Nýtt nafn og stækkun um 3000 fermetra hjá Jarðböðunum
Jarðböðin í Mývatnssveit eru í mikilli uppbyggingu um þessar mundir, en auk þess að vera að stækka húsakostinn úr 1100 fermetrum í u.þ.b. 4000, er nýlega búið að opinbera nýtt nafn og merki baðanna. „Okkur langaði að færa enska nafnið nær því sem böðin heita á íslensku, en við verðum áfram Jarðböðin. Enska nafninu var breytt úr Mývatn Nature Baths í Earth Lagoon Mývatn,“ segir Guðmundur Þór Birgisson, framkvæmdastjóri Jarðbaðanna.
„Okkur fannst Nature Baths ekki nægjanlega lýsandi fyrir staðinn, og höfum unnið í því um nokkurt skeið að velja nýtt nafn á ensku. Það var tilvalið að kynna það samhliða breytingum og stækkun á staðnum. Með þessu er svo nýtt merki, og svo ég nýti tækifærið og útskýri útlit þess, þá kemur hugmyndin frá einstökum jarðmyndunum á svæðinu sem kallast túffstabbar. Það eru einskonar öskulög sem sjást til að mynda mjög vel norðan við Hverfjall/fell,“ segir Guðmundur.
T.v. Nýtt merki Jarðbaðanna / Earth Lagoon. T.h. Merki Jarðbaðanna og Mývatn Nature Baths sem heyrir nú sögunni til.
Meira pláss fyrir gesti og breiðari þjónusta
Núverandi húsnæði með veitingasölu, móttöku og búningsklefum verður fjarlægt, en framkvæmdir við nýtt húsnæði hafa staðið yfir í rúm tvö ár og áætlað er að opna ný Jarðböð í apríl næstkomandi. Lokað verður 1.janúar vegna framkvæmdanna og opnað aftur í vor. „Þetta eru miklar breytingar hjá okkur, við færum okkur alfarið yfir í nýtt húsnæði,“ segir Guðmundur. „Eitt af því sem verður nýtt, er að auk þess að bjóða upp á töluvert meira pláss í búningsklefum - verða þrír mismunandi klefar í boði. Eða kannski þrjár mismunandi upplifanir, réttara sagt.“
„Það verður hefðbundinn búningsklefi, en þar verður samt meira pláss heldur en í núverandi aðstöðu og í boði að vera í lokaðri sturtu, fyrir þau sem vilja það. Svo verður svokölluð Kjarnaupplifun, en sá klefi verður í anda nýs nafns - mikið af jarðmyndunum og hrauni er nýtt í þann klefa sem verður niðurgrafinn og útveggir klefans og skipting eru hraunveggir. Einnig er mjög fallegur hraunveggur sem tekur á móti gestum og leiðir inn í klefana.“

Brugðist við eftirspurn um lúxusupplifun
Eftirspurn hefur aukist töluvert eftir lúxusupplifun í Jarðböðunum, en Guðmundur segir að þriðji valkosturinn, Kyrrðarupplifun, sé hannaður til þess að mæta þessum hópi ferðamanna. „Þá erum við með sex einkaklefa, sem eru fyrir tvo gesti hver. Þeir sem kaupa sér aðgang að þessum klefum fá aðgang að einkalóni. Með þessum pakka fylgir líka aðgangur að arinstofu með hvíldar- og slökunarherbergi.“
„Nýr veitingastaður Jarðbaðanna verður með uppfærðum matseðli, auk þess sem sérstakur matseðill verður í boði fyrir gesti Kyrrðarupplifunar. Við verðum áfram með súpu, brauð og salat, en það verður líka hægt að panta létta rétti af matseðli,“ bætir Guðmundur við að lokum, en hann segir að mikill spenningur sé meðal starfsfólks, nú þegar sér fyrir endann á framkvæmdum og styttast fer í opnun á glænýjum Jarðböðum.

Hér sést hvernig Jarðböðin munu líta út eftir breytingar.