Fara í efni

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar

70. fundur 11. desember 2025 kl. 13:00 - 14:25 í Þingey
Nefndarmenn
  • Gerður Sigtryggsdóttir
  • Knútur Emil Jónasson
  • Halldór Þorlákur Sigurðsson
  • Jóna Björg Hlöðversdóttir
  • Árni Pétur Hilmarsson
  • Ragnhildur Hólm Sigurðardóttir var fjarverandi en í staðinn sat fundinn Úlla Árdal
  • Eyþór Kári Ingólfsson
  • Arnór Benónýsson
  • Haraldur Bóasson
Starfsmenn
  • Margrét Hólm Valsdóttir
Fundargerð ritaði: Margrét Hólm Valsdóttir
Dagskrá
Oddviti setti fund og kannaði lögmæti fundar. Engar athugasemdir voru gerðar við fundarboð.
Einnig óskaði hann eftir að bæta eftirtöldum liðum með afbrigðum inn á dagskrá fundarins:
Liður 2 - Fundargerð 44. fundar skipulagsnefndar
- Samþykkt samhljóða
Liður 12 - Mýsköpun ehf. Boðun hluthafafundar.
- Samþykkt samhljóða.
Liður 13 - Þjónustustefna
- Samþykkt samhljóða.
Liður 17 - Engidalur 2 - umsókn um lögbýlisskráningu - skipulagsmál.
- Samþykkt samhljóða

1.Atvinnu- og nýsköpunarnefnd Þingeyjarsveit - 24

Málsnúmer 2512002FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur til staðfestingar fundargerð 24. fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar frá 8. desember. Fundargerðin er í tveimur liðum, engir liðir þarfnast afgreiðslu sveitarstjórnar.
Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina.

2.Skipulagsnefnd - 44

Málsnúmer 2512003FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur til staðfestingar fundargerð 44. fundar skipulagsnefndar sem haldinn var 10. desember. Fundargerðin er í átta liðum. Dagskrárlið nr. 7 er vísað til sveitarstjórnar og er það sérstakur liður hér á fundinum.
Knútur kynnti fundargerðina.

Til máls tóku: Jóna Björg og Eyþór Kári.

Sveitarstjórn tekur undir bókun skipulagsnefndar undir lið nr. 1 í fundargerð og gerir að sinni.
"Skipulagsnefnd gerir athugasemd við niðurfellingu umræddra vega af vegaskrá. Afmörkun þéttbýlanna í aðalskipulagi sýnir stefnu um frekari uppbyggingu á svæðinu og að viðkomandi byggð muni í framtíðinni uppfylla skilgreiningu skipulagslaga um þéttbýli sem er skv. 2. gr. skipulagslaga 28. staflið: "Þéttbýli: Þyrping húsa þar sem búa a.m.k. 50 manns og fjarlægð milli húsa fer að jafnaði ekki yfir 200 metra. Afmarka má þéttbýli með öðrum hætti í aðalskipulagi sveitarfélags."
Til vara mótmælir skipulagsnefnd því að taka við umræddum vegum í því ástandi sem þeir eru. Í bréfum vegna niðurfellingar segir að Vegagerðin hafi sinnt veghaldi þessara vega og fer nefndin fram á að ef komi til þess að sveitarfélagið taki við vegunum þá sjái Vegagerðin til þess að þeir séu lagaðir og þeim komið í gott ástand.
Sveitarfélagið óskar skýringa á því af hverju verið er að ganga í þessi mál á þessum tímapunkti þegar nýtt aðalskipulag er á lokametrunum þar sem afmörkunum þéttbýla er breytt."

3.Skýrsla sveitarstjóra

Málsnúmer 2303021Vakta málsnúmer

Skýrsla sveitarstjóra flutt munnlega og til kynningar.
Til máls tók: Knútur.

Gerður Sigtryggsdóttir sveitarstjóri gerði grein fyrir helstu störfum sínum síðustu vikur.

4.Fjárhagsáætlun 2026

Málsnúmer 2506018Vakta málsnúmer

Fjárhagsáætlun Þingeyjarsveitar fyrir árið 2026 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2027-2029 er lögð fram til síðari umræðu. Fjárhagsáætlunin er sett fram í samræmi við 62. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, fyrir A-hluta og samantekinn reikning fyrir A- og B-hluta.



