Um snjómokstur

Kæru sveitungar.

Nú er kominn vetur, ótrúlegt en satt. Þingeyjarsveit lætur eins og undanfarin ár moka snjó af heimreiðum í sveitarfélaginu sem greitt er fyrir úr sveitarsjóði, okkar sameiginlega sjóði. Um þennan mokstur gilda reglur (sjá hér) sem sveitarstjórn hefur samþykkt og sem við ættum öll að kynna okkur. Mokað er að hámarki tvisvar í viku, þó með þeim fyrirvara að veður leyfi. Eins og við vitum eru vegalengdir miklar innan sveitarinnar og aðstæður geta verið mjög mismunandi á milli svæða. Verktökum er ætlað að gæta að hagkvæmni við moksturinn og því þurfa þeir að moka heimreiðar í þeirri röð að tími þeirra nýtist sem best. Okkur má því öllum vera ljóst að ekki er hægt að hefja mokstur hjá okkur öllum á sama tíma. Við þurfum stundum að brúka þolinmæðina og doka aðeins eftir mokstri. Við þurfum sjálf að fylgjast með veðurspá og hugsa um þegar ástæða er til að leggja bílnum hinumegin við staðinn þar sem skaflinn kemur jafnan. Rétt er líka að við höfum í huga að heimreiðamoksturinn nær ekki til bílaplana heim við hús, þau þurfum við að moka sjálf eða láta moka á okkar kostnað. Að sjálfsögðu getum við líka mokað okkar heimreiðar eða látið moka þær eins oft og við viljum og greitt fyrir það sjálf.

Við getum haft samband við Hermann umsjónarmann snjómoksturs í síma 8583322 eða beint við okkar verktaka þegar okkur þykir þurfa. Hermann er vænsti maður, hjálpsamur og skilningsríkur. Hann hefur góða heyrn og ágætan skilning á töluðu máli. Það sama á við um verktakana sem sjá um moksturinn, þetta eru allt saman hinir ágætustu menn og allir af vilja gerðir að veita okkur eins góða þjónustu og kostur er. Það er því yfirleitt alveg óþarft að hringja í sama manninn fimm sinnum sama morguninn út af sama snjónum. Jafnt þó snjórinn sé bæði hvítur og kaldur.

Eða eins og maðurinn sagði, „þetta er ekki búið og við erum öll í þessu saman“. Ást og friður.