Umhverfis- og lýðheilsuþing í Stórutjarnaskóla

Umhverfis- og lýðheilsuþing Stórutjarnaskóla 2023 var haldið í gær þann 21. mars. Dagskrá þingsins var afar áhugaverð og metnaðarfull. Á þinginu kynntu nemendur verkefni sem þau hafa unnið að í vetur. Þar má nefna fatakönnun nemenda þar sem þau skráðu notkun á fötum sem þau áttu og kom í ljós að þau notuðu rúmlega helming af peysum og bolum sem voru í skápunum en um 70% af buxum. Einnig sögðu þau frá fatamarkaði sem þau héldu fyrir jólin þar sem þau komu með notuð föt sem voru orðin of lítil eða hentuðu ekki og seldu á markaðinum. Vakti þessi markaður mikla lukku og verður hann haldin aftur að ári og hvöttu krakkarnir gesti þingsins til að safna fötum yfir árið og gefa á næsta markað sem haldinn verður í desember 2023.

Sóley Björk Stefánsdóttir frá Rauða krossinum kom og sagði frá fatasöfnun Rauða krossins sem fram fer um allt land. Á hverju ári berast um 2.500-3.000 tonn af textíl til Rauða krossins. Af því nær Rauði krossinn að flokka um það bil 350-400 tonn eða um 12% af því sem berst. Það sem er flokkað er notað í neyðaraðstoð og selt í Rauða kross búðunum. Salan í verslununum gefur um 70-80 milljónir á ári og er hagnaðurinn notaður í neyðaraðstoð innanlands og erlendis.

Það sem ekki næst að flokka hér á landi er selt til Þýskalands þar sem það er flokkað og er 60% af því sem þangað fer endurnotað sem föt, 9% er ónothæft og er hent eða brennt, 31% er tætt niður og notað í húsgögn, sófa, bílstóla, dýnur, hægindastóla og fl.

Nemendur sögðu frá samstarfi við bændur á Björgum í Útkinn en þar féllu stórar aurskriður í október 2021 og var fjallið fyrir ofan bæinn eitt stórt svöðusár. Sl. haust fór hópur úr skólanum og aðstoðaði bændur á Björgum við að sá og bera í sárin í fjallinu þar sem skriðan féll. Bæði krakkarnir og bændur á Björgum voru afar ánægðir með samstarfið og í þakklætisskyni færði Jóna Björg Hlöðversdóttir ferðasjóði 10. bekkjar gjöf sem mun eflaust nýtast vel í næstu vorferð.

Að lokum kom Benjamín Davíðsson frá Skógræktinni og var með fróðlegt erindi um tré og trjárækt. Hann sagði einnig frá aldursgreiningu trjáa og hvernig árhringir myndast. Benjamín hafði með í farteskinu þversnið af trjábolum og fengu gestir þingsins að æfa sig í að aldursgreina tré. Hann sagði líka frá frætínslu og hafði meðferðis fræ sem gestir fengu að skoða og handfjatla.

Í tilefni umhverfis- og lýðheilsuþingsins veittu fulltrúar sveitarfélagsins Þingeyjarsveitar Stórutjarnaskóla umverfisviðurkenningu sveitarfélagsins. Umhverfisnefnd gerir tillögu um úthlutun umhverfisverðlauna og í umsögn hennar segir: „Nærumhverfi skólans er vel við haldið og ásýnd staðarins til fyrirmyndar. Skipulag lóðarinnar ber þess merki að við hönnun hennar var lögð alúð rétt eins og við hönnun skólans. Saman skapar þetta fallega og snyrtilega heild sem umhverfisnefnd telur fulla ástæðu til að verðlauna.“

Sveitarstjórn sendir Stórutjarnaskóla kveðju og hamingjuóskir með verðskuldaða viðurkenningu. Birna Davíðsdóttir skólastjóri tók við viðurkenningunni fyrir hönd skólans.

Síðast en ekki síst voru nemendur með tónlistaratriði og boðið var upp á veitingar.

Hér má sjá myndir frá deginum.