Fara í efni

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar

72. fundur 22. janúar 2026 kl. 13:00 - 14:12 í Þingey
Nefndarmenn
  • Gerður Sigtryggsdóttir var fjarverandi en í staðinn sat fundinn Anna Bragadóttir
  • Knútur Emil Jónasson
  • Halldór Þorlákur Sigurðsson
  • Jóna Björg Hlöðversdóttir
  • Árni Pétur Hilmarsson
  • Ragnhildur Hólm Sigurðardóttir
  • Eyþór Kári Ingólfsson
  • Arnór Benónýsson
  • Haraldur Bóasson
Starfsmenn
  • Margrét Hólm Valsdóttir
Fundargerð ritaði: Margrét Hólm Valsdóttir
Dagskrá
Oddviti setti fund og kannaði lögmæti fundar. Engar athugasemdir voru gerðar við fundarboð.
Einnig óskaði hann eftir að bæta eftirtöldum lið með afbrigðum inn á dagskrá fundarins:
- Liður 6 - Fundargerð 32. fundar fræðslu- og velferðarnefndar frá 20. janúar.
Samþykkt samhljóða.

1.Ungmennaráð - fundargerðir

Málsnúmer 2512055Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur 1. fundargerð ungmennaráðs Þingeyjarsveitar frá 29. desember 2025 til staðfestingar.

Ungmennaráð skorar á sveitarstjórn að láta yfirfara leiktæki og útisvæði við grunnskóla Þingeyjarsveitar með það að markmiði að lagfæra það sem er úr sér gengið þannig að öryggi nemenda sé ekki ógnað við notkun tækjanna.
Knútur kynnti fundargerðina.

Til máls tók: Knútur.

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina.

2.Atvinnu- og nýsköpunarnefnd Þingeyjarsveit - 25

Málsnúmer 2601002FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 25. fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar frá 12. janúar. Fundargerðin er í þremur liðum. Liður nr. 3 þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar og er sér liður á fundinum.
Arnór fór yfir fundargerðina.

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina.

3.Skipulagsnefnd - 45

Málsnúmer 2601003FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 45. fundar skipulagsnefndar frá 14. janúar. Fundargerðin er í níu liðum. Engir liðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar.
Knútur fór yfir fundargerðina.

Til máls tók: Jóna Björg um lið nr. 5 "Niðurfelling af vegaskrá".


Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina.

4.Umhverfisnefnd - 32

Málsnúmer 2601004FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur til staðfestingar fundargerð 32. fundar umhverfisnefndar frá 15. janúar. Fundargerðin er í sex liðum. Liður 5 þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar og er sér liður á dagskrá fundarins.
Árni Pétur fór yfir fundargerðina.

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina.

5.Íþrótta-, tómstunda- og menningarnefnd Þingeyjarsveit - 28

Málsnúmer 2512006FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 28. fundar íþrótta-, tómstunda- og menningarnefndar frá 13. janúar. Fundargerðin er í fjórum liðum. Liðir 3 og 4 þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar og eru því sér liðir á fundinum.
Eyþór Kári kynnti fundargerðina.

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina.

6.Fræðslu- og velferðarnefnd Þingeyjarsveit - 32

Málsnúmer 2512001FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur til staðfestingar fundargerð 32. fundar fræðslu- og velferðarnefndar frá 20. janúar. Fundargerðin er í sex liðum. Engir liðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar.
Ragnhildur kynnti fundargerðina.

Til máls tók: Knútur.

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina.

7.Stjórnskipulag Þingeyjarsveitar - beiðni um endurskoðun

Málsnúmer 2404054Vakta málsnúmer

Þann 3. mars 2022 veitti innviðaráðuneytið undanþágu til að fjölga sveitarstjórnarfulltrúum í sameinuðu sveitarfélagi úr sjö í níu. Undanþágan gilti í tvö kjörtímabil. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum eru sveitarstjórnarfulltrúar að jafnaði fimm til sjö í sveitarfélögum með færri en 2.000 íbúa.



Óskað var eftir fjölgun fulltrúa í tengslum við sameiningu sveitarfélaga til að tryggja breiðari þátttöku og fá sem flestar raddir úr hinu víðfeðma sveitarfélagi, auk þess að stuðla að samfellu milli sveitarstjórnar og fastanefnda.