Áætlunin var lögð fram til fyrri umræðu í sveitarstjórn þann 27. nóvember 2025.



Í A-hluta er aðalsjóður auk áhaldahúss og eignasjóðs. Í B-hluta eru veitustofnanir sveitarfélagsins, Leiguíbúðir Þingeyjarsveitar hses, Atvinnuefling Þingeyjarsveitar ehf ásamt Dvalarheimili aldraðra sf., sem kemur inn í reikningsskil sveitarfélagsins eftir hlutfallslegri ábyrgð. Áætlunin sýnir rekstraráætlun, áætlaðan efnahagsreikning og sjóðsstreymi fyrir sveitarfélagið og stofnanir þess.



Framlögð áætlun byggir á eftirfarandi meginforsendum sem samþykktar voru fundum sveitarstjórnar 25. september og 23. október sl.

Útsvarsprósenta er óbreytt milli ára eða 14,97% og hækkun útsvarstekna er áætluð 12%.

Álagningarhlutföll lóðarleigu og fráveitugjalda eru óbreytt milli ára en reglur um tekjuviðmið vegna afsláttar voru hækkuð til samræmis við almennar hækkanir eða um 3,4%. Vatnsgjald hækkar úr 0,17% í 0,19% en fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði voru lækkaðir á milli ára, úr 0,625% í 0,595%, aðrir flokkar fasteignaskatta haldast óbreyttir á milli ára. Sorphirðugjöld haldast óbreytt á milli ára.



Almennar gjaldskrár hækka um 3,4% en gjaldskrár sem snúa að barnafjölskyldum og viðkvæmum hópum hækka minna eða um 2,5%. Frístundastyrkur er óbreyttur á milli ára, 50 þúsund kr en hann var hækkaður úr 30 í 50 þúsund á síðasta ári.



Í fjárhagsáætlun vegna 2026 er lögð áhersla á lögbundna grunnþjónustu sveitarfélagsins en henni fylgir einnig áætlun um framkvæmdir næsta árs. Heildarupphæð framkvæmda á árinu 2026 er áætluð 312,3 m.kr. Fjárhagsáætlun fyrir yfirstandandi ár gerði ráð fyrir 262,1 m.kr. framkvæmdum. Skv. útgönguspá 2025 er áætlað að fjárfesting ársins 2025 endi í 182 m.kr..kr. Helsta skýring á því hve miklu munar á áætluðum fjárfestingum ársins og raunfjárfestingum er sú að framkvæmdir við leikskóla á Stórutjörnum ásamt þakviðgerð skólabyggingarinnar frestuðust og verða þær framkvæmdir stærstu einstöku framkvæmdir næsta árs. Meðal annarra framkvæmda má nefna endurnýjun á lögnum hitaveitu-, vatnsveitu-, og fráveitukerfa ásamt framkvæmdum við endurnýjun á kaldavatnslögn í Bjarnarflagi, framkvæmdir við stigaganga í Þingeyjarskóla, endurbætur á útisvæðum við skólabyggingar sveitarfélagsins, verkefni skv. umferðaröryggisáætlun sveitarfélagsins, áframhaldandi framkvæmdir við göngu- og hjólastíg í Mývatnssveit og hönnun á bílastæðum og gönguleiðum við Aldeyjarfoss.



Fjárhagsáætlun fyrir árið 2026 gerir ráð fyrir að rekstrartekjur Þingeyjarsveitar nemi 3.258 m.kr í A- og B- hluta, þar af eru rekstrartekjur A-hluta áætlaðar 3.039 m.kr.

Rekstrargjöld án fjármagnsliða og afskrifta eru áætluð 2.922 m.kr. en þar af eru rekstrargjöld í A-hluta 2.798 m.kr.

Áætlað er að rekstrarniðurstaða A- og B- hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði verði jákvæð um 335,5 m.kr. Rekstrarafgangur A og B hluta er áætlaður samtals 123,6 m.kr. Rekstrarhagnaður A- hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 240,9 m.kr. og rekstrarniðurstaða A-hluta sveitarsjóðs er áætluð 103,6 m.kr.



