Þingeyjarsveit formlegur aðili að Gíg

Nýverið undirrituðu Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir sveitarstjóri og Ingibjörg Halldórsdóttir framkvæmdarstjóri Vatnajökulsþjóðgarðs samning um aðstöðu í Gíg. Með samningnum fær Þingeyjarsveit aðgengi að 6 skrifborðum í skrifstofurými Gígs, auk aðgengis að næðisrýmum, fundaherbergjum, sameiginlegri kaffistofu, setustofum og þráðlausu neti. Skrifstofuhúsgögn fylgja einnig fyrir hverja starfsstöð.

Með þessum samningi verður Þingeyjarsveit formlegur aðili að því skemmtilega starfi sem nú er að byggjast upp í Gíg þar sem Vatnajökulsþjóðgarður, Umhverfisstofnun, Landgræðslan og Náttúrurannsóknastöð við Mývatn hafa einnig aðstöðu. Í gegnum Þingeyjasveit mun svo Þekkingarnet Þingeyinga og Hulda náttúruhugvísindasetur öðlast formlegan aðgang að Gíg.

Á sama tíma opnaði sýningin Landvörður í sýningarými Gígs. Landvörður er verk eftir listakonuna Jessicu Auer sem áður hefur verið sett upp í Ljósmyndasafni Reykjavíkur og Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Verkið mun vera til sýnis í gestastofunni í Gíg í sumar.
Jessica Auer er kanadísk listakona sem hefur verið búsett á Íslandi og í Kanada um árabil. Sigrún Alba Sigurðardóttir semur textann sem leiðir okkur í gegnum sýninguna og sýningarstjóri verksins í Gíg er Ragnhildur Ásvaldsdóttir. Um verkið segir Sigrún Alba: „Verkið Landvörður fjallar um sameiginlega ábyrgð okkar allra á náttúrunni. Það sýnir okkur bæði hvernig við snertum landið og hvernig við leyfum því að snerta okkur, hreyfa við okkur. Landvörður fjallar þó ekki aðeins um þau sem vernda landið og þau sem nýta landið heldur líka um landið sjálft og lífshætti okkar á jörðinni, hvernig allt tengist og flæðir saman. Við erum óteljandi eindir sem eiga sér ótal snertifleti, erum öll hluti af heild“.

Þingeyjarsveit fagnar nýrri aðstöðu og uppbyggingu í Gíg og frekara samstarfi við Vatnajökulsþjóðgarð og aðrar þær stofnanir sem þar eru til húsa.

Hér má sjá myndir frá undirrituninni og opnun sýningarinnar Landvörður