264. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn

26.09.2019

264. fundur

haldinn í Kjarna fimmtudaginn 26. september kl. 13:00

Fundarmenn

Arnór Benónýsson, Margrét Bjarnadóttir, Árni Pétur Hilmarsson, Freydís Anna Ingvarsdóttir, Sigríður Hlynur Helguson Snæbjörnsson, Sigurbjörn Árni Arngrímsson og Ásvaldur Ævar Þormóðsson.

Starfsmenn

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri

Fundargerð ritaði: Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri

Dagskrá:

1. Rekstraryfirlit: Fyrstu átta mánuði ársins 2019 - 1804046

Lagt fram rekstraryfirlit sveitarfélagsins fyrstu átta mánuði ársins, samanborið við fjárhagsáætlun 2019. Sveitarstjóri og skrifstofustjóri, sem mætti á fundinn undir þessum lið, gerðu grein fyrir stöðunni og helstu frávikum. Rekstur er heilt yfir nálægt áætlun. Vinna við fjárhagsáætlun 2020 er hafin.                        

2. Brunavarnarnefnd: Fundargerðir - 1809018

Lögð fram fundargerð 28. fundar Brunavarnarnefndar frá 19.09.2019. Arnór gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í sex liðum.

2.liður fundargerðar; Samstarfssamningar við slökkvilið Akureyrar og Norðurþings.

Sveitarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti fyrirliggjandi samstarfssamninga og felur slökkviliðsstjóra að skrifa undir fyrir hönd Brunavarna Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar þegar samþykki sveitarstjórnar Skútustaðahrepps liggur fyrir.

Fundargerðir staðfest að öðru leyti.                     

3. Skipulags- og umhverfisnefnd: Fundargerðir - 1804018

Lögð fram fundargerð 117. fundar Skipulags- og umhverfisnefndar frá 19.09.2019. Ásvaldur gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í átta liðum.

5. liður fundargerðar; Stekkjarbrot, landskipti og stofnun lóðar - 1909019.

Sveitarstjórn samþykkir stofnun lóðarinnar þegar staðfesting á landamerkjum liggja fyrir og felur byggingarfulltrúa að annast málsmeðferð vegna hennar eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.

Fundargerðir staðfest að öðru leyti.         

4. Ungmennaráð Þingeyjarsveitar - 1806011

Samkvæmt erindisbréfi ungmennaráðs Þingeyjarsveitar eiga fimm fulltrúar sæti í ungmennaráði. Kjörgengir eru þeir sem eiga lögheimili í Þingeyjarsveit og eru á aldrinum 14-17 ára. Skipunartími ráðsins er eitt ár í senn en fulltrúar eru tilnefndir af grunnskólum sveitarfélagsins og Framhaldsskólanum á Laugum.

Frestað til næsta fundar.             

5. Iceland Kaolin ehf: Viljayfirlýsing - 1909038

Tekið fyrir erindi frá Sigurði Guðmundssyni, h.f. Iceland Kaolin ehf. dags. 12.09.2019 þar sem óskað er eftir samstarfi við að skoða möguleika á atvinnurekstri sem byggir á annars vegar nýtingu á jarðhita og kaolinleirs á Þeistareykjum og hins vegar á þekkingu Iceland Kaolin ehf. á hreinsun hráefnisins og vinnslu þess yfir í endanlega vöru. Markmið verkefnisins er að efla atvinnuþróun í Þingeyjarsveit. Í þeirri uppbyggingu mun verkefnið njóta aðstoðar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Háskóla Íslands.

Fyrir liggja drög að viljayfirlýsingu um samstarf milli Iceland Kaolin ehf. og Þingeyjarsveitar til þess að fullþróa framleiðsluferlana og gera meiri rannsóknir á leirsvæðinu, umfangi þess og eiginleikum leirsins. Þingeyjarsveit heimilar töku á allt að 3 rúmmetrum af leir til rannsóknar.

Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi viljayfirlýsingu og felur sveitarstjóra að skrifa undir hana fyrir hönd Þingeyjarsveitar.             

