Rithöfundar framtíðarinnar í Reykjahlíðarskóla og Stórutjarnaskóla
Reykjahlíðarskóli og Stórutjarnaskóli taka þátt í Bókmenntahátíð barnanna, sem verður haldin að Hrafnagili fimmtudaginn 4. desember, á milli 16-18 í Laugarborg. Um er að ræða samvinnuverkefni fjögurra skóla á Norðurlandi, en Hrafnagilsskóli í Eyjafjarðarsveit og Valsárskóli á Svalbarðseyri taka einnig þátt.
Fyrir hátíðina skrifa nemendur í 5. – 8. bekk barnabók undir leiðsögn kennara síns og tveggja rithöfunda, Berglindar Ernu Tryggvadóttur og Þórunnar Rakelar Gylfadóttur. Verkefnið fékk styrk úr Sprotasjóði en rithöfundarnir Berglind og Þórunn hafa yfirumsjón með verkefninu.
Bækur krakkanna í Reykjahlíðarskóla. Merki útgáfufélagsins sem krakkarnir stofnuðu er fyrir miðju. Mynd: Halla Rún
Bókaútgáfa snýst ekki bara um að skrifa sögur
„Rithöfundarnir hafa komið í heimsókn til okkar tvisvar sinnum til þess að leiðbeina, auk þess að hitta krakkana líka á fjarfundum. Það eru 11 titlar klárir hjá okkur, en við erum búin að eyða síðustu þremur vikum í þetta verkefni sem hefur verið mjög gaman,“ segir Halla Rún Tryggvadóttir en hún er kennari í Reykjahlíðarskóla og stýrir verkefninu þar.
Krakkarnir áttuðu sig fljótlega á því, að það er töluvert meira fólgið í því að gefa út bók en einungis að skrifa söguna. „Það þarf að hanna forsíðu, sum eru að teikna myndir í bækurnar sínar og svo stofnuðum við bókaforlag að sjálfsögðu! Krakkarnir völdu nafnið Dimmuborgir á útgáfufélagið sitt og hönnuðu merki fyrir það. Smíðakennarinn hefur svo látið smíða standa undir bækurnar svo þær séu smekklega til sýnis,“ segir Halla Rún.
„Bækurnar eru mjög fjölbreyttar hjá okkur, en við höfum haft lestrarstundir líka þar sem krakkarnir lesa sögurnar hvert fyrir annað. Það er ástarsaga, morðsaga og allt þar á milli!“

Bækur krakkanna í Stórutjarnaskóla. Mynd: Anna Karen
Spenna, tímaflakk og smásögur
„Það er búið að ganga vel hjá okkur, nú eru tilbúnar sjö bækur eftir níu höfunda,“ segir Anna Karen Unnsteins, kennari í Stórutjarnaskóla. „Bækurnar eru mjög fjölbreyttar, smásagnasafn á tveimur tungumálum, sögur sem gerast í skólanum, sögur um tímaflakk, saga úr sveitinni og úr Reykjavík.“
„Krakkarnir hafa unnið að sögunum í íslensku og samfélagsfræðitímum frá miðjum september. Ásamt bókunum sem verða til sölu á bókmenntahátíðinni á Hrafnagili 4. desember hafa krakkarnir gert bókamerki úr gömlum frímerkjum sem hafa vakið mikla lukku, ekki síst meðal starfsfólks! Krakkarnir hafa öll lagt sig mikið fram við að skrifa sögurnar, það liggur mikil hugmyndavinna að baki hverri bók ásamt þó nokkrum tímum þar sem þau fóru yfir stafsetningu og málfar. Krakkarnir hafa sýnt mikla seiglu og vinnusemi í þessu verkefni og mega vera mjög stolt af hverri einustu bók.“ bætir Anna Karen við.
Bækur krakkanna eru til í nokkrum eintökum og verða til sýnis og sölu á Bókmenntahátíð barnanna í Hrafnagili á fimmtudaginn kemur, 4. desember.
Auglýsing hátíðarinnar:
