Skíðaparadísin okkar

Þingeyjarsveit er eins og risastór leikvöllur fyrir útivistargarpann, jafnt að vetri sem sumri. Breiðurnar í okkar víðfema sveitarfélagi virðast nær endalausar og tækifærin til skíðaiðkunar eru gríðarleg.

Íbúar sveitarfélagsins láta ekki sitt eftir liggja í skíðaæðinu. Skíðasporar eru orðnir algeng eign á heimilum og fjölmargir duglegir við að halda úti spori. Hjónin Ásdís og Yngvi Ragnar á Sel-Hóteli eru kannski einna öflugust og halda úti spori frá Álftabáru svo lengi sem snjóalög leyfa. Ungmennafélagið Mývetningur heldur úti skíðagönguspori milli Voga og Reykjahlíðar (sjá hér) og spor má í raun yfirleitt finna út um allt sveitarfélag; í Bárðardal, á Laugum, í Aðaldal og í Vaglaskógi í Fnjóskadal.

Hvernig er hægt að byggja skíðagöngu menninguna upp enn frekar? Með því að láta vita þegar þið hafið sporað!

Við hvetjum ykkur til að láta nágranna og sveitunga vita af sporum svo sem flestir geti notið þeirra. Til dæmis á facebook síðunni Íbúar Þingeyjarsveitar og á „hverfissíðum“ sveitarfélagsins á facebook. Hvað er betra en skíðaganga og kakóbolli í góðum félagsskap? Vetrarhátíð við Mývatn leggur áherslu á að halda sporum opnum yfir hátíðina og upplýsingar fyrir þau spor má finna hér.

En það þarf ekki alltaf spor. Heyrst hefur að hvergi sé betri aðstaða fyrir utanbrautarskíði heldur en í Þingeyjarsveit og tækifærin mikil. Þar koma heiðarnar okkar sterkar inn, þessar löngu og dásamlega flötu heiðar.

Meira fyrir skíðabrekkur?

Mývetningur rekur skíðalyftu við Kröflu í Mývatnssveit. Lyftan var sett upp árið 2001 og var fengin úr Ármannsgilinu á sínum tíma. Mývetningar með styrk frá nærsamfélaginu hafa lagt ómælda vinnu í að halda lyftunni við, setja upp snjógirðingar og halda troðaranum á lífi. Þar eru skipulagðar æfingar og skíðasvæðið opið í kringum þær og eftir veðri. Hægt er að fylgjast með opnun lyftunnar á facebook svæði skíðasvæðisins. Það eru engin lyftugjöld en tekið við frjálsum framlögum sem fer í viðhald enda öll starfsemi unnin í sjálfboðastarfi. Hægt er að leigja skíðasvæðið fyrir einstaklinga eða hópa.

Það eru forréttindi að hafa þessi tækifæri til útivistar, nýtum þau og hömpum þessari skíðaparadís okkar.

Hér má sjá nokkrar skíðagöngu myndir fengnar frá Ásdísi í Seli.