6. Tillaga að nýjum reglum um fjárhagslegan stuðning Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga - 1909036

Lögð fram sameiginleg umsögn sveitarfélagsins Þingeyjarsveitar og sveitarfélagsins Skútustaðahrepps um tillögu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að nýjum reglum um fjárhagslegan stuðning Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga, sem er til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda:

Sveitarstjórnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar leggja ríka áherslu á að þeim sveitarfélögum sem takast á við sameiningu sé tryggður nægjanlegur fjárhagslegur stuðningur til að takast á við þau umfangsmiklu og kostnaðarsömu verkefni sem slíku ferli fylgir. Í því felst að fá stuðning við undirbúning og innleiðingu breytinganna, framlög til uppbyggingar stjórnsýslu, þróunar þjónustu og samfélags og til jöfnunar á aðstöðumun sveitarfélaga.

Markmið reglnanna er að styrkja sveitarstjórnarstigið með því að stuðla að sameiningum sveitarfélaga og búa til sterkari skipulagsheildir. Tillögurnar byggja á þingsályktun um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033. Þar er m.a. það markmið að sveitarfélög hafi ávallt nægilegan styrk til að takast á við áskoranir framtíðarinnar, svo sem aukna sérhæfingu, breytta aldurssamsetningu, búferlaflutninga, tæknibreytingar, þróun á sviði umhverfis- og loftslagsmála, lýðheilsumál o.fl. Mikilvægt er að gæta samræmis á milli markmiða í þingsályktunartillögu ráðherra og úthlutun framlaga. Í ljósi þess leggja sveitarstjórnirnar til að heimilt verði að sækja um framlög til sérstakra þróunar-og nýsköpunarverkefna sem eru í samræmi við markmið stefnumótandi áætlunar í málefnum sveitarfélaga.

Verði sameining Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar samþykkt í atkvæðagreiðslu verður til landstærsta sveitarfélag Íslands, sem nær yfir um 12% landsins. Landmikil sveitarfélög takast oft og tíðum á við flókin viðfangsefni, sér í lagi þegar kemur að skipulags- og umhverfismálum. Þau verkefni eru tíma-og kostnaðarfrek og kalla á mikla staðbundna þekkingu í bland við sérfræðiþekkingu á sviði skipulags- og umhverfismála. Að mati sveitarstjórnanna er ekki nægilega mikið tillit tekið til slíkra aðstæðna í tillögunni, en viðbúið er fleiri sveitarfélög verði mjög landstór. Því er lagt til að til viðbótar við byggðaframlag sem tekur mið af íbúaþróun verði sérstakt framlag til landstórra sveitarfélaga.

Í tillögunni er vikið að nýrri aðferð við útreikning svokallaðra skuldajöfnunarframlaga. Í breytingunni felst að miðað verði við skuldir A-hluta sveitarsjóðs við útreikning skuldajöfnunarframlaga. Að mati sveitarstjórna Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar er eðlilegt að miða við samstæðureikning sveitarfélagsins, þ.e. bæði A og B hluta. Skuldir og skuldbindingar fyrirtækja í B-hluta eru háðar samþykki sveitarstjórna og með ábyrgð sveitarsjóða. Í mörgum tilvikum eru skuldir B-hlutafyrirtækja með veð í skatttekjum sveitarsjóða. Í ljósi þess er óeðlilegt að undanskilja skuldir og skuldbindingar B-hluta fyrirtækja við mat á skuldastöðu.

Lagt er til að við ákvörðun skuldajöfnunarframlaga verði sömu aðferðum beitt og við útreikning á skuldahlutfalli skv. 2. tölul. 2. mgr. 64. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, líkt og gert er í reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Þá leggja sveitarstjórnirnar til að heimilt verði að taka tillit til nauðsynlegs viðhalds og framkvæmda sem sveitarfélög hafa frestað til að standast ákvæði laga um rekstrarjafnvægi og skuldahlutfall. Sé það ekki gert taka framlögin ekki mið að heildarskuldsetningu þeirra sveitarfélaga sem vinna að sameiningu og aðstöðumunur því ekki jafnaður.

Sveitarstjórnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar eru stoltar af því að hafa gætt aðhalds í rekstri og fjárfestingum og haldið skuldum þannig í lágmarki. Sá árangur hefur þann ókost að viðhaldi og framkvæmdum er haldið í lágmarki og ljóst er að í báðum sveitarfélögum er uppsöfnuð viðhalds -og fjárfestingaþörf sem sveitarfélögunum þykir eðlilegt að verði mætt.

Í tillögu að reglum um fjárhagslega aðstoð Jöfnunarsjóðs er kveðið á um að framlög skv. b-, e- og f- lið ákvæðisins skulu greidd á 7 árum. Vakin er athygli á að skv. e- lið, er lýtur að kostnaði við framkvæmd sameiningar og til að stuðla að endurskipulagningu þjónustu og stjórnsýslu, er gert ráð fyrir framlagi í allt að fimm ár frá sameiningu. Þá er kveðið á um það í d-lið að veitt sé framlag í fjögur ár, frá sameiningarári að telja, sem nemur þeirri skerðingu sem kann að verða á tekjujöfnunar- og útgjaldajöfnunarframlögum í kjölfar sameiningar, sbr. 4. gr. Lagt er til að greiðslutími allra framlaga verði samræmdur og miðað sé við fimm ár frá sameiningarári að telja.

7. Samband íslenskra sveitarfélaga: Tilnefning í samráðsnefnd um fiskeldi - 1909037

Tekin til umræðu tilnefningu stjórnar Sambands íslenskra sveitarféaga í samráðsnefnd um fiskeldi sem fram kom í fundargerð 873. fundar stjórnar frá 30.08.2019.

Þar sem ekki verður séð á ályktunum Landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga undanfarin ár að afstaða hafi verið tekin með laxeldi í sjókvíum við Ísland óskar sveitarstjórn eftir rökstuðningi stjórnar sambandsins fyrir því af hverju viðkomandi fulltrúar voru tilnefndir í samráðsnefnd um fiskeldi fyrir hönd sambandsins. Hagsmunir sveitarfélaga í þessu máli eru mismunandi og því mikilvægt að hlutleysis sé gætt.

Veiðar á villtum laxi er mikilvægur atvinnuvegur í Þingeyjarsveit og fleiri sveitarfélögum. Það er að mati sveitarstjórnar ekki hægt að sjá að í þeim áformum sem fyrir liggja um laxeldi í sjó við ísland muni villtir laxastofnar njóta vafans með nógu óyggjandi hætti.

Oddviti yfirgaf fundinn eftir afgreiðslu 7. Liðar og varaoddviti tók við fundarstjórn.

8. Landeigendur Hóla í Reykjadal: Erindi vegna lóðar - 1909012

Lagt fram erindi frá Sverri Haraldssyni, f.h. hönd landeigenda Hóla í Reykjadal, dags. 9.09.2019 þar sem talið er að lóð undir verslun og olíusölu hafi verið ranglega talin sameign sveitarfélagsins og Hóla. Vitnað er til landaskiptasamnings frá árinu 2002 en hann er skilgreindur sem breytingar og viðbætur við landaskiptasamning Hóla og Lauta frá júlí 1987.

Sveitarstjóra og oddvita falið að svara erindinu.          

9. Björgunarsveitin Þingey: Afmælisgjöf - 1909039

Björgunarsveitin Þingey hélt uppá 40 ára afmæli sveitarinnar s.l. sumar.

Sveitarstjórn samþykkir að gefa Björgunarsveitinni Þingey 100 þúsund kr. í tilefni afmælisins. Útgjöld rúmast innan gildandi fjárhagsáætlunar 2019.       

10. Skýrsla sveitarstjóra - 1903026

Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri fór yfir helstu verkefni úr starfi sveitarfélagsins síðustu vikur.

11. Samstarfsnefnd um sameiningarferli: Fundargerðir - 1906023

Fundargerð 3. fundar samstarfsnefndar um sameiningu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar.

Lögð fram til kynningar.      

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 15:48