190. fundur

Fundargerð

Sveitarstjórn

28.04.2016

190. fundur

Fundargerð
Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar
28.04.2016

190. fundur
sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar
haldinn í Kjarna fimmtudaginn 28. apríl kl. 13:00 


Fundinn sátu:

Arnór Benónýsson, Árni Pétur Hilmarsson, Eiður Jónsson í forföllum Margrétar Bjarnadóttur, Nanna Þórhallsdóttir í forföllum Ásvaldar Ævars Þormóðssonar, Ragnar Bjarnason og Sigurður Hlynur Snæbjörnsson. Heiða Guðmundsdóttir boðaði forföll.

Að auki sat fundinn Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

 

 

Oddviti setti fund. Hann óskað eftir að bæta á dagskrá undir 5. lið; Kröflulína 4 – umsókn um framkvæmdaleyfi og undir 6. lið; Laxárstöð III – umsókn um framkvæmdaleyfi. Aðrir liðir færast neðar á dagskrá sem því nemur.

Samþykkt samhljóða.

Dagskrá:

  1. Ársreikningur Þingeyjarsveitar 2015 – fyrri umræða
  2. Aðalfundarboð Menningarmiðstöðvar Þingeyinga
  3. Aðalfundarboð Greiðrar leiðar ehf.
  4. Nýtt rekstrarleyfi – Láfsgerði
  5. Kröflulína 4 – umsókn um framkvæmdaleyfi
  6. Laxárstöð III – umsókn um framkvæmdaleyfi 
  7. Fundargerð Félags- og menningarmálanefndar frá 19.04.2016
  8. Fundaáætlun sveitarstjórnar

1. Ársreikningur Þingeyjarsveitar 2015 – fyrri umræða

Ársreikningur Þingeyjarsveitar 2015 lagður fram til fyrri umræðu. Arnar Árnason endurskoðandi KPMG mætti til fundarins undir þessum lið og fór yfir reikningana. Einnig sat skrifstofustjóri fundinn undir þessum lið. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt rekstrarreikningi A og B hluta var neikvæð um 50,1 millj.kr. en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir 23,2 millj.kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu.  Á heildina litið er neikvætt frávik frá áætlun 26,9 millj.kr. í samanteknum ársreikningi A og B hluta. Frávikið skýrist af lægri útsvarstekjum og hærri launum og launatengdum gjöldum en áætlað var. Veltufé til rekstrar er 10,2 millj.kr. og handbært fé frá rekstri 71,2 millj.kr. Heildarskuldir eru 577 millj.kr. og skuldahlutfall – skuldir/rekstrartekjur A og B hluta er 62,4%.

Samþykkt að vísa ársreikningnum til síðari umræðu.

2. Aðalfundarboð Menningarmiðstöðvar Þingeyinga

Lagt fram aðalfundarboð Menningarmiðstöðvar Þingeyinga sem haldinn verður þann 4. maí n.k. í Byggðasafni Norður-Þingeyinga á Snartastöðum við Kópasker.

Samþykkt að Heiða Guðmundsdóttir fari með umboð Þingeyjarsveitar á fundinum.

3. Aðalfundarboð Greiðrar leiðar ehf.

Lagt fram aðalfundarboð Greiðrar leiðar ehf. sem haldinn verður þann 10. maí n.k. að Hafnarstræti 91 Akureyri.

Samþykkt að Margrét Bjarnadóttir fari með umboð Þingeyjarsveitar á fundinum.

4. Nýtt rekstrarleyfi – Láfsgerði

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, dags. 18. apríl s.l. þar sem Hólmfríður Sólveig Haraldsdóttir sækir um sem forsvarsmaður fyrir Álfinn Bæ ehf. nýtt rekstrarleyfi til sölu gistingar í sumarbústað, Láfsgerði, Jaðri í Þingeyjarsveit.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við nýtt rekstrarleyfi fyrir sitt leyti. 