Eignir Þingeyjarsveitar eru áætlaðar í árslok 2026, 3.441 m.kr., þar af eru eignir A-hluta 2.715 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 1.942 m.kr. Þar af hjá A-hluta 1.570 m.kr. Eigið fé er áætlað 1.499 m.kr hjá A og B hluta og eiginfjárhlutfall 43,6%. Eigið fé A-hluta er áætlað 1.145 m.kr. og eiginfjárhlutfall 42,2%.

Áætlunin gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri A-hluta verði 229 m.kr. Veltufé frá rekstri samstæðunnar A- og B-hluta verði samtals 239 m.kr.



Skuldaviðmið Þingeyjarsveitar samkvæmt reglugerð 502/2012 verður 45,2% samkvæmt framlagðri fjárhagsáætlun.

Helstu niðurstöður áætlunar fyrir árin 2027-2029 í A og B hluta eru þær að áætlaðar rekstrartekjur fyrir árið 2027 eru 3.300 m.kr., fyrir árið 2028 3.418 m.kr. og fyrir árið 2029 3.509 m.kr. Rekstrarniðurstaða A og B hluta samtals er áætluð jákvæð fyrir árið 2027 um 86 m.kr., fyrir árið 2028 um 90 m.kr. og fyrir árið 2029 um 68 m.kr

Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri fyrir árið 2027 verði 266 m.kr., fyrir árið 2028 verði það 279 m.kr. og fyrir árið 2029 verði það 264 m.kr.



Sveitarfélagið stendur vel fjárhagslega, skuldaviðmið er 45,2% eins og áður segir og er það því vel undir opinberum viðmiðunarmörkum sem eru 150%.



Sveitarfélagið stendur vel hvað varðar önnur þau fjárhagslegu viðmið sem reglugerð 502/2012 gerir kröfu um.

Íbúum sveitarfélagsins heldur áfram að fjölga. Þann 8. desember voru þeir 1586 en voru 1.540 um síðustu áramót sem er fjölgun um 3%.

Til máls tóku: Eyþór Kári, Jóna Björg, Arnór, Gerður, Úlla, Árni Pétur og Knútur.

Sveitarstjórn samþykkir fjárhagsáætlun fyrir árið 2026 og næstu þrjú ár á eftir.

Samþykkt samhljóða.

5.Gjaldskrár 2026, síðari umræða.

Málsnúmer 2505090Vakta málsnúmer

Eftirtaldar gjaldskrár lagðar fram til síðari umræðu sveitarstjórnar:



Gjaldskrá gatnagerðargjalda ásamt gjaldskrá skipulags- og byggingafulltrúa 2026

Gjaldskrá Brunavarna Þingeyjarsveitar 2026

Gjaldskrá Flateyjarhafnar á Skjálfandaflóa 2026

Gjaldskrá fráveitugjalda 2026

Gjaldskrá vatnsveitugjalda 2026

Gjaldskrá Hitaveita Reykdæla, Stórutjörnum, kalt vatn og fráveita 2026

Gjaldskrá Hitaveitu Reykjahlíðar 2026

Gjaldskrá hunda- katta- og fiðurfjárhalds í Þingeyjarsveit 2026

Gjaldskrá - Hreinsun, tæming og eftirlit með rotþróm 2026

Gjaldskrá sorphirðugjalda 2026

Gjaldskrá lóðarleigu 2026
Til máls tók: Knútur.
Sveitarstjórn samþykkir framlagðar gjaldskrár og felur sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs að auglýsa þær í B-deild Stjórnartíðinda.

Samþykkt samhljóða.

6.Slökkvilið - bókun bæjarráðs Akureyrarbæjar vegna samtals um samstarf reksturs slökkviliðs

Málsnúmer 2511060Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur bókun frá bæjarráði Akureyrarbæjar vegna samtals við Akureyrarbæ um samstarf um rekstur slökkviliða
Til máls tóku: Árni Pétur, Jóna Björg, Arnór og Knútur.

Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að vinna málið áfram.

Samþykkt samhljóða.

7.Sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs

Málsnúmer 2512019Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur að staðfesta tímabundna ráðningu Rögnvaldar Harðarsonar í starf sviðsstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs. Rögnvaldur hefur undanfarin ár gegnt störfum byggingafulltrúa og verkefnastjóra framkvæmda hjá Þingeyjarsveit. Rögnvaldur er byggingafræðingur B.Sc. frá Vitus Bering í Danmörku og húsasmíðameistari, auk þess sem hann hefur löggildingu í gerð eignaskiptayfirlýsinga og merkjalýsinga. Hann hefur umfangsmikla reynslu af eftirliti með verklegum framkvæmdum í gegnum starf sitt sem sérfræðingur brunabótamats hjá HMS á árunum 2013-2023 ásamt mikilli þekkingu á opinberri stjórnsýslu. Einnig hefur Rögnvaldur starfað við hönnun, byggingastjórn og framleiðslu.

