Tilkynning til íbúa vegna COVID-19

Kæru íbúar

Síðasta vika var óneitanlega sérstök fyrir okkur öll í kjölfar samkomubannsins sem sett var á s.l. mánudag til að hefta útbreiðslu COVID-19. Sama má segja um starfsemi sveitarfélagsins sem hefur verið óhefðbundin og takmörkuð. Allir hafa lagst á eitt við að bregðast sem best við þessum sérstöku aðstæðum og vil ég þakka starfsfólki sérstaklega fyrir en það er ómetanlegt á svona tímum að finna fyrir slíkum samhug eins og raun ber vitni því það léttir svo margt.

Mikið hefur mætt á ákveðnum sveitarfélögum þar sem útbreiðsla smita hefur leitt til þess að fjöldi íbúa og jafnvel heilu bæjarfélögin eru í sóttkví og þannig lamað samfélagið. Staðan er þó léttari hjá okkur enn sem komið er. Óvissan er mikil og þó við vonum það besta þá vitum við ekki hvernig eða hversu mikil útbreiðsla veirunnar verður. Þess vegna biðla ég til ykkar allra að fylgja í hvívetna fyrirmælum, sóttvarnalæknis, landlæknis og almannavarna ríkislögreglustjóra.

Breytt starfsemi sveitarfélagsins miðast að því að fara í einu og öllu að fyrirmælum yfirvalda. Í síðustu viku lokuðum við öllum bókasöfnunum okkar. Þegar var búið að fella niður félagsstarf eldri borgara.

Heimaþjónustan hefur verið starfrækt og starfsfólk fylgir áherslum sýkingavarna samkvæmt leiðbeiningum landlæknis. Einnig auglýstum við aðstoð við innkaup, að sveitarfélagið sæi um að sækja vörur í matvöruverslanir, fyrir einstaklinga sem tilheyra viðkvæmum hópum og geta ekki nálgast þær sjálfir sökum faraldursins.

Skólahald í grunn- og leikskólum í síðustu viku var takmarkað og með styttri opnun þar sem reynt var  að fylgja fyrirmælum samkomubannsins eftir bestu getu, hvað varðar fjölda nemenda í hóp og takmörkun á blöndun. Einnig voru öll þrif aukin til muna ásamt sérstakri sótthreinsun. Þessar aðgerðir auka allt álag á starfsfólk og hafa óneitanlega áhrif á nemendur. Viðbragðsteymið fundar reglulega með skólastjórnendum og staðan er metin daglega þar sem aðstæður breytast hratt. Þegar hefur verið tekin ákvörðun um að fella niður skólahald í grunn- og leikskólum sveitarfélagsins mánudaginn 23. mars þar sem staðan verður metin og ákvörðun tekin um framhaldið.

Skrifstofa sveitarfélagsins hefur verið lokuð almenningi en starfsemi verið óbreytt að öðru leyti. Íbúar og aðrir hafa haft samband í gegnum síma og tölvupóst og nú eru allir fundir fjarfundir. Starfsfólki hefur verið skipt upp í tvo hópa, meðan annar hópurinn mætir á vinnustað til starfa þá vinnur hinn hópurinn heimavið með fjarvinnslu. Er þetta liður í að reyna að tryggja órofna starfsemi skrifstofunnar.

Næsti sveitarstjórnarfundur verður haldinn fimmtudaginn 26. mars og verður hann fjarfundur.

Nú hefur heilbrigðisráðherra boðað hert samkomubann og frekari aðgerðir í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Þar er m.a. farið fram á lokun samkomustaða og starfsemi vegna sérstakrar smithættu, eins og á sundlaugum og líkamsræktarstöðvum.

Í ljósi þessa munum við loka Íþróttamiðstöðinni á Laugum, sundlaug og líkamsræktarsal, frá og með þriðjudeginum 24. mars ótímabundið. Við
viljum hvetja íbúa til þess að stunda hreyfingu og útiveru eina og sér eða í fámennum hópum eins og hægt er.

Eins og komið hefur í ljós getur allt breyst á stuttum tíma og þess vegna er staðan metin og tekin daglega. Allar tilkynningar um breytingar verða birtar á heimasíðu sveitarfélagsins og íbúar hvattir til þess að fylgjast vel með.

Stöndum áfram saman, tökumst á við þetta stóra verkefni og munum að við erum öll almannavarnir.

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.