Af nógu að taka hjá Skipulagsnefnd
Það er alltaf líf og fjör í Þingey, skrifstofu sveitarfélagsins. Ásamt hinu hefðbundna daglega starfi er mikill gestagangur, má til dæmis nefna reglulega fundi hjá nefndum sveitarfélagsins sem glæða lífi í húsið og þá líta líka íbúar við á skrifstofuna, ýmist til að sækja upplýsingar eða til að spjalla um daginn og veginn. Við fögnum slíkum heimsóknum því þær efla svo sannarlega tengsl milli íbúa og stjórnenda.
Skipulagsnefnd fundaði í hitamollunni fyrir helgi. Af nógu er að taka hjá þeirri nefnd því aðalskipulagsvinna er í fullum gangi. Tillaga að aðalskipulagi var send til yfirferðar til Skipulagsstofnunar 19. febrúar síðastliðinn. Athugasemdir Skipulagsstofnunar bárust 3. apríl og 13. maí og nefndin vinnur nú að yfirferð á þeim athugasemdum. Að þeirri vinnu lokinni verður tillagan auglýst á ný.
Skipulagsnefnd vill hvetja íbúa Þingeyjarsveitar til að kynna sér vel skipulagsgáttina, þar sem öll mál Þingeyjarsveitar eru birt ásamt því að gáttin er farvegur athugasemda. Farið er inn á vefinn https://www.skipulagsgatt.is/ og þægilegt er að skoða þar kortasjá og finni viðkomandi svæði, til dæmis Aðalskipulag Þingeyjarsveitar. Þarna er m.a hægt að vakta mál, og fá þannig tilkynningar ef einhver framvinda verður. Meira um notkun á Skipulagsgátt er að finna undir spurt og svarað, sjá: https://www.skipulagsgatt.is/faq?name=Faq