Rögnvaldur mun áfram sinna starfi byggingafulltrúa meðfram starfi sviðsstjóra.
Til máls tók: Knútur.

Sveitarstjórn samþykkir tímabundna ráðningu Rögnvaldar í starf sviðsstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs og felur sveitarstjóra að ganga frá ráðningu hans.

Samþykkt samhljóða.

8.Samgöngumál

Málsnúmer 2512018Vakta málsnúmer

Á dögunum lagði ríkistjórnin fram tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun 2026 -2040 ásamt fimm ára áætlun. Í þeirri tillögu sem liggur frammi er m.a. kynnt áætlun um vegaframkvæmdir í Þingeyjarsveit.
Til máls tóku: Eyþór Kári, Jóna Björg.

Sveitarstjórn fagnar þeim verkefnum í sveitarfélaginu sem eru á fyrsta framkvæmdatímabili nýrrar samgönguáætlunar, Bárðardalsvegur vestri og Norðausturvegur um Skjálfandafljót Sveitarstjórn treystir því að þessi verkefni komi til framkvæmda.
Sveitarstjórn vill einnig árétta mikilvægi annarra framkvæmda í sveitarfélaginu sem eru komin á tíma s.s. einbreið brú yfir Jökulsá á Fjöllum á hringvegi, og einbreið brú við Goðafoss, einnig á hringvegi og hvorutveggja eru framkvæmdir sem miklvægar eru fyrir almannaöryggi.

Samþykkt samhljóða.

9.ADHD samtökin - umsókn um styrk vegna fræðslu

Málsnúmer 2511058Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur styrkbeiðni frá ADHD samtökunum þar sem óskað er eftir stuðningi sveitarfélagsins, helst þannig að það myndi tryggja íbúum sveitarfélagsins eða starfsfólki þess viðeigandi fræðslu um ADHD á komandi ári. ADHD samtökin bjóða margskonar fræðslu, fyrir leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla, íþróttafélög, félagsmiðstöðvar, foreldra, almenning og starfsfólk og stjórnendur fyrirtækja og stofnanna og er eitt helsta markmið samtakanna að sem flestir hópar samfélagsins, fái notið þessarar fræðslu, ekki síst þeir hópar sem vinna með börnum. Með því móti er unnið gegn fordómum og lífsskilyrði og starfsumhverfi allra í sveitarfélaginu bætt.

Óskað er eftir styrk að upphæð kr. 100-500 þúsund sem nýttur yrði skv. nánara samkomulagi.
Til máls tóku: Árni Pétur og Gerður.

Sveitarstjórn sér sér ekki fært að verða við beiðninni að sinni.

Samþykkt samhljóða.

10.Mývatn og Laxá - endurskoðun stjórnunar- og verndaráætlunar verndarsvæðis

Málsnúmer 2512010Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur erindi frá Náttúruverndarstofnun þar sem tilkynnt er að hafin er endurskoðun stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir verndarsvæði Mývatns og Laxár. Endurskoðunin verður unnin í samstarfi við sveitarstjórn, hagsmunaaðila og umhverfisverndarsamtök á svæðinu auk stofnana sem starfa lögum samkvæmt á sviði náttúruverndar, vatnsverndar og veiðinýtingar sbr. lög nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár. Náttúruverndarstofnun óskar eftir tilnefningum í samráðshóp um verkefnið og skulu tilnefningar berast fyrir 15. janúar 2026.
Til máls tóku: Árni Pétur og Knútur.