Á 43. fundi sveitarstjórnar, 24. apríl 2024, var samþykkt að óska eftir því að fulltrúum yrði fækkað í sjö fyrir næsta kjörtímabil. Rökstuðningurinn var sá að stjórnsýsla og stefna nýs sveitarfélags hefði nú verið mótuð og því væru ekki lengur forsendur fyrir undanþágunni eftir lok yfirstandandi kjörtímabils.



Ráðuneytið hefur samþykkt þessa beiðni og verður sveitarstjórnarfulltrúum því fækkað úr níu í sjö fyrir kjörtímabilið 2026-2030.

8.Samþykkt um stjórn og fundarsköp Þingeyjarsveitar

Málsnúmer 2206003Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur til fyrri umræðu, breyting á samþykkt um stjórn og fundarsköp Þingeyjarsveitar. Breytingin felur í sér að fyrir næsta kjörtímabíl verður sveitarstjórnarfulltrúum fækkað úr níu í sjö með breytingum á 1.gr. og 2.gr. samþykktanna.
Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi breytingu á samþykktum um stjórn og fundarsköp Þingeyjarsveitar og vísar málinu til síðari umræðu.

Samþykkt samhljóða.

9.Viðverustefna

Málsnúmer 2509040Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggja drög að viðverustefnu fyrir sveitarfélagið. Tilgangur og markmið viðverustefnu er annars vegar að standa vörð um heilbrigði starfsfólks með það að leiðarljósi að starfsumhverfi þeirra sé heilsusamlegt og hins vegar að allt starfsfólk hafi skýra og ákveðna verkferla er varðar tilkynningar, skráningar og viðbrögð við fjarvistum.
Til máls tóku: Árni Pétur og Eyþór Kári.

Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi drög að viðverustefnu og felur sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að setja hana í samráð á heimasíðu sveitarfélagsins. Sveitarstjórn leggur áherslu á gott samráð og beinir því til stjórnenda að kynna drögin fyrir starfsfólki sveitarfélagsins.

Samþykkt með átta atkvæðum, Eyþór Kári situr hjá.

10.Verkfallsheimild 2026 - auglýsing um skrá yfir undanþegin störf

Málsnúmer 2512056Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur listi sveitarfélagsins yfir þau störf sem undanþegin eru verkfallsheimild.
Til máls tók: Knútur.

Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi lista og felur sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs að senda hann til birtingar í B- deild Stjórnartíðinda.

Samþykkt samhljóða.

11.Atvinnuefling Þingeyjarsveitar - fjöldi stjórnarmanna

Málsnúmer 2601013Vakta málsnúmer

Á fundi stjórnar Atvinnueflingar Þingeyjarsveitar(AÞ) sem haldinn var þann 30.12.2025 samþykkti stjórn að leggja þá tillögu fyrir sveitarstjórn, að stjórnarmönnum AÞ verði fækkað úr sjö í þrjá í þeim tilgangi að draga úr umfangi í takti við umfang starfsemi félagsins.
Sveitarstjórn samþykkir fækkun stjórnarmanna í Atvinnueflingu Þingeyjarsveitar og felur sveitarstjóra að breyta samþykktum félagsins þannig að stjórnarmenn verði þrír. Breytingarnar taki gildi 1. júní nk.

Samþykkt samhljóða.

12.Þorrablót í sveitarfélaginu - húsaleiga

Málsnúmer 2601020Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur tillaga um að veita menningarstyrki til þeirra þorrablóta sem haldin eru í húsum sveitarfélagsins í formi 50% afsláttar af húsaleigu.
Til máls tóku: Eyþór Kári, Árni Pétur, Eyþór Kári, Jóna Björg og Knútur.

Eyþór leggur fram eftirfarandi tillögu:
Ég legg til að afsláttur af húsaleigu félagsheimila í tengslum við þorrablót 2026 verði 25% í stað 50%.

Tillagan var felld með atkvæðum Önnu, Ragnhildar, Arnórs, Árna Péturs og Jónu Bjargar. Samþykkir voru Haraldur, Halldór og Eyþór. Knútur situr hjá.

Sveitarstjórn samþykkir að veita menningarstyrki til þorrablótshalds fyrir árið 2026 í formi 50% afsláttar af húsaleigu félagsheimila sveitarfélagsins og Stórutjarnaskóla. Þá verði þorrablótshald í Kiðagili styrkt um 50% af húsaleigu. Í framhaldi verði málið rýnt betur og búin til viðmið í gjaldskrá til lengri tíma sem taki mið af menningarlegu mikilvægi þorrablóta.

