256. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn

16.05.2019

256. fundur

haldinn í Kjarna fimmtudaginn 16. maí kl. 13:00

Fundarmenn

Margrét Bjarnadóttir, Árni Pétur Hilmarsson, Jóna Björg Hlöðversdóttir, Hlynur Snæbjörnsson, Hanna Jóna Stefánsdóttir, Einar Örn Kristjánsson og Friðrika Sigurgeirsdóttir.

Starfsmenn

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri

Fundargerð ritaði: Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri

Í upphafi fundar óskaði varaoddviti eftir því að bæta tveimur málum á dagskrá með afbrigðum, undir 8. lið; Hólsvirkjun: Breyting á deiliskipulagi - 1904030 og undir 9. lið; Snjómokstur: Erindi frá Hallgrími Óla Guðmundssyni - 1905027, aðrir liðir færast neðar á dagskrá sem því nemur.

Dagskrá:            

1. Umhverfisstefna Þingeyjarsveitar: Erindisbréf - 1806015

Lagt fram erindisbréf fyrir starfshóp sem ætlað er að vinna tillögu að umhverfisstefnu Þingeyjarsveitar.

Sveitarstjórn samþykkir erindisbréfið.                              

2. Vallarhús: Umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi - 1905015

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, dags. 14.05.2019 þar sem Dagbjört Jónsdóttir, forsvarsmaður Þingeyjarsveitar, sækir um rekstrarleyfi, flokkur II - Gististaður án veitinga fyrir Vallarhús á Laugum í Þingeyjarsveit.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við veitt rekstrarleyfi með fyrirvara um að jákvæðar umsagnir berist frá byggingarfulltrúa og heilbrigðis og eldvarnareftirlitinu, sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 67/2016, um breytingu á lögum nr. 85/2007.                       

3. Öldungaráð: Skipun fulltrúa í sameiginlegt öldungaráð - 1806016

Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, eins og þeim var breytt á s.l. ári, skal starfa formlegur samráðsvettvangur í hverju sveitarfélagi er nefnist öldungaráð. Þau sveitarfélög sem eru í samstarfi um öldrunarmál og þjónustu við aldraða, skulu koma sér saman um samsetningu öldungaráðs á þjónustusvæðinu. Þingeyjarsveit er í samstarfi um öldrunarmál með Norðurþingi, Skútustaðahreppi, Tjörneshreppi, Svalbarðshreppi og Langanesbyggð sem samþykkt hafa sameignlegt öldungaráð. Þingeyjarsveit mun eiga einn fulltrúa í ráðinu.

Sveitarstjórn samþykkir að skipa Ólínu Arnkelsdóttur sem fulltrúa Þingeyjarsveitar og Jón F. Sigurðsson til vara í sameiginlegt öldungaráð aðildarsveitarfélaganna.                              

4. Endurskoðun Aðalskipulags Þingeyjarsveitar 2010-2022 - 1903011

Fyrir fundinum liggur minnisblað sem Bjarni Reykjalín tók saman vegna endurskoðunar á aðalskipulagi, minnispunktar og hugleiðingar.

Sveitarstjórn samþykkir að fela sveitarstjóra, oddvita, formanni Skipulags- og umhverfisnefndar og fulltrúa Ð lista að vinna málið áfram í samræmi við umræður á fundinum.

Sveitarstjórn þakkar Bjarna Reykjalín fyrir góða samantekt.                          

5. Rarik: Götulýsing í Þingeyjarsveit - 1905013

Lagt fram bréf frá Helgu Jóhannsdóttur f.h. Rarik, dags. 10.04.2019 um viðræður við Þingeyjarsveit um yfirtöku á götulýsingarkerfi í Þingeyjarsveit.

Sveitarstjóra falið að afla frekari upplýsinga um málið.                          

6. Samband íslenskra sveitarfélaga: Umsögn um tillögu þingsályktunar um fjármálaáætlun 2020-2024, 750. mál - 1905014

Fyrir fundinum liggur bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 3.05.2019 um umsögn sambandsins til fjárlaganefndar Alþingis um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun 2020-2024, 750. mál. Sérstök athygli er vakin á skerðingu framlaga til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar tekur heilshugar undir umsögn sambands íslenskra sveitarfélaga um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun 2020-2024.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar leggst alfarið gegn þeirri hugmynd sem fram kemur í tillögunni um frystingu framlags til jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna til þriggja ára.

