Fylgjum áfram fyrirmælum varðandi COVID-19

Kæru íbúar

Ég vil byrja á þakka ykkur, starfsfólki og íbúum Þingeyjarsveitar þolinmæði, skynsemi og hversu úrræðagóð þið hafið verið á þessum sérstöku tímum og vona að þið hafið átt góðar stundir um páskana.

Nú hafa yfirvöld greint frá því að þann 4. maí n.k., þegar slakað verður á samkomubanninu, muni hefðbundið skólastarf í leik- og grunnskólum hefjast á ný og heimilt verður að opna framhalds- og háskóla. Þá verður hámarksfjöldi fólks í einu rými fimmtíu í stað tuttugu en áfram á fjarlægð milli fólks að vera tveir metrar eða meira. Íþróttastarf barna verður heimilt utandyra ef ekki eru fleiri en fimmtíu saman í hóp. Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar verða áfram lokaðar.

Viðbragðsteymi Þingeyjarsveitar hefur fundað reglulega og m.a. verið að taka stöðuna með skólastjórum um skólahald næstu tveggja vikna. Tilkynning verður send út fyrir helgi um það fyrirkomulag. Við stefnum svo á að hefðbundið skólahaldi hefst aftur 4. maí.

Samkvæmt upplýsingarfundi með aðgerðarstjórn almannavarna í morgun þá hafa ekki greinst nein ný smit á okkar svæði né á öllu Norðurlandi eystra. Nú eru 85 manns í sóttkví og 19 staðfest smit, þar af 15 á Akureyri, 2 á Húsavík, 1 á Dalvík og 1 á Siglufirði.

Þrátt fyrir að að faraldurinn sé á niðurleið er mjög mikilvægt að halda áfram að fylgja fyrirmælum, aðstæður eru fljótar að breytast ef upp koma hópsmit. Þjónusta á vegum sveitarfélagsins mun því áfram verða takmörkuð líkt og áður hefur verið auglýst.

Við reiknum með að hefðbundin starfsemi skrifstofu sveitarfélagsins hefjist að nýju þann 4. maí.

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri