardalsvirkjun, lóð, landskipti.
Sveitarstjórn samþykkir landskiptin í samræmi við fyrirliggjandi gögn og felur byggingarfulltrúa að annast málsmeðferð eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina að öðru leyti.

     

6.

Brunavarnarnefnd: Fundargerðir - 1809018

 

Lögð fram fundargerð 31. fundar Brunavarnarnefndar Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar frá 08.09.2020. Arnór gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í fjórum liðum.

 

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina.

     

7.

Fyrirspurn varðandi Sprengisandsveg - 2009029

 

Fyrir fundinum liggur erindi, ódagsett frá Unnari Elíassyni, Sigurði Gunnarssyni og Einari Má Sigurðssyni, áhugamönnum um Sprengisandsveg norðan Vatnajökuls.

 

Sveitarstjórn þakkar erindið en sér ekki ástæðu til þess að funda frekar um málið.

     

8.

Samrunaáætlun AÞ ses. - 2009030

 

Lagt fram bréf frá stjórn Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga ses. (AÞ ses.), dags. 14.09.2020 þar sem lögð er fram hugmynd stjórnar um framtíðarfyrirkomulag AÞ ses. sem er eftirfarandi:

„Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga ses verði aftur breytt í hlutafélag, það félag verði svo sameinað Fjárfestingafélagi Norðurþings, Atvinnueflingu Þingeyjarsveitar, Seljalax ehf og ef til vill fleiri hlutafélögum í eigu sveitarfélaganna. Þannig renni hin síðarnefndu inní efnahag AÞ og mun eignarhald á því breytast sem því nemur skv. endanlegri samrunaáætlun. Þeir í eigendahópi AÞ sem ekki vilja leggja inn sín félög eða taka þátt í þessu félagi af öðrum ástæðum býðst að vera keyptir út úr því.“

Bréfið er sent til allra stofnfjáreigenda í AÞ ses. og þess er farið á leit að hugmyndin verði rædd og skoðun eigenda verði komið til stjórnar eigi síðar en 16.10.2020.

 

Sveitarstjórn hafnar því að taka þátt í fyrirhuguðu hlutafélagi og mun ekki leggja sín félög inn í það og ef til þess kemur mun Þingeyjarsveit óska eftir því að verða keypt út úr félaginu.

     

9.

Fjallskil og girðingar - 1810002

 

Umræða tekin um fjallskil og girðingar í sveitarfélaginu.

 

Ljóst er að viðhald girðinga í sveitarfélaginu er ábótavant og sveitarstjórn beinir þeim tilmælum til landeigenda að sinna viðhaldi girðinga sinna betur. Einnig virðist fyrirkomulag fjallskila hafa skapað ágreining víða í sveitarfélaginu og sveitarstjórn felur því Atvinnumálanefnd að taka þessa málaflokka til athugunar og úrvinnslu.

     

10.

Skýrsla sveitarstjóra - 1903026

 

Sveitarstjóri fór yfir helstu verkefni úr starfi sveitarfélagsins síðustu vikur.

 

Það sem sveitarstjóri fór yfir var m.a.

Fundur með SSNE og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
SSNE stóð fyrir fundi með fulltrúum sveitarfélaganna og Jöfnunarsjóðs þar sem farið var yfir stöðu sjóðsins en tekjur hans lækka um tæpa 3,8 milljarða kr. á þessu ári. Það mun hafa veruleg áhrif á sveitarfélögin og þar á meðal Þingeyjarsveit.

Vettvangsferð með Landsneti á Þeistareyki.
Framkvæmdir vegna Kröflulínu 4 og Þeistareykjalínu 1 hófust um mitt ár 2016 og lauk að stærstum hluta haustið 2017. Seinnipart sumars 2018 var unnið að frágangi við línurnar. Nú þegar tvö ár eru liðin frá framkvæmdum bauð Landsnet helstu umsagnaraðilum og leyfisveitendum í vettvangsferð til að sjá hvernig til hefur tekist með frágang og mótvægisaðgerðir. Guðjón skipulagsfulltrúi fór fyrir hönd Þingeyjarsveitar og frágangur hefur tekist að öllu jöfnu vel.

Félagsstarf eldri borgara.
Ákveðið hefur verið að hefja félagsstarf eldri borgara aftur eftir langt hlé. Opið hús hefst þriðjudaginn 29. september og verður starfsemin einungis haldin í Félagsheimilinu Breiðamýri en ekki í grunskólunum eins og verið hefur þar sem aðgangur utanaðkomandi er takmarkaður þar vegna COVID-19. Ólína, Svana og Aníta munu sjá um félagsstarfið og boðið verður uppá veglegt kaffi í stað hádegisverðar. Reiknað er með að hafa þetta fyrirkomulag fram til áramóta en staðan verður þó metin hverju sinni. 

Nýr skipulagsfulltrúi.
Atli Steinn Sveinbjörnsson hóf störf sem skipulagsfulltrúi hjá Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi s.l. mánudag og tekur við af Guðjóni Vésteinssyni sem nú lætur af störfum. Atli Steinn er boðinn velkominn til starfa um leið og Guðjóni eru þökkuð vel unnin störf.

Framkvæmdir í Hitaveitu Reykdæla.
Framkvæmdir hafa staðið yfir í Hitaveitu Reykdæla síðustu vikur. Um er að ræða endurnýjun á heitavatnslögn á um eins km. löngum kafla, frá Kárhóli suður fyrir Daðastaði og þar með er búið að endurnýja alla stofnlögnina frá Laugahverfinu í Narfastaði.

Viðbragðsteymi vegna COVID-19
Viðbragðsteymi Þingeyjarsveitar hefur fundar reglulega og farið yfir stöðuna nú síðast var farið yfir leiðbeiningar fyrir smitrakningu ef upp kemur smit í starfsemi sveitarfélagsins. Myndað hefur verið svokallað stuðningsteymi sem aðstoðar skólastjórnendur grunnskólanna við vinnuna ef upp kemur smit.

Stöðufundir með AST á Norðurlandi
Stöðufundir er enn haldnir með AST á Norðurlandi vegna COVID-19 og jarðskjálfta.
Dregið hefur úr jarðskjálftahrinu úti fyrir Flatey eftir skjálftann 15. september s.l. sem var 4,6 stig. Vel er fylgst með svæðinu og sú sviðsmynd sem er talin líklegust er að nú muni draga enn frekar úr skjálftavirkni og að endingu fjara út en meðan ákveðin virkni er í gangi þá er alltaf möguleiki á stórum skjálftum og þess vegna er óvissustig almannavarna enn í gangi líkt og verið hefur frá því að skjálftahrinan hófst í júní s.l.
Þriðja bylgjan COVID-19 hefur ekki náð inn á okkar svæði enn sem komið er en nú eru 33 í sóttkví og 3 í einangrun. Tveir af þessum þremur tengjast ekki þessari nýju bylgju faraldursins. Sýnataka er í fullum gangi á Akureyri og hafa verkferlar verið bættir, niðurstaða úr sýnatöku tekur nú dagpart en áður voru það allt að þrír sólahringar. Einnig er töluvert mótefnamælingar.

     

11.

Samstarfsnefnd um sameiningarferli - Fundargerðir - 1906023

 

Fundargerð 12. fundar samstarfsnefndar Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar um sameiningarferli.

 

Lögð fram til kynningar.

     

12.

Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) - Fundargerðir - 2002017

 

Fundargerð 12. og 13. fundar stjórnar SSNE.

 

Lagðar fram til kynningar.

     

13.

Mývatnsstofa; Fundargerðir - 2009031

 

Fundargerð 16. fundar Mývatnsstofu ásamt minnisblaði um markaðsátak Mývatnsstofu sumarið 2020

 

Lögð fram til kynningar.

     

 

Fundi slitið kl. 16:30.