MýSköpun lýkur fjármögnun til uppbyggingar á Þeistareykjum
Örþörungafyrirtækið MýSköpun ehf. hefur lokið 300 milljón króna fjármögnun vegna uppbyggingar örþörungaræktar á Þeistareykjum, segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Framtakssjóðurinn Landvættir slhf. á Akureyri verður nýr kjölfestufjárfestir félagsins og aðkoma sjóðsins gerir félaginu kleift að ljúka undirbúningi nýrrar hátækniframleiðslueiningar félagsins. MýSköpun stefnir að því að framleiða verðmæta örþörunga í sérhæfðu framleiðsluhúsnæði sem reist verður við jarðvarmavirkjun Landsvirkjunar á Þeistareykjum.
Áætlað er að reisa um 10.000 m2 framleiðsluhúsnæði og stórauka framleiðslu í áföngum sem mun skapa tugi starfa á Norðausturlandi. Afurðir MýSköpunar verða að mestu seldar á erlenda markaði til notkunar í fæðubótarefni, en slíkir markaðir hafa verið í miklum vexti. Aðkoma Landvætta slhf. að MýSköpun gerir félaginu kleift að ljúka hönnunarvinnu, skipulagsmálum og öðrum undirbúningi fyrir framleiðslueiningu félagsins á Þeistareykjum með það að markmiði að framkvæmdir geti hafist vorið 2027.
Um MýSköpun
MýSköpun ehf. hefur rannsakað, ræktað og einangrað ýmsa hagnýta örþörunga frá árinu 2013 og hefur starfsemin verið staðsett í Bjarnarflagi í Mývatnssveit. Stærstu hluthafar félagsins fyrir núverandi hlutafjáraukningu voru Þingeyjarsveit, Nýsköpunarsjóðurinn Kría, Fjárfestingarfélag Þingeyinga og fleiri smærri fjárfestar og einstaklingar sem tengjast starfssvæðinu á Norðausturlandi.
Samstarf við Landsvirkjun
Samstarfssamningur á milli félagsins og Landsvirkjunar um hugsanlega framleiðslu á Þeistareykjum var undirritaður í júní 2025. Síðan hefur undirbúningur verkefnisins með Landsvirkjun haldið áfram og eru báðir aðilar mjög áhugasamir um framtíðarsýn MýSköpunar. Tilgangurinn með samningnum við Landsvirkjun er að byggja undir aukna verðmætasköpun og fjölga störfum á svæðinu með nýtingu auðlindastrauma frá virkjun Landsvirkjunar á Þeistareykjum.
Landvættir slhf. mikilvægur kjölfestufjárfestir
Landvættir slhf. er nýr framtakssjóður í rekstri Axum Verðbréfa hf. á Akureyri. Sjóðurinn horfir til fjárfestingartækifæra á Norðurlandi og er fjárfesting í MýSköpun fyrsta einstaka fjárfesting sjóðsins. Sjóðurinn er áhrifafjárfestir og leitast við að styðja við fjárfestingareignir sínar með virkum hætti.
Dr. Ingólfur Bragi Gunnarsson, framkvæmdastjóri MýSköpunar:
„Unnið hefur verið að þessum áfanga síðastliðið ár og áhugi fjárfesta á þessu verkefni okkar hefur verið mikill, en samstarfssamningur MýSköpunar og Landsvirkjunar, sem undirritaður var síðasta sumar, skipti þar sköpum. Með þessari fjármögnun verður félaginu kleift að hefja af fullum krafti skipulagningu og hönnun á hátækni-framleiðsluhúsnæði fyrirtækisins á Þeistareykjum. Gert er ráð fyrir að hefja framkvæmdir vorið 2027, en að þeim loknum mun fyrirtækið hafa stóraukið framleiðslugetu sína. Við framleiðsluna verður notast við nýjustu tækni á öllum sviðum, nýjum framleiðsluaðferðum beitt og framleiðslan á vörum fyrirtækisins verður mjög hagkvæm. Gert er ráð fyrir tugum varanlegra starfa á svæðinu samhliða þessari uppbyggingu.“
Hreinn Þór Hauksson, framkvæmdastjóri AxUM Verðbréfa hf. og Landvætta slhf:
„Landvættir slhf. er nýtt fjárfestingarafl sem einbeitir sér að nýsköpunar- og vaxtartækifærum á íslenskum landsbyggðum. Sjóðurinn leitar fjárfestingartækifæra þar sem aðkoma sjóðsins getur verið með margvíslegum hætti. Fjárfesting í MýSköpun ehf. er frábært fyrsta skref þar sem saman kemur allt það sem sjóðurinn leitar að, nýsköpun, vaxtamöguleikar, atvinnuuppbygging og ný þekking.“
Ríkarður Ríkarðsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun:
„Við höfum átt gott samstarf við MýSköpun á síðustu árum og það er nú mjög spennandi að fylgjast með áframhaldandi uppbyggingu fyrirtækisins sem hefur aflað sér mikilsverðrar reynslu og mótað sterka framtíðarsýn um uppbyggingu í nærsamfélagi Landsvirkjunar. Við
hlökkum til að sjá MýSköpun vaxa og raungera álitleg tækifæri í orkutengdri nýsköpun en starfsemi sem þessi getur bætt nýtingu auðlinda á starfssvæðum okkar, skapað ný og áhugaverð störf og aukið verðmætasköpun virðiskeðju orkuvinnslu svo um munar.“
Nánari upplýsingar veitir Dr. Ingólfur Bragi Gunnarsson, framkvæmdastjóri MýSköpunar ehf.
ingolfur@myskopun.is