Hvað á sveitarfélagið að heita?

Á fundi Undirbúningsstjórnar um sameiningu Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps, þann 12. janúar sl., var ákveðið að hefja ferli við val á heiti sameinaðs sveitarfélags. Ákveðið var að fram fari rafræn hugmyndasöfnun þar sem öllum gefst kostur á að senda inn tillögur að heiti nýs sveitarfélags. Jafnframt verði hugmyndum safnað meðal nemenda í grunnskólum sveitarfélaganna. Í framhaldinu fari fram rafræn skoðanakönnun sem verði leiðbeinandi fyrir nýja sveitarstjórn sem tekur endanlega ákvörðun samkvæmt lögum.

Að lokinni hugmyndasöfnun mun Undirbúningsstjórn fara yfir þær tillögur sem bárust og velja 5-10 hugmyndir sem sendar verða Örnefnanefnd til umsagnar. Örnefnanefnd skilar rökstuddu áliti sínu innan þriggja vikna frá því að erindi berst nefndinni.

Heiti sveitarfélaga skulu samrýmast íslenskri málfræði og málvenju samkvæmt sveitarstjórnarlögum, og falla að þeim reglum sem útlistaðar eru í lögum um örnefni og reglugerð um störf örnefnanefndar.

Þegar Örnefnanefnd hefur skilað umsögn sinni mun Undirbúningsstjórn leggja ráðgefandi skoðanakönnun fyrir íbúa sveitarfélagsins á þeim nöfnum sem hlotið hafa samþykki Örnefnanefndar. Íbúum sveitarfélaganna verður boðið að taka þátt í skoðanakönnuninni með rafrænum skilríkjum.

Undirbúningsstjórnin vonast til þess að sem flestir taki þátt í ferlinu við val á heiti sameinaðs sveitarfélags Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps og hvetur alla, stóra sem smáa, til að senda inn tillögur.

Nánari upplýsingar um framkvæmd hugmyndasöfnunar og rafræna skoðanakönnun verða birtar í næstu viku.