Samþykkt með atkvæðum Jónu Bjargar, Árna Péturs, Önnu, Arnórs og Ragnhildar. Á móti var Haraldur. Eyþór, Halldór og Knútur sátu hjá.

13.ME félag Íslands - styrkbeiðni

Málsnúmer 2601022Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur styrkbeiðni frá ME félagi Íslands þar sen verkefnið "Börn með ME" er kynnt og óskað eftir fjárstuðningi til verkefnisins.
Til máls tók: Knútur.

Sveitarstjórn getur ekki orðið við beiðninni að þessu sinni.

Samþykkt samhljóða.

14.Fundadagatal 2025-2026

Málsnúmer 2509018Vakta málsnúmer

Þar sem seinni fundur sveitarstjórnarfundur í mars sem fyrirhugaður er 26. mars, skarast á við ársþing SSNE er lagt til að fundur sveitarstjórnar í mars verði miðvikudaginn 25. mars en ekki fimmtudaginn 26. mars eins og áður var áætlað.
Til máls tóku Jóna Björg og Knútur.

Lagt er til að seinni fundur sveitarstjórnar í mars verði miðvikudaginn 25. mars en ekki fimmtudaginn 26. mars.

Samþykkt samhljóða.

15.Hálkuvarnir á þjóðvegum

Málsnúmer 2512020Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur svar Vegagerðarinnar við erindi Þingeyjarsveitar ásamt fjórum sveitarfélögum, um hálkuvarnir á þjóðvegum. Einnig liggur fyrir svar Innviðaráðuneytis við fyrirspurn Ingvars Þóroddssonar um helmingamokstur og hálkuvarnir.
Til máls tóku: Árni Pétur, Jóna Björg og Knútur.

16.Fjárhagsáætlun 2026 - viðaukar

Málsnúmer 2601031Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur til afgreiðslu viðauki nr. 1 við fjárhagsáætlun 2026. Viðaukinn snýr að aukningu hlutafjár Þingeyjarsveitar í Mýsköpun ehf. en sveitarfélagið á forkaupsrétt að 786.844 hlutum í félaginu að nafnverði kr. 11.802.161 skv. samþykkt hluthafafundar 18. desember 2025. Viðaukinn verður fjármagnaður með handbæru fé.
Sveitarstjórn samþykkir framlagðan viðauka nr. 1 við fjárhagsáætlun 2026.

Samþykkt samhljóða.

17.Iðnbær ehf. - slit

Málsnúmer 2512035Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur tillaga um slit á félaginu Iðnbæ ehf. en Þingeyjarsveit á 38,9% hlut í félaginu.
Sveitarstjórn samþykkir tillögu um slit á Iðnbæ ehf og felur sveitarstjóra að boða til hluthafafundar í Iðnbæ ehf. þar sem slit félagsins verði sett á dagskrá.

Samþykkt samhljóða.

18.Laugafiskur - Vöktunaráætlun

Málsnúmer 2601034Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur til kynningar vöktunaráætlun vegna fráveituvatns sem rennur út í Torfdalstjörn. Vöktunaráætlunin var unnin af VSÓ ráðgjöf í tengslum við endurnýjun starfsleyfis Laugafisks. Einnig er til afgreiðslu beiðni Samherja Ísland ehf. um að gerði verði sameiginlegur samningur Þingeyjarsveitar og Samherja við Náttúrustofu Norðausturlands um framkvæmd mælinga samkvæmt vöktunaráætluninni.
Sveitarstjórn samþykkir að gerður verði sameiginlegur samningur Þingeyjarsveitar og Samherja við Náttúrustofu Norðausturlands um framkvæmd mælinga samkvæmt vöktunaráætluninni og felur sviðsstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs að vinna málið áfram.

Samþykkt samhljóða.

19.Þjónustustefna

Málsnúmer 2512027Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur til annarrar umræðu þjónustustefna sveitarfélagsins skv. 130. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Þjónustustefnan var í opnu umsagnarferli til 17. janúar sl., engar umsagnir bárust.
Sveitarstjórn samþykkir þjónustustefnuna og felur sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að birta hana á heimasíðu sveitarfélagsins.

Samþykkt samhljóða.

20.2G og 3G útfösun - staða

Málsnúmer 2601021Vakta málsnúmer

Á 25. fundi atvinnu- og nýsköpunarnefndar var eftirfarandi bókað og samþykkt varðandi lokun 2G og 3G farsímaþjónustu:

"Nefndin lýsir yfir áhyggjum af fjarskiptasambandi í sveitarfélaginu. Mikilvægt er að öruggt samband sé fyrir hendi þannig að ávallt verði hægt að ná sambandi við neyðarþjónustu. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að boðaður verði fundur með Fjarskiptastofu þar sem farið verður yfir þessar breytingar og með hvaða hætti er hægt að forðast það að rof verði á sambandi í sveitarfélaginu."
Til máls tóku: Árni Pétur, Ragnhildur, Eyþór Kári, Árni Pétur og Knútur.


