Hrúturinn Eitill fundaði með skipulagsnefnd
Skipulagsnefnd Þingeyjarsveitar hélt síðasta fund ársins í Gíg í vikunni. Auk fundarins fékk nefndarfólk kynningu frá Náttúruverndarstofnun um starfsemi sína á svæðinu, og breytingarnar sem stofnunin hefur gengið í gegnum með sameiningu Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs.
Skipulagsnefndin stillti sér upp við skemmtilegan myndavegg í Gestastofunni í Gíg, sem er innblásinn af ævintýrum Fjalla-Bensa. Hrúturinn Eitill tók sig vel út á mynd með nefndinni, en gaman að segja frá því að í næstu viku verður viðburður í Gíg, vegna þess að 100 ár eru liðin frá frægðarför Benedikts, Eitils og hundsins Leó, sem varð kveikjan að Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson.

Jarðböðin heimsótt
Einnig var farið í Jarðböðin og nýbyggingin þar skoðuð ásamt framkvæmdastjóra baðanna, Guðmundi Þór Birgissyni. Rætt var um hraunhellinn sem fannst fyrir tilviljun undir grunni byggingarinnar, við framkvæmdir í febrúar 2023, en jarðmyndanir í hellinum eru einstakar á Íslandi og jafnvel á heimsvísu. Hellirinn verður friðlýstur.
Í skipulagsnefnd eru Knútur Emil Jónasson, Nanna Þórhallsdóttir, Haraldur Bóasson, Sigurður Guðni Böðvarsson og Jóna Björg Hlöðversdóttir. Með á fundinum voru starfsmenn sveitarfélagsins Rögnvaldur Harðarson, byggingarfulltrúi og umsjónarmaður fasteigna og Brynja Dögg Ingólfsdóttir skipulagsfulltrúi.
Skipulagsnefndin í nýbyggingu Jarðbaðanna.