Fara í efni

„Við ætlum að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann“

Farsældarráð Norðurlands eystra var stofnað við hátíðlega athöfn á Akureyri 30. október. Markmiðið með ráðinu er að börn og foreldrar geti fengið aðgang að samþættri þjónustu við hæfi, án hindrana, segir í frétt á vef Stjórnarráðsins. 

„Farsældarráð Norðurlands eystra er samráðsvettvangur sveitarfélaga og þjónustuaðila sem starfa í þágu barna á svæðinu,“ segir Hjördís Albertsdóttir, en hún situr í ráðinu fyrir hönd Þingeyjarsveitar. „Ráðið styður við stefnumótun og samhæfingu þjónustu í samræmi við farsældarlög og leggur fram tillögur að sameiginlegum áherslum. Ráðið setur fram fjögurra ára aðgerðaáætlun sem lögð er fyrir sveitarstjórnir og viðeigandi stjórnvöld/yfirstjórn til samþykktar.“

Frá stofnun farsældarráðs í Hofi 30. október. Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, flutti ávarp í tilefni af viðburðinum að viðstöddum bæjar- og sveitarstjórum, stjórnendum ríkisstofnana og annarra lykilþjónustuveitenda í málefnum barna í landshlutanum. Mynd: vefur Stjórnarráðsins 

Fjölmennt ráð úr ýmsum áttum

Í farsældarráðinu situr einn fulltrúi frá hverju sveitarfélagi landshlutans, en þau eru 11 talsins (Akureyrarbær, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Fjallabyggð, Grýtubakkahreppur, Hörgársveit, Langanesbyggð, Norðurþing, Svalbarðsstrandarhreppur og Þingeyjarsveit). Einn fulltrúi er í ráðinu frá HSN, einn frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra, framhaldsskólarnir eiga einn fulltrúa og svo eru einnig fulltrúar frá sjúkrahúsinu á Akureyri og svæðisstöð íþróttafélaga ÍSÍ og UMFÍ. Einn fulltrúi er úr ungmennaráði og tveir úr foreldraráðum af svæðinu. 

„Við ætlum að hlusta betur – bæði hvert á annað og ekki síst á börnin sjálf,“ sagði Þorleifur Kr. Níelsson, verkefnastjóri Farsældarráðs Norðurlands eystra, í ávarpi sínu við stofnun ráðsins, sem er ætlað að samþætta. „Við ætlum að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann.“

Farsældarráðin byggja á samningi mennta- og barnamálaráðuneytisins við sjö landshlutasamtök sveitarfélaga sem undirritaður var í október í fyrra. Með honum skuldbundu öll sveitarfélög landsins sig til þess að hefja vinnu við að hrinda 5. grein laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna í framkvæmd. Vinna að stofnun farsældarráða stendur yfir í öðrum landshlutasamtökum. Markmiðið er að börn og foreldrar geti fengið aðgang að samþættri þjónustu við hæfi, án hindrana og markar stofnun ráðanna mikilvægan áfanga í innleiðingu laganna.

Getum við bætt efni þessarar síðu?