Engin starfsemi að Hlíðavegi 6 um stundarsakir

Húsnæði Þingeyjarsveitar að Hlíðavegi 6 hefur nú verið lokað tímabundið. Ástæða þess er sú að við ástandsskoðun sem Efla verkfræðistofa framkvæmdi, fundust rakaskemmdir í húsnæðinu. Samkvæmt skýrslu Eflu krefst ástand hússins mikilla aðgerða varðandi loftgæði og hollustuhætti. Á síðasta fundi byggðarráðs 8. maí sl. var byggingafulltrúa falið að meta annað ástand hússins áður en til framkvæmda kemur. Einnig var sveitarstjóra falið að ræða við notendur hússins og finna þeirri starfsemi sem fram fer í húsinu annan farveg meðan verið er að vinna að úrbótum. Starfsfólk sveitarfélagsins sem haft hefur sína viðveru á Hlíðavegi hefur nú flutt sig um set á Gíg og mun vinna þar á meðan húsnæðið er lokað.