5. Kröflulína 4 – umsókn um framkvæmdaleyfi

Erindi dags 18. mars 2016 frá Guðmundi Inga Ásmundssyni forstjóra, f.h. Landsnets þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4, 220 kV háspennulínu.

Sótt er um framkvæmdaleyfi á grundvelli 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sbr. og 6. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 fyrir framkvæmdinni Kröflulínu 4, 220 kV háspennulína.  Framkvæmdin er matsskyld skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og er matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar fyrirliggjandi og meðfylgjandi.  Sótt er um framkvæmdina á grundvelli Aðalskipulags Þingeyjarsveitar 2010-2022 þar sem gert er ráð fyrir háspennulínum sbr. 1. mgr. 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2000.  Í aðalskipulagi nágrannasveitarfélaganna Norðurþings og Skútustaðahrepps er einnig gert ráð fyrir framkvæmdinni.

Meðfylgjandi eru gögn vegna framkvæmdaleyfisumsóknar, sbr. sérstaklega 2. og 3. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2000.  Lýsing mannvirkja vegna útgáfu framkvæmdaleyfis, dags. í mars 2016, sem er aðalþáttur gagnanna er tekið saman af verkfræðistofunni Mannviti f.h. Landsnets hf.  Er vísað til hennar um frekari skýringar og lýsingar á framkvæmdinni.  Lýsingin er þannig hluti þessarar umsóknar Landsnets hf. um framkvæmdaleyfi.  Náðst hefur samkomulag við landeigendur þeirra lendna sem fyrirhugðuð línulögn mun liggja um.

Sveitarstjórn leggst ekki gegn framkvæmdinni þar sem hún er í samræmi við Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022 og fyrirhuguð framkvæmd uppfyllir skv. áliti Skipulagsstofnunar frá 29. nóvember 2010 skilyrði 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda vegna sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum álvers á Bakka

(þó ekki sé fyrirhugað að reisa álver á Bakka), Þeistareykjavirkjunar og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Húsavík.

Sveitarstjórn felur jafnframt skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfið í samræmi við reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.

6. Laxárstöð III – umsókn um framkvæmdaleyfi

Erindi dags 15. apríl 2016 frá Einari Erlingssyni, verkefnisstjóra, f.h. Landsvirkjunar, þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir breytingum á inntaki Laxár III eins og framkvæmdinni er lýst skv. meðfylgjandi tilkynningu um framkvæmdina til Skipulagsstofnunar dags. 4. apríl 2016.  Framkvæmdin er ekki úrskurðuð matsskyld af Skipulagsstofnun skv. lögum nr. 106/200 um mat á umhverfisáhrifum skv. bréfi dags. 27. apríl 2016 og fyrir liggur samþykki Umhverfisstofnunar skv. lögum nr. 97/2014 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

Sveitarstjórn leggst ekki gegn framkvæmdinni þar sem hún er ekki háð mati á umhverfisáhrifum skv. bréfi Skipulagsstofnunar dags 27. apríl 2016.

Sveitarstjórn felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfið í samræmi við reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.

Árni Pétur Hilmarsson sat hjá við afgreiðslu þessa liðar.

7. Fundargerð Félags- og menningarmálanefndar frá 19.04.2016

Lögð fram fundargerð Félags- og menningarmálanefndar frá 19. apríl s.l. sem er í 7 liðum.

Afgreiðslu frestað til næsta fundar.

8. Fundaáætlun sveitarstjórnar

Fundaáætlun sveitarstjórnar tekin til umræðu og lagt til að síðasti fundur fyrir sumarfrí verði þann 23. júní og fyrsti fundur eftir sumarfrí þann11. ágúst.

            Samþykkt samhljóða.

Til kynningar:

a)      Fundargerð 182. fundar HNE ásamt ársreikningi 2015

b)     Fundargerð stjórnar DA frá 19.04.2016

c)      Fundargerð stjórnar Leigufélags Hvamms frá 19.04.2016

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:20