Orkuskipti í dreifðum byggðum

Hópurinn í Samsö í Danmörku
Hópurinn í Samsö í Danmörku

Ingimar Ingimarsson, sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs fór ásamt fleirum til Samsö í Danmörku til þess að kynna sér hvernig orkuskiptin þar hafa gengið fyrir sig. ferðin er hluti af verkefninu RECET (Rural Europe for the clean energy transition) sem miðar að því að efla getu sveitarfélaga og atvinnulífs til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin.

Íslensk Nýorka og Eimur leiða verkefnið hér á landi en Vestfjarðastofa og Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra eru einnig þátttakendur. RECET er samstarfsverkefni fimm landa og tuga sveitarfélaga um alla Evrópu, með Ísland í fararbroddi.

„Samseyjarbúar hafa á undanförnum árum tekið sig á í orkuskiptum og er svo komið að flest sem sveitarfélagið gerir er byggt á orku sem framleidd er heima fyrir s.s. vindmillum, sólarorkusellum, bruna á hálmi ofl. Það var því mjög áhugavert að sjá hversu ótrúlega margt er hægt að gera án þess að hafa aðgang að jafn gríðarlegum náttúruauðlindum og við Íslendingar búum við. Dagskráin var að meginhluta vinnustofa þar sem farið var yfir hvaða möguleika væru til að framkvæma orkuskipti, hvernig virkja mætti almenning til þátttöku og hvaða hindranir standa í vegi fyrir orkuskiptum. Út úr þessari vinnu komu mjög áhugaverðar nálganir sem munu nýtast til að styðja þá vinnu sem við erum að hefja hér, að losna við innflutta orkugjafa og treysta á þá sem við eigum fyrir“ segir Ingimar.