Öskjufréttir

Eins og íbúar hafa eflaust tekið eftir þá hefur talsverð umræða verið í fjölmiðlum um jarðhræringar í og við Öskju og ýmsir aðilar verið að gefa sitt mat á stöðunni og spá til um mögulegt eldgos á svæðinu og jafnvel með tilfallandi öskufalli.

Þá hefur mikil umræða verið um það að Öskjuvatn sé ekki lengur ísilagt líkt og það er venjulega á þessum árstíma.

Veðurstofan hefur það hlutverk að fylgjast með á þessu sviði og upplýsa yfirvöld um mögulegar breytingar og vara við hættu sem gæti verið yfirvofandi.

Skemmst er frá því að segja að Veðurstofan hefur ekki sent frá sér neina slíka tilkynningu, hvorki til Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra né Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra.

Sérfræðingar Veðurstofunnar hafa samt verið að fylgjast vel með þróun mála á svæðinu og hefur Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, verið í nánum samskiptum við þá.

Í gær, fimmtudaginn, 23. febrúar, var boðað til fjarfundar þar sem fulltrúi Almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra fór yfir stöðuna með fulltrúum lögreglu í umdæmi LSNE, svæðisstjórna 11 og 12, Vatnajökulsþjóðgarðs og fulltrúa frá sveitarfélaginu Þingeyjarsveit sem þetta svæði tilheyrir.

Þá var fulltrúi lögreglunnar á Austurlandi einnig á fundinum.

Fulltrúinn fór yfir stöðuna í sögulegu tilliti allt aftur til 1874 þegar bera fór á jarðhræringum á svæðinu sem undanfara stóra gossins í mars 1875.

Því má segja að í sögulegu samhengi séu meiri líkur á því, komi til goss á svæðinu, að það verði lítilsháttar hraungos og mögulega með smávægilegu öskufalli um næsta nágrenni og að talsverður undanfari verði að því.

Ýmsan fróðleik má finna um Öskju á þessari síðu hér, https://icelandicvolcanos.is/

Fulltrúinn kvað einu breytingarnar sem sjáanlegar væru á svæðinu, væru á mælitæki í Öskjunni sjálfri sem sýnt hefði landris frá september 2021 en þá var lýst yfir óvissustigi vegna þessa á svæðinu og er það í gildi enn.

Það landris væri jafnt og þétt og væri nú orðið rúmlega 50 cm.

En eins og sönnum jarðfræðingi sæmir þá setti fulltrúinn varnagla í yfirferð sinni um að þetta gæti orðið með ýmsum hætti en horfandi á mælitækin og fortíðina þá taldi hann ekki ástæðu til annars en að fylgjast bara áfram vel með og sjá hvað framtíðin ber í skauti sér.

Áfram verður fylgst vel með þróun mála og íbúar upplýstir eins og þurfa þykir.