Sveitarstjórn tekur undir eftirfarandi bókun skipulagsnefndar á fundi 10.12:
"Náttúruverndarstofnun hefur sent frá sér tillögu að samráðshóp og starfshóp um verkefnið og skulu tilnefningar berast eigi síðar en 15. janúar.
Skipulagsnefnd óskar eftir að þrír aðilar verði tilnefndir af hendi sveitarfélagsins. Skipulagsfulltrúi muni sitja sem starfsmaður sveitarfélagsins og tveir aðilar fyrir hönd Þingeyjarsveitar og sem sérfróðir aðilar um svæðið. Fulltrúar sveitarfélagsins eru tilbúnir að funda með stofnuninni um málið.
Í bréfi Náttúruverndarstofnunar kemur fram að Náttúruverndarstofnun greiði ekki fyrir setu í þessum tveimur hópum. Skipulagsnefnd bendir á að í 9. gr. laga um verndun Laxár og Mývatns kemur fram að kostnaður við framkvæmd laga þessara greiðist úr ríkissjóði. Í samræmi við það óskar sveitarfélagið leiðbeininga um hvert skuli sækja greiðslur vegna fundarsetu í starfshóp sem gert er ráð fyrir að fundi mánaðarlega á meðan á vinnunni stendur."

Í ljósi ábyrgðar sveitarfélagsins í málefnum Mývatns og Laxár tekur sveitarstjórn undir mikilvægi þess að auka vægi Þingeyjarsveitar í samráðshóp og starfshóp og kallar eftir fundi um skipulag vinnunnar. Sveitarstjóra er falið að óska eftir fundi við Náttúruverndarstofnunar um málið.

Samþykkt samhljóða.

11.Hálkuvarnir á þjóðvegum

Málsnúmer 2512020Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur afrit af erindi sem Ólafur Rúnar Ólafsson sendi til Vegagerðarinnar fyrir hönd fimm sveitarfélaga, Eyjafjarðarsveitar, Grýtubakkahrepps, Hörgársveitar, Svalbarðsstrandarhepps og Þingeyjarsveitar þar sem vakin er athygli á ábyrgð Vegagerðarinnar varðandi hálkuvarnir á vegum sem stofnuninni er falin ábyrgð á skv. lögum.
Til máls tóku: Knútur, Arnór, Jóna Björg og Knútur.

Vetrarþjónusta, þ.e. snjómokstur og hálkuvarnir hafa verið í samstarfi Vegagerðar og sveitarfélaga, s.k. helmingamokstur þar sem sveitarfélögin greiða 50% af kostnaði. Nú hefur Vegagerðin hafnað því að hálkuvarnir séu hluti vetrarþjónustu Vegagerðarinnar og séu því alfarið á ábyrgð sveitarfélaganna. Þessu mótmæla sveitarfélögin fimm.
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að fylgja málinu eftir.

Samþykkt samhljóða.

12.Mýsköpun ehf. - hluthafafundur

Málsnúmer 2512026Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur boð á hluthafafund Mýsköpunar ehf. sem haldinn verður fimmtudaginn 18. desember nk.
Til máls tók: Knútur.

Sveitarstjórn samþykkir tillögur stjórnar sbr. fundarboð og felur sveitarstjóra að fara með umboð sveitarfélagsins á fundinn.

Samþykkt samhljóða.

13.Þjónustustefna

Málsnúmer 2512027Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur til fyrri umræðu þjónustustefna sveitarfélagsins skv. 130. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Sveitarstjórn felur sviðsstjóra fjármála- og stjórnýslusviðs að uppfæra þjónustustefnu sveitarfélagsins m.t.t. breytinga sem orðið hafa og setja hana í kynningu á heimasíðu þar sem hægt verður að gera athugasemdir og senda inn breytingar fyrir síðari umræðu.

Samþykkt samhljóða.

14.Áramótaflugeldasýningar í Mývatnssveit - ósk um umsögn

Málsnúmer 2511059Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur umsagnarbeiðni frá Björgunarsveitinni Stefáni vegna árlegrar áramótaflugeldasýningar í Mývatnssveit.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við umbeðið leyfi fyrir flugeldasýningu í Mývatnssveit.

Samþykkt samhljóða.

15.Heilsueflandi samfélag - foreldramorgnar í Ýdölum - ósk um samstarf

Málsnúmer 2502035Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur beiðni frá foreldrafélagi Barnaborgar um endurgjaldslaus afnot af salnum í Ýdölum einn sunnudagsmorgun í mánuði í samstarfi við Heilsueflandi samfélag.
Sveitarstjórn samþykkir að veita foreldrafélagi Barnarborgar endurgjaldslaus afnot af salnum í Ýdölum einu sinni í mánuði.

Samþykkt samhljóða.

