Hlaðvarp um Lífið í Flatey

Þingeyjarsveit auglýsti í vor sumarstarf til að afla upplýsinga um lífið í Flatey á Skjálfanda áður en íbúar tóku ákvörðun um að yfirgefa eyjuna. Bjargey Ingólfsdóttir, nemi í tölvunarfræði við Stockhom University, var ráðin til að vinna verkefnið í samstarfi við Þekkingarnet Þingeyinga og Urðarbrunn. Á heimasíðu Þekkingarnetsins er fjallað um verkefnið og segir m.a.:

Bjargey nýtti sumarið vel í að afla upplýsinga um Flatey og tók viðtöl við sex af fyrrum íbúum eyjarinnar. Þeir voru systurnar Freyja Sigurpálsdóttir og Guðrún Sigurpálsdóttir úr Baldurshaga, systkinin Elsa Hólmgeirsdóttir og Guðmundur Hólmgeirsson frá Grund, Hallur Hallsson frá Nýja bæ og Hermann Ragnarsson frá Sæbergi. Öll höfðu þau frá mörgu að segja, svo sem bernsku og skólahaldi, atvinnulífi og félagslífi.

Viðtölin verða ekki birt í heild sinni en Bjargey hefur síðustu daga unnið ásamt Páli Hlíðari Svavarssyni að því að klippa þau til í nokkra þætti þar sem hver fjallar um tiltekið þema þar sem endurminningar viðmælendanna sex koma fram.

Kynningu á hlaðvarpinu má nálgast hér og á næstu dögum munu þættirnir verða settir inn á rásina.