Markaðs- og þróunarstjóri Mývatnsstofu

Úlla Árdal hefur verið ráðin í starf markaðs- og þróunarstjóra Mývatnsstofu. Staðan er ný og markmiðið að efla núverandi verkefni Mývatnsstofu ásamt því að víkka starfsemina út enn frekar í samstarfi við Nýsköpun í Norðri.

Úlla hóf störf þann 5. janúar. Hún mun sinna verkefnum sem styðja við uppbyggingu innviða í Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit með það að markmiði að gera svæðið ákjósanlegra til búsetu og fjárfestinga ásamt því að vekja frekari athygli á náttúruparadísum Norðurlands eystra. Mývatnsstofa heldur utan um fjölda viðburða s.s. Vetrarhátíð við Mývatn og Mývatnsmaraþonið sem að Úlla mun aðstoða við að þróa og stækka enn frekar.

Úlla er margmiðlunarfræðingur frá Margmiðlunarskólanum og digital compositor frá Campus i12 í Svíþjóð. Hún starfaði síðast sem fréttamaður RÚV á Norðurlandi, þar áður á sjónvarpsstöðinni N4.

Mývatnsstofa er samnefnari ferðaþjónustu í Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit. Hún samræmir markaðs- og kynningarmál fyrir ferðaþjónustufyrirtæki og sveitarfélögin gagnvart innlendum og erlendum ferðamönnum. Helsta hlutverk Mývatnsstofu er að markaðssetja svæðið í þeim tilgangi að fjölga ferðamönnum og lengja dvöl þeirra ásamt því að kynna svæðið sem ákjósanlegan stað til búsetu og fjárfestinga