Sveitarfélögin hafa nú þegar gert sínar fjárhagsáætlanir til næstu þriggja ára og byggja þær á óbreyttum leikreglum í samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Ekki verður betur séð en þessi aðgerð bitni harðast á þeim byggðum sem veikastar standa og gangi þannig í berhögg við boðaða eflingu byggðar um allt land sem meðal annars hafa birst í þróttmeiri sóknaráætlunum landshlutanna.

Því hvetur sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til þess að þessar hugmyndir um frystingu framlaga til jöfnunarsjóðs verði dregnar til baka.

7. Leigufélag Hvamms ehf.: Ósk um áframhaldandi stuðning við félagið - 1805002

Viðvarandi taprekstur hefur verið hjá Leigufélaginu Hvammi á liðnum árum og miðað við fjárhagsáætlun félagsins fyrir árið 2019 verður áfram tap á rekstri þess. Samkvæmt fyrirliggjandi ársreikningi fyrir árið 2018 kemur fram í efnahagsreikningi félagins að eigið fé félagsins er neikvætt um 55,4 m.kr., sem að mestu er tilkomið vegna virðisrýrnunar á fasteignum félagsins á árinu 2014. Eiginfjárhlutfall félagsins er neikvætt um 27,5% auk þess sem veltufjárhlutfall félagsins í árslok er einungis 0,83. Félagið reiðir sig því á stuðning frá eigendum sínum til að tryggja áframhaldandi rekstrarhæfi félagsins a.m.k. út yfirstandandi rekstrarár (2019).

Þess er því óskað að eigendur félagsins lýsi því yfir skriflega að þeir muni styðja við félagið a.m.k. út yfirstandandi rekstrarár og þar með leggja grunn að forsendum reikningsskila félagsins sem miðast við áframhaldandi rekstur.

Stjórnendur félagsins munu á núverandi rekstrarári áfram leita leiða til þess að finna lausn á viðvarandi taprekstri félagsins.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að Þingeyjarsveit styðji við félagið út yfirstandandi rekstrarár 2019.                            

8. Hólsvirkjun: Breyting á deiliskipulagi - 1904030

Tekið fyrir að nýju erindi frá EFLU f.h. Arctic Hydro dags. 11.4.2019 þar sem sótt er um heimild til að breyta deiliskipulagi fyrir Hólsvirkjun. Erindið var tekið fyrir á fundi Skipulags- og umhverfisnefndar þann 17.4.2019 og niðurstaða nefndarinnar staðfest í sveitarstjórn 2.maí 2019.

Þann 2.maí bókaði sveitarstjórn eftirfarandi:

Sveitarstjórn samþykkir óverulega breytingu á deiliskipulagi Hólsvirkjunar skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og felur skipulagsfulltrúa að grenndarkynna fyrirhugaða breytingu fyrir nágrönnum og öðrum hagsmunaaðilum eins og 44. gr. fyrrnefndra laga mælir fyrir um.

Þann 8.maí voru breytingarnar grenndarkynntar fyrir Vegagerðinni, Veiðifélagi Fnjóskár og landeigendum nágrannajarða. Þann 15. maí bárust skipulagsfulltrúa undirrituð samþykki allra sem grenndarkynnt var fyrir og telst því grenndarkynningunni lokið.

Sveitarstjórn samþykkir tillögu að breyttu deiliskipulagi Hólsvirkjunar og felur skipulagsfulltrúa að annast gildistöku deiliskipulagstillögunnar eins og 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um.                            

9. Snjómokstur: Erindi frá Hallgrími Óla Guðmundssyni - 1905024

Tekið fyrir erindi frá Hallgrími Óla Guðmundssyni, dags. 08.05.2019 varðandi tækjabúnað í tengslum við snjómokstur og tillögur um aðkomu sveitarfélagsins um fjármögnun.

Sveitarstjórn þakkar erindið en sér ekki að hlutverk sveitarfélagsins sé að lána til tækjakaupa verktaka. Sveitarstjórn er þakklát fyrir góða þjónustu snjómokstursmanna í sveitarfélaginu. Snjómokstursmenn fá greitt eftir stærð og afkastagetu tækja en verða sjálfir að standa straum af kostnaði við endurnýjun búnaðar.                          

10. Héraðsnefnd Þingeyinga: Fundargerðir - 1804023

Fundargerð 14. fundar framkvæmdastjórnar HNÞ bs. frá 13.05.2019 lögð fram til kynningar.                         

11. Dvalarheimili aldraðra sf.: Fundargerðir - 1806047

Fundargerð 6. fundar stjórnar DA frá 13.05.2019 lögð fram til kynningar.

                              

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14:17