Bolla bolla bolla

Gleðilegan bolludag íbúar Þingeyjarsveitar, nær og fjær. Þessi bolludagur virðist ætla af stað með látum, gul veðurviðvörun í kortunum, ofurskálarleikur NFL-deildarinnar fór fram í nótt og rauði Ittala límmiðinn er sagður heyra sögunni til. En það raskar sennilega ekki ró Þingeyinga, enda flengingardagurinn heilagur á mörgum heimilum.

Óstaðfestur hluti sveitarfélagsins tók forskot á sæluna og gæddi sér á bollum í gær. Foreldrafélag Stórutjarnaskóla stóð fyrir sinni árlegu bollusölu eða langaföstusnúðasölu eins og forfeðurnir myndu kannski tala um, um helgina. Bollusalan er stærsta fjáröflunin í annars vel virku foreldrafélagi. Hringt er í íbúa skólasvæðisins og teknar niður pantanir, foreldrar koma svo saman og útbúa bollur sem eru síðan keyrðar heim til kaupenda.

Eftir margra ára reynslu eru foreldrarnir eins og vel smurð vél og afköstin slík að það tók aðeins um þrjár og hálfa klukkustund að útbúa hátt í 700 bollur og keyra út. Karl í Veisu var krýndur bollukóngur skólasvæðisins líkt og síðustu ár. Ekki fæst uppgefið hversu margar bollur hann keypti en sagt að þær myndu henta vel fyrir passlega stóra skírnarveislu.

Ef rýnt er í tölfræðina sést að norðurhluti Fnjóskadals er marktækt hrifnari af gerdeigsbollum en aðrir hlutar skólasvæðisins. Þar var skiptingin nokkuð jöfn, 55% seldra bolla voru vatnsdeigs og 45% gerdeigs. Í framdalnum, Bárðardal og í Kinninni var skiptingin nokkuð svipuð, um 70% vatnsdeigs og 30% gerdeigs. Ljósavatnsskarðið var áberandi minnst hrifið af gerdeigsbollum en þar voru 80% seldra vatnsdeigs.

 

Hér má sjá nokkrar myndir frá foreldrafélagi Stórutjarnaskóla, af framleiðslunni miklu.

Njótið dagsins kæru íbúar, enda kemur hann aðeins einu sinni á ári!