Fulltrúar SSNE í heimsókn

Fulltrúar frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi eystra (SSNE) funduðu með sveitarstjórn á Breiðumýri í vikunni. Þar sögðu þau frá starfsemi og verkefnum SSNE. Fundurinn var ákaflega góður og var farið um víðan völl, enda gafst sveitarstjórnarfulltrúum þar tækifæri til að ræða þær áskoranir sem sveitarfélagið stendur frammi fyrir.

Hlutverk SSNE er að þjónusta sveitarstjórnir og atvinnulíf allt frá Siglufirði í vestri að Bakkafirði í austri (að Tjörneshrepp undanskildum). Til dæmis með því að innleiða og fylgja eftir sóknar- og byggðaráætlunum og gæta hagsmuna sveitarfélaganna utan starfssvæðisins. Stuðla að öflugu atvinnusvæði til framtíðar með stuðningi við nýsköpun og atvinnuþróun og hagsmunagæslu þar að lútandi ásamt því að annast greiningar, þekkingaröflun og þekkingarmiðlun.

Nú er að hefjast vinna við nýja sóknaráætlun. Sóknaráætlanir landshluta eru stefnumótandi áætlanir sem taka til starfssvæða landshlutasamtaka sveitarfélaga. Í þeim koma fram stöðumat viðkomandi landshluta, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir til að ná þeim markmiðum. SSNE hvatti sveitarstjórnarfulltrúa og íbúa til að taka þátt í gerð nýrrar sóknaráætlunar.

SSNE sinnir ráðgjöf á sviði atvinnuþróunar, nýsköpunar og menningarmála til einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga á Norðurlandi eystra. Íbúar og fyrirtæki eru hvött til að nýta sér þekkingu og aðstoð öflugs starfsfólks samtakanna.