Sveitarstjórn tekur undir áhyggjur atvinnu-og nýsköpunarnefndar og felur sveitarstjóra að boða Fjarskiptastofu á fund sveitarfélagsins. Jafnframt eru íbúar hvattir til að tilkynna slakt farsímasamband til Fjarskiptastofu í gegnum hlekk á vefsíðu stofunnar: https://www.fjarskiptastofa.is/fjarskiptastofa/fjarskiptainnvidir/upplysingar-fyrir-neytendur/leidbeiningar-vegna-otryggs-farnetssambands/

Samþykkt samhljóða.

21.Þingeyjarsveit - Hvati - Rafrænn frístundastyrkur

Málsnúmer 2512043Vakta málsnúmer

Á 28. fundi íþrótta-, tómstunda- og menningarnefndar var eftirfarandi bókað varðandi innleiðingu rafræns frístundastyrks:

"Nefndin leggur til við sveitarstjórn að gengið verði til viðræðna við Abler um innleiðingu rafræns frístundastyrks og hann verði innleiddur sem fyrst á árinu 2026. Rafrænn frístundastyrkur mun auka nýtingu styrksins og einfalda utanumhald fyrir bæði notendur og starfsfólk sveitarfélagsins."
Sveitarstjórn samþykkir að gengið verði til viðræðna við Abler um innleiðingu rafræns frístundastyrks.

Samþykkt samhljóða.

22.Þingeyjarsveit - samningar við ungmenna-, íþrótta- og æskulýðsfélög

Málsnúmer 2209058Vakta málsnúmer

Á 28. fundi íþrótta-, tómstunda- og menningarnefndar var eftirfarandi bókað varðandi drög að samstarfssamningum við íþróttafélög í Þingeyjarsveit:

"Verkefnastjóri lagði fram drög að samsamstarfssamningi. Nefndin leggur til smávægilegar orðalagsbreytingar en samþykkir drögin að öðru leyti og vísar þeim til sveitarstjórnar til afgreiðslu."
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra og sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs að yfirfara drögin og leggja þau fyrir næsta sveitarstjórnarfund.

Samþykkt samhljóða.

23.Moltugerðarvélar - verðfyrirspurn

Málsnúmer 2505077Vakta málsnúmer

Á 32. fundi umhverfisnefndar sem haldinn var 15. janúar var eftirfarandi bókað og samþykkt varðandi moltugerðarvélar og útdeilingu þeirra til íbúa í sveitarfélaginu:

"Nefndin leggur til við sveitarstjórn að útdeiling vélanna hefjist sem fyrst. Einnig samþykkir nefndin að lægsta tilboði sem barst í flutning véla verði tekið."
Sveitarstjórn tekur undir að mikilvægt sé að hætta að urða lífrænt sorp og koma moltugerðarvélum í notkun í sveitarfélaginu sem fyrst og felur umhverfisnefnd að útfæra næstu skref.

Samþykkt samhljóða.

24.Kvenfélag Mývatnssveitar - þorrablót í Skjólbrekku - tækifærisleyfi

Málsnúmer 2512028Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur til kynningar jákvæð umsögn sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs vegna umsóknar Kvenfélags Mývatnssveitar um tækifærisleyfi vegna þorrablóts í Skjólbrekku.

25.Dalakofinn Laugum ehf. - umsagnarbeiðni vegna rekstrarleyfis - veitingaleyfi

Málsnúmer 2601005Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur til kynningar jákvæð umsögn sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs vegna umsóknar Dalakofans Laugum ehf. um veitingaleyfi.

26.Veiðifélag Fnjóskár - aðalfundur 2024

Málsnúmer 2511029Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur til kynningar fundargerð aðalfundar Veiðifélags Fnjóskár fyrir árið 2024 sem haldinn var 26. nóvember sl.

27.Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi eystra - fundargerðir 2022-2026

Málsnúmer 2209048Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggja til kynningar fundargerðir 78. og 79. fundar stjórnar SSNE frá 3. desember og 8. janúar sl.

Fundi slitið - kl. 14:12.

Getum við bætt efni þessarar síðu?