111. fundur

Fundargerð

Skipulags- og umhverfisnefnd

07.03.2019

111. fundur

haldinn í Kjarna fimmtudaginn 07. mars kl. 10:00

Fundarmenn

Sæþór Gunnsteinsson, Nanna Þórhallsdóttir, Jóna Björg Hlöðversdóttir, Hlynur Snæbjörnsson og Margrét Bjarnadóttir.

Starfsmenn

Helga Sveinbjörnsdóttir, byggingarfulltrúi.

Fundargerð ritaði: Helga Sveinbjörnsdóttir, byggingarfulltrúi.

Dagskrá:

 

1.  Umhverfis- og auðlindaráðuneytið - Þjóðgarður á miðhálendi Íslands - 1902026

Sveitarstjórn vísaði erindi til skipulags- og umhverfisnefndar á fundi sínum þann 21.02.2019:

Lagt fram bréf frá Óla Halldórssyni, formanni nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands, dags. 15.02.2019 um helstu efnisatriði og sjónarmið samráðsfundar með sveitarfélögum um málefnið:

Þverpólitísk nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu var skipuð af umhverfis- og auðlindaráðherra í apríl 2018 í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Nefndinni er ætlað að útfæra þjóðgarðinn, m.a. skilgreina mörk og verndarflokkun. Þá er henni ætlað að fjalla um hugsanlegar aðkomuleiðir og þjónustumiðstöðvar, svæðisskiptingu og rekstrarsvæði og greina tækifæri með stofnun þjóðgarðs á byggðaþróun og atvinnulíf.

Nú í janúar 2019 voru haldnir átta fundir um land allt með sveitarfélögum og hagaðilum sem þau kölluðu til. Þessir fundir voru ætlaðir til að afla upplýsinga og leita eftir sjónarmiðum og áherslumálum á hverju og einu landsvæði sem snýr að miðhálendi Íslands. Á fundunum var fjallað um sértæk hagsmunamál hvers landshluta og jafnframt rætt um möguleg mörk þjóðgarðsins og þarfir fyrir innviði og aðkomuleiðir.

Um miðjan mars 2019 mun nefndin þurfa að koma fram með tillögur í samráðsgátt stjórnvalda. Tillögurnar lúta m.a. að mörkum þjóðgarðs og hugsanlegum aðkomuleiðum, þjónustumiðstöðvum, svæðisskiptingu og rekstrarsvæðum.

Vilji sveitarfélög bregðast frekar við umræddum atriðum á þessu stigi áður en nefnd leggur fram tillögur sínar í samráðsgáttina er þess óskað að athugasemdum verði komið til nefndarinnar sem fyrst.

Skipulags- og umhverfisnefnd tekur undir þau atriði sem fjallað var um á fundi sveitastjórna og hagaðila með þverpólitískri nefnd um stofnun miðhálendisþjóðgarðs þann 9.janúar 2019.

Skipulags- og umhverfisnefnd telur nauðsynlegt að sveitarfélagið hafi áfram skipulagsvald í sveitarfélaginu og leggur áherslu á að deiliskipulagsvinna verði á ábyrgð þjóðgarðsins. Skilgreina þurfi efnistökusvæði innan þjóðgarðs vegna efnistöku til viðhalds og uppbyggingar innviða svo ekki þurfi að sækja efni langar leiðir.

Nefndin leggur ríka áherslu á að vel verði hugað að gáttum inn í þjóðgarðinn, sem á þessu svæði er Bárðardalsvegur vestari sem liggur að Sprengisandi. Nauðsynlegt er að byggja upp betri veg og tryggja fullnægjandi þjónustu á honum samhliða stofnun þjóðgarðs. Uppbygging þjónustumiðstöðvar á svæðinu er forsenda þess að gestir þjóðgarðsins fái notið hans.

Tillaga nefndarinnar er að mörk þjóðgarðsins verði almennt miðuð við þjóðlendur innan miðhálendislínunnar en nái aldrei yfir eignalönd. Þó verði eigendum jarða sem liggja að þjóðgarðinum heimilt að óska eftir að hluti þeirra eignalanda verði innan þjóðgarðsins.

Mat nefndarinnar er að hefðbundin not af svæðum innan mögulegs þjóðgarðs haldi áfram, svo sem beit, veiði, útivist og mennta- og menningartengd ferðaþjónusta.

