Stóraukin framleiðsla af Spirulina

Ragnheiður Jóna sveitarstjóri heimsótti framsækið fyrirtæki í heimabyggð í síðustu viku. Mýsköpun var stofnað árið 2013 og var yfirlýst markmið félagsins að einangra, greina og ákvarða ræktunarskilyrði örþörunga úr Mývatni með framleiðslu og sölu í huga. Árið 2018 tókst að finna og einangra tvo örþörunga til manneldis úr sýnum sem tekin voru í Mývatni, Spirulina og Chlorella. Smám saman hefur framleiðslan og fyrirtækið stækkað og dafnað.
 
Nú er nýr búnaður fyrir örþörungaframleiðslu kominn í hús. Nýi búnaðurinn, sem var fenginn frá Hollandi, mun stórauka framleiðslu Mýsköpunar af spirulinu. 1800 lítrar af lífmassa munu flæða um glerhólkana þar sem spirulina félagsins mun vaxa með ljóstillífun.
Hjá Mýsköpun starfa nú þrír starfsmenn, þær Dagbjört Inga Hafliðadóttir, Júlía Katrín Björke og Lucie Tavan sem tóku afar vel á móti sveitarstjóra og sýndu henni fyrirtækið, aðstöðuna og nýja tækjabúnaðinn. 
Mýsköpun stefnir að stækkun í náinni framtíð til að auka framleiðsluna enn frekar sem er afar jákvætt fyrir nærsamfélagið og sveitarfélagið allt.  
 
Við hvetjum ykkur til að kynna ykkur starfsemi Mýsköpunar og öll þau spennandi verkefni sem þar eru á prjónunum.