Fara í efni

Stígandi gangur í stígagerð

Með hækkandi sól fara framkvæmdir líka á fullt! Í fjárhagsáætlun ársins er gert ráð fyrir um 300 milljónum í framkvæmdir, eru það bæði viðhaldsframkvæmdir og nýframkvæmdir. Eitt af stóru verkefnum þessa árs er áframhaldandi vinna við göngu- og hjólreiðastíg í Mývatnssveit. Áætlað er að heildarframkvæmd ársins með framlagi Vegagerðarinnar verði 160 milljónir á árinu og er áætlað að tengja saman Reykjahlíðarþorp og Skútustaði.

Það er allt á fullu þessa dagana við stígavinnuna við Skútustaði og tilhlökkunin við að klára tenginguna mikil. Við framkvæmdirnar við Skútustaði er líka sett niður ný stofnlögn fyrir hitaveituna. Auk þess að klára að leggja stíginn að Gíg á árinu munu þrjár brýr verða settar upp á þessari leið enda fékkst styrkur fyrir því úr Framkvæmdastjóði ferðamannastaða nú nýverið;

Göngu- og hjólreiðarstígur umhverfis Mývatn – brúargerð.

Kr. 13.600.000,- styrkur í samræmda hönnun og byggingu þriggja brúa á göngu- og hjólreiðastígnum umhverfis Mývatn.
Markmið verkefnisins er að auka öryggi ferðamanna, vernda náttúru og bjóða upp án möguleika á einstakri upplifun á einum þekktasta ferðamannastað landsins. Síðan árið 2020 hefur verið unnið að lagningu göngu- og hjólreiðstígs umhverfis Mývatn, sem verður um 45 kílómetra langur þegar verkinu lýkur. Stígurinn er mikilvægur hvað náttúrvernd varðar, þar sem hann kemur í veg fyrir myndun hentistíga, niðurtroðning á graslendi og jarðvegsrof. Stígurinn eykur öryggi ferðamanna, þar sem umferð gangandi og hjólandi vegfarenda er illmöguleg á þjóðveginum umhverfis vatnið. Mývatn er hluti af áfangastaðaáætlun Norðurlands. Verkefnið fellur vel að markmiðum sjóðsins um öryggi ferðamanna, náttúruvernd og lengingu ferðamanna tímabilsins.

Getum við bætt efni þessarar síðu?