Fara í efni

Íbúafundur um framtíð fiskþurrkunar á Laugum

Þingeyjarsveit býður til upplýsingafundar um stöðu fiskþurrkunar ÚA, þriðjudaginn 25. nóvember klukkan 17:00. Fundurinn verður haldinn í Þinghúsinu á Breiðumýri.

Athugasemdir bárust umhverfisnefnd sveitarfélagsins frá íbúum og eigendum fasteigna í nágrenni fiskþurrkunarinnar.

Var málið tekið fyrir á fundi nefndarinnar og bókað: „Nefndin leggur til við sveitarstjórn að haldinn verði íbúafundur hið fyrsta um málefni fiskþurrkunarverksmiðju Samherja á Laugum. Á þann fund verði boðaðir fulltrúar Samherja og Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.“

Leifur Þorkelsson, forstöðumaður Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra gerir grein fyrir þeim kröfum sem uppfylla þarf til að starfsleyfi fyrir starfsemina verði gefið út. Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja gerir grein fyrir þeim framkvæmdum sem nú standa yfir til að uppfylla þau skilyrði sem sett eru varðandi starfsemi fiskþurrkunar.

Fiskþurrkun hefur verið starfrækt á Laugum síðan á áttunda áratugnum og hefur veitt fjölda fólks atvinnu í gegnum tíðina en að jafnaði starfa þar um 20 manns. Fyrirtækið starfar eftir starfsleyfi sem Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra gefur út. Við endurnýjun leyfisins 2023 voru gerðar athugasemdir við lyktar- og hávaðamengun og veittur frestur til að lagfæra frávikin.

Fyrirtækið tók því alvarlega og nú hefur verið ráðist í framkvæmdir til þess að minnka bæði lykt og hávaða.

Getum við bætt efni þessarar síðu?