Þingeyingur.is

Samstarfsnefnd sem kannar möguleika á sameiningu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar hefur sett heimasíðu verkefnisins í loftið en hana er að finna á slóðinni www.thingeyingur.is.  Þar er að finna helstu upplýsingar fyrir íbúa sveitarfélaganna og aðra áhugasama um verkefnið.

Samstarfsnefnd sveitarfélaganna undirbýr tillögu að sameiningu sveitarfélaganna Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar til afgreiðslu sveitarstjórna og í kjölfarið atkvæðagreiðslu meðal íbúa í samræmi við 119. gr. sveitarstjórnarlaga. Stefnt er að því að atkvæðagreiðslan á meðal íbúa fari fram í mars 2021. Eftir næstu áramót verður boðað til íbúafunda en mikil áhersla verður á íbúasamráð í ferlinu.

Fram kemur á heimasíðunni að markmið  samstarfsnefndarinnar er að draga upp skýra og hlutlausa mynd af því hvernig sameinað sveitarfélag gæti litið út og draga fram kosti og galla sameiningar til að auðvelda kjósendum að taka afstöðu til spurningarinnar um sameiningu. Hægt er að senda inn fyrirspurnir til samstarfsnefndarinnar í gegnum heimasíðuna.

Samstarfsnefndin hefur jafnframt samþykkt auðkennismerki Þingeyings.

Geimstofan sá um hönnunina en merkið myndar stafinn Þ og er tenging við náttúruna, línur mynda foss og sólarupprás speglast í vatni. Litir eru tenging í sveitarfélögin og náttúruna.