Félagsgróðurhús og aðstoð við makaleit

Mótun heildstæðrar stefnu fyrir Þingeyjarsveit stendur nú yfir! Tveir fundir hafa þegar verið haldnir, í Stórutjarnaskóla og í Skjólbrekku. Við þökkum íbúum fyrir góða mætingu og frábærar umræður! 

Þær fóru um víðan völl og ljóst að flestir hafa skoðanir á því hvert sveitarfélagið á að stefna. Framtíðarhugmyndir voru margar og ólíkar en kjarninn í þeim væntumþykja gagnvart samfélaginu og náunganum. Til að mynda var rætt um mikilvægi þess að nýta jarðvarmann okkar betur, mikilvægi góðra vega, að Friðheimar norðursins ættu að rísa í Þingeyjarsveit og nauðsyn þess að efla hreyfingu eldri borgara. Að virkja meira, að virkja minna og að efla hringrásarhagkerfið. Hugmyndir um hraðstefnumót innan þessa víðfema sveitarfélags litu líka dagsins ljós; kannski þyrfti að aðstoða fólk við að finna maka innan sveitarfélagsins til að koma í veg fyrir brottflutning. 

Hér má sjá myndir frá fundunum í Stórutjarnaskóla og Skjólbrekku.

Enn gefst íbúum tækifæri til að koma með sínar hugmyndir og tillögur inn í stefnumótun sveitarfélagsins. Á rafrænum fundi 23. apríl kl. 16:30!

Á fundinum verður leitast við að fá fram áherslur íbúa sem innlegg í mótun stefnunnar. Þá verður horft til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og hvatt til umræðna um með hvaða hætti ný stefna geti stutt við innleiðingu heimsmarkmiðanna.

Nauðsynlegt er að íbúar skrái sig á fundinn til að fá fundarhlekk sendan HÉR. 

Áætlað er að fundurinn taki um 2 klst.

Afar mikilvægt er að fá innlegg íbúa inn í þessa vinnu og eru allir áhugasamir hvattir til þess að mæta og koma á framfæri sínum sjónarmiðum. Þeir sem mættu á staðarfundina eru einnig velkomnir á rafræna fundinn því án efa hafa ýmsar hugmyndir kviknað í kjölfar þeirra.

Ráðgjafafyrirtækið ARCUR mun sinna fundarstjórn og leiða umræður.