Óbreytt staða í Öskju

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hélt fund 16. ágúst síðastliðinn með fulltrúum frá Almannavarnadeild RLS, Veðurstofunni, Vatnajökulsþjóðgarði, lögreglunni á Austurlandi, Þingeyjarsveit og aðgerðastjórnendum í umdæminu.
Á fundinum fór fulltrúi Veðurstofunnar vel yfir stöðu mála og er það mat þeirra að staðan sé lítið breytt frá því sem verið hefur, þ.e. landris hefur verið hægt og bítandi síðan haustið 2021 og nær nú um 70 cm. Aðrir þættir hafa ekki verið aukast , s.s. jarðskjálftar sem væri helsti fyrirboði frekari óvissu. Vísbendingar eru þó um mögulega aukin jarðhita og verður vel fylgst með því.
Fulltrúar frá Veðurstofunni eru í dag við Öskju við störf og stefnir Veðurstofan á að setja upp nú á næstu vikum enn frekari mælitæki fyrir jarðhitamælingar í Víti og skjálftamælingar vestan Öskju. Þá eru áform um að setja upp vefmyndavél á svæðinu.
Niðurstaða fundarins er því að sú að ekki er talin þörf á frekari aðgerðum né aðgangsstýringum að sinni en allir sem fara inn á hálendið á þessu svæði eru hvattir til að hafa í huga að það er óvissustig í gildi og að fylgja þeim leiðbeiningum sem þeir fá, s.s. frá landvörðum um að fara ekki ofan í Víti né niður að Öskjuvatni.
 
Hægt er að lesa nánar um stöðuna í Öskju í frétt veðurstofunnar.