Nefndin ítrekar að huga beri að tækifærum til atvinnuuppbyggingar og nýtingar þekkingar mannauðs á svæðinu.

                             

2. Stöðuleyfi fyrir gámahús - 1902044

Erindi sem barst í tölvupósti 18.2.2019 frá Sigurði A. Jónssyni f.h. Goðafoss ehf.

Sótt er um stöðuleyfi fyrir gámahús sunnan við verslun. Þar verður kaffistofa og salerni fyrir bílstjóra og leiðsögumenn.

Goðafoss ehf. er nú með stöðuleyfi fyrir salernis- og geymslugáma samtals 188,2m2 við verslunina við Goðafoss.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggst ekki gegn erindinu og leggur til við sveitarstjórn að fela byggingarfulltrúa afgreiðslu stöðuleyfis vegna gámahúss skv. meðfylgjandi uppdráttum.

Nefndin hvetur landeigendur til að huga að gerð deiliskipulags svæðisins svo hægt sé að gefa út byggingarleyfi fyrir þeim húsum sem eru á stöðuleyfi.

                             

3. Deiliskipulag þéttbýliskjarna á Hafralæk - 1902041

Tekið fyrir að nýju en erindið var áður á dagskrá nefndarinnar 23. ágúst og 20. september 2018.

Á þeim fundi gerði skipulags- og umhverfisnefnd ekki athugasemdir við efnistök í deiliskipulagsdrögunum og heimilaði áframhaldandi vinnu við þau í samræmi við umræður á fundinum. Innkomin tillaga að deiliskipulagi 16. ágúst s.l. frá Teiknistofu arkitekta Gylfa Guðjónssyni og félögum ehf. þar sem búið var að koma til móts við sjónarmið nefndarinnar.

Skipulags- og umhverfisnefnd gerði ekki athugasemdir við tillöguna og fól skipulags- og byggingarfulltrúa að kynna hana fyrir íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum eins og 4. mgr. 40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um áður en hún yrði tekin til afgreiðslu í sveitarstjórn.

Skipulagsfulltrúi var með opið hús í Kjarna miðvikudaginn 19. september þar sem tillagan og forsendur hennar voru kynntar með vísan í framangreind lagaákvæði. Ekki komu fram neinar athugasemdir á kynningunni sem gáfu tilefni til breytinga á tillögunni.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samþykkti þann 4. október 2018 að auglýsa skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tillögu að uppfærðu eldra deiliskipulagi af þéttbýliskjarna í Aðaldal. Tillagan var auglýst frá og með 12. október 2018 með athugasemdarfresti til og með 23. nóvember 2018.

Aðeins barst ein munnleg athugasemd frá Sigurði Hálfdánarsyni bónda og landeiganda á Hjarðarbóli í Aðaldal, þar sem hann gerði athugasemdir við afmörkun svæðisins með vísan í uppdrátt með kaupsamningi sem sem gerður var þegar faðir hans seldi umrædda landspildu til Aðaldalshrepps á sínum tíma.

Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að láta mæla upp og hnitsetja umrædda landspildu í samráði við Sigurð Hálfdánarson skv. áður nefndum uppdrætti með kaupsamningi. Jafnframt felur nefndin skipulagsfulltrúa að láta uppfæra deiliskipulagstillöguna til samræmis við nýja afmörkun og leggja fyrir nefndina að nýju áður en tillagan verður endanlega afgreidd.

                           

4. Þeistareykjavirkjun, breyting á deiliskipulagi - 1902045

Tekið fyrir að nýju erindi sem barst í tölvupósti 11.janúar 2019 frá Vali Knútssyni, yfirverkefnastjóra hjá Landsvirkjun, þar sem lagðar voru fram tillögur að breytingum á deiliskipulagi Þeistareykjavirkjunar, sem upphaflega var samþykkt 8.mars 2012. Breytingarnar voru settar fram á tveim breytingablöðum, nr. 010 og 011.

Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 17.janúar samþykkti nefndin að fresta afgreiðslu á færslu borsvæðis B-D en samþykkti að öðru leyti að breytingartillagan yrði grenndarkynnt.

Á sama fundi lagði nefndin til við sveitarstjórn að fela skipulagsfulltrúa málsmeðferð vegna grenndarkynningar eins og 44.gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mæla fyrir um.

Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum 24.janúar tillögu skipulags- og umhverfisnefndar að fresta afgreiðslu á færslu borsvæðis B-D en að breytingartillagan færi að öðru leyti í grenndarkynningu fyrir Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Minjastofnun Íslands og Landgræðslunni. Einnig samþykkti sveitarstjórn að fela skipulagsfulltrúa málsmeðferð vegna grenndarkynningarinnar eins og 44.gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um.

Grenndarkynning var send Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Minjastofnun og Landgræðslunni þann 6.febrúar sl. og rann umsagnarfrestur út þann 6.mars.

Umsagnir bárust frá öllum aðilum grenndarkynningarinnar.

Svör hafa borist frá öllum aðilum grenndarkynningarinnar.

Nefndin samþykkir að fresta erindinu til næsta fundar og felur skipulagsfulltrúa að svara þeim athugasemdum sem bárust vegna grenndarkynningarinnar.

                              

5. Eyjardalsvirkjun - Beiðni um umsögn vegna matsskyldu - 1903004

Tekið fyrir erindi sem barst 4.mars 2019 frá Skipulagsstofnun varðandi beiðni um umsögn um matsskyldu framkvæmda við Eyjardalsvirkjun skv. 6 gr. laga nr. 106/2000 og 12 gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum.

I umsögninni skal koma fram eftir því sem við á, hvort Þingeyjarsveit telji að nægjanlega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, mótvægisaðgerðum og vöktun. Einnig óskar Skipulagsstofnun eftir því að í umsögn komi fram, eftir því sem við á, hvaða leyfi framkvæmdin er háð og varðar starfssvið umsagnaraðila.

Skipulags- og umhverfisnefnd telur að nægjanlega sér gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, mótvægisaðgerðum og vöktun og leggur til við sveitarstjórn að hún taki undir álit nefndarinnar um að ofangreind framkvæmd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til 2. viðauka í framangreindum lögum.

Nefndin telur að vegna smæðar virkjunarinnar, sem er 700 kW og inntakslón áætlað um 0,5 ha. muni framkvæmdin hafa lítil umhverfisáhrif.

Núverandi vegslóði, sem er línuvegur Kröflulínu 1 verður endurbættur og nýttur við framkvæmdina. Stíflunni hefur verið valinn staður á góðum grunni nærri ármótum, þannig að virkja megi vatn úr báðum kvíslum með lágmarksumfangi mannvirkja.

Pípuleið var valin með það í huga að valda sem minnstu raski á grónu landi.

Nefndin telur að mótvægisaðgerða sé ekki þörf annarra en að vanda til frágangs að framkvæmdum loknum.

Vegna fyrirspurnar Skipulagsstofnunar skal tekið fram að skipulagsvaldið er í höndum Þingeyjarsveitar sem einnig er leyfisveitandi vegna útgáfu á framkvæmdaleyfi vegna fyrirhugaðrar virkjunarframkvæmdar.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að fela skipulagsfulltrúa málsmeðferð vegna umsagnarinnar.

                              

6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 25-1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum nr. 93-1995 um matvæli og lögum nr. 22-1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. - 1903001

Í upphafi fundar óskuðu Jóna Björg Hlöðversdóttir og Sigurður Hlynur Snæbjörnsson eftir að bætt yrði á dagskrá frumvarpi ráðherra varðandi breytingu á lögum nr. 25/1993, 93/1995 og 22/1994.

Nefndin er sammála um mikilvægi þess að lýsa yfir andstöðu sveitarfélagsins við fyrirhuguðum breytingum í frumvarpi landbúnaðarráðherra. Landbúnaður er grundvöllur búsetu í stórum hluta Þingeyjarsveitar og telur nefndin að frumvarp ráðherra sé aðför að landbúnaði á Íslandi og þar með búsetu í hinum dreifðu byggðum.Mikilvægt er að tryggja þá sérstöðu sem landið hefur í lágri tíðni alvarlegra sýkinga vegna sýklalyfjaónæmis. Íslendingum ber skylda til að vernda erfðaauðlindir sem íslenskir búfjárstofnar búa yfir auk þess sem lág sjúkdómastaða þeirra er einstök og sýklalyfjanotkun í íslenskri matvælaframleiðslu er fádæmalítil. Matvælaöryggi og lýðheilsa eiga alltaf að vega þyngra en viðskiptahagsmunir.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 12:00