Fara í efni

Óskað verður eftir fundi með Fjarskiptastofu

Nú er verið að fasa út 2G og 3G farsímaþjónustu á Íslandi. Á heimasíðu Fjarskiptastofu segir að Sýn, Síminn og Nova hafi þegar lokað fyrir 2G, og stefnt er að því að öll þrjú fyrirtækin hafi lokað fyrir bæði 2G og 3G í mars. Farsímar sem styðja ekki 4G og 5G munu ekki virka eftir breytinguna. 

Í frétt á vef RÚV frá því í maí síðastliðnum var bent á að posar og greiðslulausnir sem byggjast á 2G eða 3G hætti líka að virka og ýmis öryggis- og neyðarbúnaður og GPS-tæki gætu þurft uppfærslu. Það er því að fleiru að huga en bara símtækjum. Bent er á að hafa samband við Fjarskiptastofu ef fólk hefur spurningar eða þarf aðstoð.

Á fundi atvinnu- og nýsköpunarnefndar í janúar var rætt um málið og lýsti nefndin miklum áhyggjum af fjarskiptasambandi í sveitarfélaginu vegna þessa. Í bókun fundarins segir: Mikilvægt er að öruggt samband sé fyrir hendi þannig að ávallt verði hægt að ná sambandi við neyðarþjónustu. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að boðaður verði fundur með Fjarskiptastofu þar sem farið verður yfir þessar breytingar og með hvaða hætti er hægt að forðast það að rof verði á sambandi í sveitarfélaginu.

Sveitarstjórn kom saman á fundi í gær, fimmtudaginn 22. janúar, og tók undir áhyggjur atvinnu-og nýsköpunarnefndar. Ákveðið var að fela sveitarstjóra að boða Fjarskiptastofu á fund sveitarfélagsins, en það var samþykkt samhljóða á fundinum.

  • Íbúar eru áfram hvattir til að tilkynna slakt farsímasamband til Fjarskiptastofu HÉRNA.
  • Svona getur þú athugað hvort að síminn þinn nái sambandi eftir að slökkt verður á 3G (Frétt RÚV)
Getum við bætt efni þessarar síðu?