Verk eftir nemendur í Þingeyjarskóla á Listasafninu á Akureyri
Samsýningin Viðbragð verður opnuð á Listasafninu á Akureyri í kvöld, fimmtudaginn 27. nóvember kl. 20.00, en á meðal listamanna sem taka þátt í sýningunni eru sex krakkar úr Þingeyjarskóla. Þau taka þátt ásamt listamanninum Hrafnkeli Sigurðssyni, sem hefur verið í listamannsdvöl í Mývatnssveit á vegum rannsóknarseturs HÍ í Þingeyjarsveit.
Í tengslum við listamannsdvölina var ósk um tengjast samfélaginu. Það vildi svo vel til að sjónlistakennari Þingeyjarskóla, Kristrún Ýr Óskarsdóttir, var að kenna valáfanga fyrir 8-10. bekk í skúlptúragerð, sem hentaði frábærlega enda Hrafnkell að vinna með skúlptúra. Það eru sex nemendur í áfanganum og þau tóku vel í samstarfið með Hrafnkeli, en það eru þau Ellý Hjaltalín Hayhurst, Noah Hjaltalín Hayhurst, Bjartur Ingi Gunnarsson, Hildur Ósk Gunnarsdóttir, Þór Sæmunsson og Hrefna Bragadóttir.

Sköpuðu fjallagrös úr rusli
„Nemendur fengu fræðslu um fjölbreytt listafólk og efnivið, og unnum við með fjallagrös sem þema, en þemað kom frá Hrafnkeli,“ segir Kristrún Ýr. „Krakkarnir rannsökuðu form og eiginleika plöntunnar, gerðu skissur, meðal annars stórar skissur í líkamsstærð, og þróuðu út frá þeim hugmyndir að eigin skúlptúrum. Að því loknu hófu þau söfnun á rusli úr nærumhverfinu og heiman að, sem þau notuðu í skúlptúrana.“
„Hrafnkell heimsótti nemendur föstudaginn 14. nóvember og fylgdist með þeim vinna að verkunum. Hann var afar hrifinn af hugmyndaflugi og vinnusemi krakkanna,“ segir Kristrún Ýr. „Um síðustu helgi heimsóttu nemendur Hrafnkel á Skútustaði bæði á föstudegi og laugardegi, þar sem þau kláruðu skúlptúrana með góðri aðstoð. Samstarfið gekk afar vel og eru bæði nemendur og kennari þakklát fyrir stuðning, aðstoð og áhuga allra sem komu að verkefninu.“

Sýnishorn af skúlptúrum ungu listamannana. Myndir með umfjöllun: Kristrún Ýr
Á maður að fara í betri fötin fyrir opnunina?
„Nemendur og fjölskyldur þeirra, ásamt starfsfólki skólans, hlakka mikið til opnunar sýningarinnar í kvöld. Nemendur eru að velta ýmsu fyrir sér, til dæmis hvort maður eigi að mæta „fínn“ á slíkar sýningaropnanir! Ég gæti ekki verið ánægðari með þennan frábæra hóp af listafólki sem á framtíðina fyrir sér í alls kyns sköpunarverkum. Ég er að springa úr stolti,“ segir Kristrún Ýr, sjónlistakennari í Þingeyjarskóla.
Verk krakkanna verða til sýnis á safninu til 8. febrúar 2026, en fjöldi listamanna taka þátt í sýningunni, bæði íslenskir og erlendir. Viðbragð er hluti af þverfaglegu samvinnuverkefni sem rannsóknasetur Háskóla Íslands í Þingeyjarsveit stendur að í samstarfi við aðra fræðimenn, listamenn og aðgerðasinna og er ætlað að beina athygli að mikilvægi skapandi athafna í heimi sem stendur frammi fyrir djúpstæðum umbreytingum. HÉR má lesa meira um samvinnuverkefnið.