Fara í efni

Ný viðbragðsáætlun fyrir gos í Bárðarbungu

Uppfærð viðbragðsáætlun er tilbúin, fyrir svæðið norðan Vatnajökuls ef eldgos yrði í Bárðarbungu.

Veðurstofa Íslands kynnti nýjar upplýsingar síðastliðinn vetur varðandi hermun á flóðamálum frá Bárðarbungu, annarsvegar niður Jökulsá á Fjöllum og hins vegar niður Skjálfandafljót, kæmi til eldgoss undir henni. Var því fylgt eftir með íbúafundum í vor í Ýdölum og Skúlagarði sem voru mjög vel sóttir.

Í kjölfarið var gerð uppfærsla á þeirri viðbragðsáætlun sem til er vegna eldgoss í Bárðarbungu þar sem sérstaklega voru uppfærð öll gögn er varða rýmingar á svæðunum með tilliti til nýju gagnanna. Nú er þeirri vinnu lokið og uppfærð áætlun litið dagsins ljós. Hér má nálgast hana.

Fróðlegt er að glugga í áætlunina, en hér fylgir útlistun á því, sem við má búast ef til eldgoss í Bárðarbungu kæmi: 

    • Jökulhlaup
      • Gos undir Vatnajökli getur brætt mikið magn af ís á stuttum tíma
      • Vatn getur safnast fyrir undir jökli og brotist fram sem skyndilegt jökulhlaup í farvegi eins og Jökulsár á Fjöllum og Skjálfandafljóti
      • Hættan felst í m.a. miklum flóðvatnsmagni, ís- og grjótburði, skemmdum á brúm, vegum og raflínum
      • Samkvæmt nýjustu útreikningum sem sjá má í kortum hér aftast í áætluninni má áætla að flóðatími til sjávar geti verið 22-45 klst. í Jökulsá á Fjöllum og 20-24 klst. í Skjálfandafljóti, allt eftir umfangi hverju sinni

    • Öskufall og gjóskudreifing
      • Sprengigos geta sent gosmökk hátt upp í lofthjúpinn
      • Ösku- og gjóskufall getur haft áhrif á heilsu fólks og búfjár, mengað drykkjarvatn og skemmt gróður
      • Hætta er á truflun á flugsamgöngum

    • Gasútstreymi
      • Gos getur leyst út mikið magn af brennisteinsdíoxíð (SO₂) og öðrum lofttegundum
      • Getur valdið loftmengun sem hefur áhrif á heilsu fólks, sérstaklega með öndunarfærasjúkdóma, og skaðað vistkerfi.
      • Gosið í Holuhrauni 2014-2015 leysti út eitt mesta magn gastegunda sem sést hefur í heiminum samkv. mælingum

    • Langvarandi hraunflæði
      • Ef gos verður utan jökuls, eins og t.d. í Holuhrauni, getur það framleitt gríðarlegt magn hrauns sem breytir landslagi, lokað vatnsföllum og haft mikil áhrif á ýmsa innviði eins og gerst hefur á Reykjanesi nú sl. ár (2021-2025) 

 

Áætlunin er unnin af lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra, almannavarnanefndinni í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Viðbragðsaðilar og fleiri voru hafðir með í ráðum. 

Getum við bætt efni þessarar síðu?