Sundlaugin á Laugum opnar

Sundlaugin á Laugum opnar líkt og aðrar almenningssundlaugar á Íslandi mánudaginn 18. maí nk. Sem kunnugt er hafa sundlaugar og líkamsræktarstöðvar landsins verið lokaðar frá 24. mars sl. vegna COVID-19. Skv. tilmælum yfirvalda verða líkamsræktir opnaðar viku síðar eða mánudaginn 25. mars nk.

Verður sundlaugin opnuð á venjulegum tíma skv. vetraropnun kl. 07:30 og hlökkum við mikið til að taka á móti ykkur. Fyrir utan líkamsrækt er flest sem áður en hugað skal að hreinlæti og sóttvörnum vitandi um þær takmarkanir sem í gildi eru. Þannig er einungis heimilt að vera með ½ gestafjölda sem sundlaugar mega öllu jafna taka á móti hverju sinni uns annað verður ákveðið.

Á sund- og baðstöðum er 2ja metra reglan um nándarmörk valkvæð en gestir beðnir um að virða regluna eins og við verður komið, einkum á svæðum eins og í búningsklefum og pottum. Í samræmi við leiðbeiningar almannavarna verða hárþurrkur og sólbekkir ekki í notkun.

Við opnun sundlaugarinnar verður hvorugur heitu pottanna opinn. Annar gengur í gegnum miklar endurbætur og miðast opnun hans við júnímánuð miðjan, hinn þarfnast viðgerðar sem vonandi verður hægt að ráðast í þegar í næstu viku. Að öðru leyti er allt klárt í sundlauginni okkar – verið öll hjartanlega velkomin!

-Starfsfólk Íþróttamiðstöðvar