Fara í efni

Farsæld barna

Þann 1. janúar 2022 tóku í gildi ný lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna (nr. 86/2021). Meginmarkmið laganna er að tryggja að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana. Samþætt þjónusta er skipulögð og samfelld þjónusta sem hefur það að markmiði að stuðla að farsæld barns og er veitt af þeim þjónustuveitendum sem eru best til þess fallnir að mæta þörfum barns hverju sinni.

Farsæld barna – Hér er góð lýsing á lögunum, verkferlum og hlutverkum helstu þjónustuaðila sem starfa í þágu farsældar barna.

Samþætt þjónusta

Starfsfólki sem vinnur með og fyrir börn ber að vinna saman að farsæld þeirra. Samkvæmt farsældarlögunum hefur starfsfólk leik-, grunn- og framskóla, .félagsþjónustu, íþrótta, tómstunda og heilbrigðisþjónustu fengið aukna ábyrgð sem felur í sér að koma auga á aðstæður barna og bregðast strax við ef þörf er á.

Hér er um að ræða boð um samþættingu þjónustu fyrir foreldra og börn sé þess óskað. Samþætting kemur ekki í veg fyrir að foreldrar sæki sjálfir þjónustu fyrir börn sín. Tilgangur farsældarlaganna er að börn og fjölskyldur falli ekki á milli kerfa og séu ekki send á milli þjónustuaðila innan sveitarfélaga og ríkisstofnana. Börn eiga rétt á að segja skoðun sína á málefnum sem hafa áhrif á líf þeirra og þau sem veita þjónustu eiga að taka tillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska

Stigskipting farsældarþjónustu

Þjónusta við börn er stigskipt:

Fyrsta stig: Grunnþjónusta sem er aðgengileg öllum börnum. Snemmtækur stuðningur er veittur og fylgt eftir á markvissan hátt. Hér er m.a. átt við ung- og smábarnavernd, leik- og grunnskóla og almenna heilbrigðisþjónustu. Tengiliður heldur utan um samþættingu á fyrsta stigi.

Annað stig: Einstaklingsbundinn og sérhæfðari stuðningur í samræmi við faglegt mat og/eða frumgreiningu á þörfum barns. Úrræðin eru sérhæfð og leitast er við að veita markvissan stuðning á grundvelli stuðningsáætlunar um samþætta þjónustu og eftirfylgd. Málstjóri félagsþjónustu heldur utan um samþættingu á öðru stigi.

Þriðja stig: Úrræði þar sem veittur er einstaklingsbundinn og sérhæfðari stuðningur með það að markmiði að tryggja að farsæld barns verði ekki hætta búin. Stuðningur er veittur í samræmi við sérhæft og ítarlegt mat og/eða greiningu á þörfum barns sem hefur að jafnaði flókinn og fjölþættan vanda og mikla umönnunarþörf. Málstjóri félagsþjónustu eða barnaverndar heldur utan um samþættingu á þriðja stigi. 

 Tengiliður

Tengiliður skal vera aðgengilegur öllum börnum að 18 ára aldri og foreldrum þeirra. Tengiliður býr yfir viðeigandi þekkingu og aðstoðar börn og foreldra við að sækja þá þjónustu sem þörf er á hverju sinni. Á meðgöngu og ungbarnaskeiði er tengiliður barns starfsmaður heilsugæslu, t.d. ljósmóðir eða hjúkrunarfræðingur í ungbarnavernd. Þegar barn hefur leikskólagöngu er tengiliðurinn starfsmaður í leikskóla barnsins, t.d. deildarstjóri eða sérkennslustjóri. Í grunnskóla er tengiliður barns starfsmaður grunnskóla, t.d. námsráðgjafi, deildarstjóri eða sérkennslustjóri. Ungmenni í framhaldsskólum hafa aðgang að tengilið innan framhaldsskólans, t.d. námsráðgjafa. Ungmenni sem ekki fara í framhaldsskóla eða börn sem á einhvern hátt falla á milli ofangreindra þjónustukerfa hafa aðgang að tengilið hjá félagsþjónustu sveitarfélags.

Fyrsta skrefið í átt að samþættingu þjónustu í þágu farsældar barns er beiðni foreldris/forráðamanns um samtal við tengilið. Foreldrar og/eða barn geta ávallt óskað eftir viðtali við tengilið. Hér að neðan er yfirlit yfir tengiliði í leik-og grunnskólum Þingeyjarsveitar:

Tengiliður grunnskóladeildar Þingeyjarskóla er Helga Sigurbjörg Gunnarsdóttir. Netfang hennar er helga@thingskoli.is

Tengiliður Barnaborgar og Krílabæjar er Nanna Marteinsdóttir. Netfang hennar er nanna@thingskoli.is

Tengiliður Reykjahlíðarskóla og leikskólans Yls er Ólöf Þuríður Gunnarsdóttir. Netfang hennar er olof@reykjahlidarskoli.is

Tengiliður Stórutjarnaskóla og leikskóladeildarinnar Tjarnaskjóls er Elín Eydís Friðriksdóttir. Netfang hennar er elineydis@storutjarnaskoli.is

 Málstjóri

Ef fyrir liggur beiðni foreldra og/eða barns um samþættingu þjónustu og ástæða er til að ætla að barn þurfi fjölþætta þjónustu á öðru og/eða þriðja stigi er tilnefndur málstjóri. Málstjórar eru að jafnaði starfsmenn félagsþjónustu sveitarfélaga. Þingeyjarsveit er með samning við félagsþjónustu Norðurþings.

Hlutverk málstjóra er m.a. að veita ráðgjöf, tryggja aðgang að mati og/eða greiningu á þörfum barns. Hann ber ábyrgð á gerð stuðningsáætlunar og stýrir stuðningsteymum. Í stuðningsteymi barns sitja fulltrúar þjónustuveitenda í máli barns auk foreldra og, eftir atvikum, barnið sjálft. Stuðningsteymið gerir skriflega áætlun fyrir barnið þar sem þjónusta sem veitt er í þágu farsældar þess er samþætt. Stuðningsteymið hefur reglubundna samvinnu um framkvæmd stuðningsáætlunar þann tíma sem áætlunin varir. Stuðningsáætlunin er endurmetin og endurnýjuð eftir því sem þörf krefur. Stuðningsteymi getur einnig lokað máli eða vísað til tengiliðar á fyrsta stigi ef og þegar viðunandi árangri er náð og ekki er talin þörf fyrir áframhaldandi þjónustu á öðru eða þriðja stigi. Áður en barn verður 18 ára skal stuðningsteymi gera áætlun þar sem fjallað er um samþættingu þjónustu fyrir barnið eftir að það nær fullorðinsaldri.

 Úrræðalisti Þingeyjarsveitar

Fyrsta stigs úrræðum/þjónustu er skipt í þrjú þrep. Hér er hægt að skoða þrepaskiptinguna: Fyrsta stigs úrræði: Þrepaskipting.

Úrræðalisti Þingeyjarsveitar hefur að geyma lista yfir helstu úrræði/þjónustu í skólum sveitarfélagsins. Einnig er bent á úrræði/þjónustu sem stendur börnum og foreldrum til boða utan skóla. Hér er hægt að nálgast úrræðalista Þingeyjarsveitar: Úrræðalisti Þingeyjarsveitar

Úrræðalistinn er stöðugt endurmetinn með tilliti til framþróunar og bættrar þjónustu til handa börnum og fjölskyldum þeirra.

Getum við bætt efni þessarar síðu?