Sumarið lætur nú loksins sjá sig af fullum krafti í Þingeyjarsveit. Við vonum að íbúar og gestir geti notið blíðunnar, hvort sem það er í garðvinnu, úti í göngu eða við önnur vorstörf.
Fullt var út úr húsi á íbúafundi í Ýdölum í gær og fjöldi fólks fylgdist með fundinum í streymi. Hvetjum þá sem ekki sáu sér fært að mæta til þess að horfa á upptöku af þessum fræðandi fundi.
Þingeyjarsveit hefur fest kaup á snjótroðara til að nota á skíðasvæðinu í Kröflu. Íþróttafélagið Mývetningur mun hafa umsjón með notkun tækisins, en félagið hefur unnið gríðarlega mikilvægt starf síðustu ár við að byggja upp öflugt skíðastarf á svæðinu.
Sveitarstjóri og oddviti fóru til Reykjavíkur til að hitta ráðamenn og ræða hagsmunamál Þingeyjarsveitar. Má þar nefna samgönguumbætur, kostnað við snjómokstur og réttlátari skiptingu skatttekna af orkuvinnslu.