1. gr. Skilgreining og markmið
Sérstakur húsnæðisstuðningur er fjárstuðningur til greiðslu á húsaleigu umfram húsnæðisbætur sem veittar eru á grundvelli laga um húsnæðisbætur nr. 75/2016.
Sérstakur húsnæðisstuðningur er ætlaður þeim fjölskyldum og einstaklingum búsettum og með lögheimili í Þingeyjarsveit, sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa og þungrar framfærslubyrðar og félagslegrar aðstæðna.
2. gr. Umsókn
Félagsþjónusta Norðurþings, f.h. Þingeyjarsveitar, annast afgreiðslu umsókna um sérstakan húsnæðisstuðning, samkvæmt gildandi reglugerð Norðurþings, í samræmi við gildandi samning um samvinnu sveitarfélaganna um velferðarþjónustu.
Umsókn til Félagsþjónustu Norðurþings skal vera skrifleg á sérstöku eyðublaði og undirritað af heimilismönnum, 18 ára og eldri, til staðfestingar á þeim upplýsingum sem þar koma fram. Með umsókn skulu fylgja öll nauðsynleg gögn, líkt og nánar er kveðið á um í reglum Norðurþings um sérstakan húsnæðisstuðning.
3. gr. Meðferð mála
Meðferð umsókna og annarra mála tengdum sérstökum húsnæðisstuðningi fer að öllu leyti eftir gildandi reglum Norðurþings um sérstakan húsnæðisstuðning.
4. gr. Gildistaka
Í reglum þessum er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita sbr. 2. og 3. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum. Reglur þessar öðlast þegar gildi. Jafnframt falla þá úr gildi eldri reglur Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps um sérstakar húsaleigubætur.
Samþykkt á 12. fundi fræðslu- og velferðarnefndar þann 5. október 2023.
Samþykkt á 34. Fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar 26. október 2023.