Fara í efni

Vandlega farið yfir byggðamálin í Skjólbrekku í vikunni

Byggðaráðstefnan 2025 var haldin í Skjólbrekku síðastliðinn þriðjudag, 4. nóvember. Knútur Emil Jónasson oddviti og Gerður Sigtryggsdóttir sveitarstjóri Þingeyjarsveitar sátu ráðstefnuna sem haldin var af Byggðstofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, SSNE og Þingeyjarsveit. Þema ráðstefnunnar í ár var 'Félagslegur fjölbreytileiki samfélaga, jafnvægi, áskoranir eða vannýtt sóknarfæri?'

  • HÉR er hlekkur á dagskrá ráðstefnunnar.
  • HÉR er hlekkur á upptöku af ráðstefnunni.

Gestir fengu sýnishorn af þingeyskum mannamótum

Móttaka fyrir ráðstefnugesti var haldin í Seli í boði Þingeyjarsveitar þar sem boðið var upp á „eldgos“ undir ljúfum tónum oddvita. Sveitarstjóri sagði gestum frá sveitarfélaginu, helstu áskorunum í rekstri ásamt þeim tækifærum sem felast í náttúruauðlindum, náttúruperlum og mannauði sveitarfélagsins. Oddviti sló á létta strengi og lauk dagskránni með því að efna til fjöldasöngs á „Vel er mætt til vinafunda“ eins og tíðkast á þingeyskum mannamótum.

Frá móttökunni í Seli. Knútur oddviti tók lagið, en Gerður sveitarstjóri ávarpaði gesti. 

Kaffikönnurnar voru varla farnar að kólna, þegar næsti viðburður var haldinn, en miðvikudaginn og fimmtudaginn 4. og 5. nóvember var haustþing landshlutasamtakanna haldið í Skjólbrekku. Sveitarstjóri fékk tækifæri til að ávarpa gesti þar líka, en fulltrúar landshlutasamtaka allstaðar að af landinu og starfsfólk Byggðastofnunar var þar samankomið. Á haustþinginu var meðal annas farið yfir Grænbók um byggðamál, framtíðarsýn og lykilviðfangsefni, í erindum og vinnustofum.

Einnig var boðið í vettvangsferð til þess að skoða MýSköpun, Jarðböðin og Gíg. Arnheiður Rán Almarsdóttir hjá SSNE lóðsaði hópinn um svæðið, en hún segir að mikil ánægja hafi verið með heimsóknirnar og gestirnir spenntir fyrir næstu verkefnum hjá MýSköpun og Jarðböðunum sem munu stækka á næsta ári. Einnig var fólk mjög hrifið af nýlegri upplifunarsýningu um náttúru Mývatns, Laxár og norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs í gestastofunni í Gíg. 

Allt til alls fyrir ráðstefnu- og fundarhald

„Aðstaða til ráðstefnuhalds og fundarhalds á stórum skala er til fyrirmyndar í Skjólbrekku og Seli,“ segir Gerður Sigtryggsdóttir sveitarstjóri, en fundargestir fengu góðar móttökur á Sel-Hótel í hádegisverð og ljóst er að það eru mikil tækifæri fyrir svæðið, að taka á móti stórum hópum til fundahalda.

Getum við bætt efni þessarar síðu?