Samkeppni um hugmynd að byggðamerki Þingeyjarsveitar

Merki Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps.
Merki Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps.

Á 7. fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar þann 14. september sl. ákvað sveitarstjórn að efna til samkeppni um hugmynd að nýju byggðamerki fyrir sveitarfélagið. Frestur til að skila tillögum er til 10. nóvember 2022 og veitt verða verðlaun að fjárhæð kr. 200.000 fyrir þá tillögu sem verður fyrir valinu.

Þingeyjarsveit er nýtt sveitarfélag sem varð til við sameiningu Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps. Sveitarfélagið dregur nafn sitt af Þingey í Skjálfandafljóti, en þar voru haldin vorþing fyrr á öldum. Sveitarfélagið er stærsta sveitarfélag landsins og í því eru margar af stórfenglegustu perlum íslenskrar náttúru. Þar er stórfenglegt landslag, fjölbreytt náttúrufar, fjölskrúðugt fuglalíf, fiskur í vötnum og orka í iðrum jarðar.
Tákn byggðamerkisins skal hafa tilvísun í áberandi einkenni í náttúru sveitarfélagsins, sögu þess eða ímynd. Skilyrði er að merkið hafi skjaldarlögun og sé í samræmi við meginreglur skjaldarmerkjafræðinnar, sbr. 4. og 5. grein reglugerðar um byggðamerki nr. 112/1999. Nánari upplýsingar og leiðbeiningar um gerð og skráningu byggðamerkja má finna hjá Hugverkastofunni.
Tillögu skal skilað á skrifstofur sveitarfélagsins sem teiknaðri hugmynd og lýsingu á merkinu, með útskýringum á merkingu þess og meginhugmynd. Tillögurnar skal merkja að aftan með 5 stafa tölu sem höfundur velur. Nafn höfundar skal fylgja með í lokuðu umslagi, merktu með sama auðkenni. Gert er ráð fyrir að vinningshafi taki þátt í endanlegri útfærslu merkisins.
Sameiningarnefnd sveitarfélagsins er dómnefnd keppninnar og velur úr innsendum tillögum. Dómnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum tillögum.