16.Innviðaráðuneytið - boð um þátttöku í samráði - endurskoðun stjórnvaldsfyrirmæla um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga

Málsnúmer 2512011Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur boð um þátttöku í samráði, endurskoðun stjórnvaldsfyrirmæla um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga eftir setningu laga nr.56/2025. Umsagnarfrestur er til og með 16. desember n.k.
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að vakta málið og senda inn umsögn ef ástæða er til.

Samþykkt samhljóða.

17.Engidalur 2 - umsókn um lögbýlisskráningu - skipulagsmál

Málsnúmer 2512014Vakta málsnúmer

Á 44. fundi skipulagsnefndar var eftirfarandi bókað og samþykkt varðandi umsókn Elíasar Wium Guðmundssonar um lögbýlisrétt á jörðinni Engidalur 2:

"Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við að Engidalur 2 verði að lögbýli. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að fela skipulagsfulltrúa að skila inn umsögn sveitarfélagsins til ráðuneytisins. Skipulagsnefnd telur jörðina hafa það landrými og aðstöðu að unnt sé að stunda þar fyrirhugaða starfsemi og uppfylla þar með skilyrði sem sett eru fram í jarðalögum nr. 81/2004. Skipulagsnefnd bendir umsækjanda á að kynna þurfi skógræktaráform sveitarfélaginu og sækja um framkvæmdaleyfi."
Sveitarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulagsnefndar og felur skipulagsfulltrúa að skila inn umsögn sveitarfélagsins til ráðuneytisins.

Samþykkt samhljóða.

18.Stafrænt samstarf 2026 - fjármögnun og verkefnaáætlun

Málsnúmer 2512005Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur til kynningar erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga er varðar stafrænt samstarf 2026. Meðfylgjandi er verkefnaáætlun og kostnaðarskipting.

19.Hverfjall - stjórnunar- og verndaráætlun tilbúin til staðfestingar

Málsnúmer 2512013Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur til kynningar stjórnunar- og verndaráætlun Hverfjalls sem tilbúin er til staðfestingar.

20.Tónkvíslin - umsagnarbeiðni vegna tækifærisleyfis 2025

Málsnúmer 2510039Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur til kynningar jákvæð umsögn sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs vegna umsóknar Framhaldsskólans á Laugum um tækifærisleyfi vegna Tónkvíslarinnar á Laugum sem haldin var í lok október.
Til máls tók: Eyþór.

21.Brattahlíð Iceland Adventure ehf - gisting Helluhraun 5 - umsagnarbeiðni rekstrarleyfis

Málsnúmer 2510061Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur til kynningar neikvæð umsögn sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs vegna umsóknar Brattahlíðar Iceland Adventure ehf. vegna gistileyfis að Helluhrauni 5, Reykjahlíð.

22.Aurora Farm ehf - umsagnarbeiðni gistileyfi

Málsnúmer 2510016Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur til kynningar jákvæð umsögn sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs vegna umsóknar Aurora Farm ehf. um gistileyfi að Stóru - Laugum.

23.Samband íslenskra sveitarfélaga - Fundargerðir

Málsnúmer 2306029Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur til kynningar fundargerð 989. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 14. nóvember s.l.

24.Heilbrigðisnefnd Norðurlandssvæðis eystra - fundargerðir

Málsnúmer 2307011Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur til kynningar fundargerð 244. fundar stjórnar Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra frá 26. nóvember s.l.
Fylgiskjöl:

25.Veiðifélag Fnjóskár - aðalfundur 2024

Málsnúmer 2511029Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur til kynningar fundargerð aðalfundar stjórnar Veiðifélags Fnjóskár frá 26. nóvember s.l.

26.Menningarmiðstöð Þingeyinga - fundargerðir stjórnar

Málsnúmer 2303041Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur til kynninngar fundargerð stjórnar Menningarmiðstöðvar Þingeyinga frá 3. desember.
Í lok fundar þakkaði oddviti f.h. sveitarstjórnar starfsfólki skrifstofu Þingeyjarsveitar og öllum þeim sem komu að vinnu við fjárhagsáætlun. Einnig þakkaði oddviti starfsfólki fyrir vel unnin störf á árinu og óskaði þeim gleðilegra jóla.

Fundi slitið - kl. 14:25.

Getum við bætt efni þessarar síðu?