Kvennaverkfall 24. október

Eins og fram hefur komið gaf Samband íslenskra sveitarfélaga út leiðbeiningar til sveitarfélaga varðandi framkvæmd boðaðs kvennaverkfalls þann 24.10. nk. Í framhaldi af því hafa forsvarsmenn sveitarfélaga fundað með sambandinu og leitað sameiginlegra lausna.

Á aukafundi byggðarráðs þann 20.10.2023 var eftirfarandi bókað:

Boðað hefur verið kvennaverkfall þriðjudaginn 24. október þar sem konur og kynsegin fólk er hvatt til að leggja niður launaða og ólaunaða vinnu þann dag. Mikill meirihluti starfsmanna sveitarfélaga í heild sinni og þar með Þingeyjarsveit, eru konur. Byggðarráð metur vinnuframlag kvenna mikils og styður við réttindabaráttu þeirra sem og allra þeirra sem ekki njóta jafnréttis í dag.

Kjósi konur sem starfa hjá sveitarfélaginu að leggja niður störf þennan dag mun það óhjákvæmilega leiða til þess að ekki verður hægt að halda einhverjum stofnunum opnum svo sem leik- og grunnskóla.

Byggðarráð samþykkir að laun þeirra kvenna og kynsegin fólks sem leggja niður störf 24. október til að taka þátt í aðgerðum dagsins, verði ekki skert og jafnframt er þess farið á leit að starfsmenn hafi samráð við sína yfirmenn um mætingu. Það er í höndum stjórnenda á hverjum stað að gera ráðstafanir til þess að halda uppi þjónustu eins og kostur er og upplýsa foreldra og aðra notendur þjónustunnar um stöðuna.

Þá vill byggðarráð koma því á framfæri að gjöld verða ekki endurgreidd vegna þessara aðgerða, komi til skertrar þjónustu.

Samþykkt af byggðarráði 20.10.2023