Ragnheiður Jóna sveitarstjóri komin til starfa

Þann 1. mars sl. tók Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir við stöðu sveitarstjóra í Þingeyjarsveit.

Ragnheiður Jóna starfaði á síðasta kjörtímabili sem sveitarstjóri Húnaþings vestra, en áður var hún framkvæmdastjóri afmælisnefndar aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Ragnheiður Jóna starfaði í 10 ár hjá Eyþingi, sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum og var starfssvæði hennar Norðurland eystra og er hún því nokkuð kunnug í sveitarfélaginu.

Ragnheiður Jóna lauk MA-prófi í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst og BA-prófi í nútímafræði frá Háskólanum á Akureyri. Auk þess hefur hún stundað nám í opinberri stjórnsýslu og lokið námslínunni Forysta til framþróunar - leið stjórnenda til aukins árangurs, við Endurmenntun Háskóla Íslands.

Á fyrstu starfsdögunum hefur Ragnheiður Jóna ásamt Gerði Sigtryggsdóttur oddvita og Ástu F. Flosadóttur nýráðnum verkefnastjóra fjölskyldumála heimsótt stofnanir og starfsstöðvar sveitarfélagsins ásamt því að sitja afar áhugaverðan fund Krafla Magma Testbed (KMT) sem er metnaðarfull vísindaáætlun leidd af íslenskum aðilum. KMT hefur það markmið að stofna og byggja upp alþjóðlega rannsóknarinnviði fyrir jarðvísindi á Kröflusvæðinu. Krafla er einstök því þar er að finna þekkta staðsetning kvikuhólfs sem borað hefur verið í og hvergi annars staðar í heiminum er vitað um viðlíka aðstæður til rannsókna og svæðið því ómetanleg tilraunastofa frá náttúrunnar hendi. Ávinningur þessara rannsókna mun afla okkur stóraukinnar þekkingar á jarðhitakerfum og samspili þeirra við eldvirkni auk þess að dýpka skilning okkar á eldfjöllum almennt. KMT hefur verið í nokkur ár í undirbúningi undir forystu GEORG, rannsóknarklasa í jarðhita með aðkomu fjölmargra rannsóknastofnanna og fyrirtækja víðsvegar að úr heiminum. Þetta metnaðarfulla verkefni skapar fjölmörg áhugaverð tækifæri í Þingeyjarsveit og verður athyglisvert að fylgjast með þróun þess.

Í næstu viku mun Ragnheiður Jóna ljúka heimsóknum í stofnanir sveitarfélagsins ásamt því að sitja sinn fyrsta sveitarstjórnarfund í Þingeyjarsveit.

Hér má sjá nokkrar myndir frá fyrstu starfsdögum sveitarstjóra.

Við bjóðum Ragnheiði Jónu hjartanlega velkomna.