Skólastarf í Þingeyjarsveit – næstu skref

Undanfarið hefur allt skólahald í Þingeyjarsveit verið óhefðbundið vegna COVID-19, nemendur á öllum stigum grunnskólanna hafa verið í fjarnámi og aðeins hefur verið opið í leikskóladeildum fyrir forgangshópa. Nú er faraldurinn á niðurleið, nýjum smitum fækkar og ekki hafa greinst ný smit á Norðurlandi eystra undanfarna daga.

Viðbragðsteymi Þingeyjarsveitar hefur fundað reglulega með skólastjórum, metið stöðuna hverju sinni og ákveðið var á fundi með teyminu s.l. fimmtudag að taka næstu skref og opna leikskóladeildir fyrir alla hópa og grunnskóladeildir með ákveðnum takmörkunum.

Frá og með mánudeginum 20. apríl n.k. verður skólahald í grunn- og leikskóladeildum Þingeyjarsveitar sem hér segir:

Í Stórutjarnaskóla verður leikskólastarf í Tjarnaskjóli alla virka daga fyrir alla hópa frá kl. 8:00 til 14:00. Grunnskólastarf verður í Stórutjarnaskóla alla virka daga frá kl. 8:30 til 14:00 en bekkjum verður skipt niður, 1.-6. bekk og 7.-10. bekk, sem mæta til skiptist í skólann annan hvern dag.  

Í Þingeyjarskóla verður leikskólastarf alla virka daga fyrir alla hópa, í Barnaborg frá kl. 7:50 til 15:00 og í Krílabæ frá kl. 7:45 til 16:15. Grunnskólastarf verður í Þingeyjarskóla alla virka daga frá kl. 8:15 til 12:00 fyrir 1.-4. bekk en áfram verður fjarnámskennsla hjá 5.-10. bekk.

Skólastjórar hafa þegar sent út nánari útlistanir á fyrirkomulagi skólahaldsins.

Fyrirmælum yfirvalda verður framfylgt samkvæmt gildandi samkomubanni líkt og fjöldatakmarkanir í hóp, fjarlægðarmörk o.fl.

Ég vil enn og aftur leggja áherslu á að þrátt fyrir að að faraldurinn sé á niðurleið er mjög mikilvægt að halda áfram að fylgja fyrirmælum, aðstæður eru fljótar að breytast ef upp koma hópsmit.

Höldum áfram á sömu braut og gangi okkur öllum vel!

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.