Goðafoss rennur um nýja heilsugæslu

Ný heilsugæslustöð í Sunnuhlíð á Akureyri var formlega tekin í notkun við hátíðlega athöfn þann 4. mars. Heilsugæslan er ein sú glæsilegasta á landinu og vel við hæfi að Goðafoss gnæfi yfir móttökusalinn.

Ragnheiður Jóna, sveitarstjóri og Jóna Björg formaður byggðarráðs, mættu fyrir hönd Þingeyjarsveitar á opnunarathöfnina. Willum Þór, heilbrigðisráðherra flutti ávarp í tilefni af tímamótunum sem og Jón Helgi Björnsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands.

Heilsugæslustöðin í Sunnuhlíð leysir af hólmi eldra húsnæði í Hafnarstræti sem hýst hefur þjónustuna undanfarna fjóra áratugi. Heilsugæslustöðin er í um 1800 fermetra húsnæði sem er sérhannað fyrir heilsugæsluþjónustu. Stöðin mun umbylta allri aðstöðu fyrir starfsfólk og íbúa og er lyftistöng fyrir heilsugæsluþjónustu á þjónustusvæði hennar en fjölmargir íbúar Þingeyjarsveitar sækja heilbrigðisþjónustu til Akureyrar. 

Jóna Björg, Jón Helgi og Ragnheiður Jóna.